. - Hausmynd

.

Afrísk tíska

Senegal

Gott fólk. Augabrýr eru svo 2010. 


Af veðri

 Senegal

Kaldasti árstími Senegal, þar sem hitinn er samt alltaf í tuttugu-og-eitthvað gráðum, er að renna sitt skeið.

Hitinn stígur fram á sumar, þar til regnið tekur við og börn þurfa ekki lengur að bera garðkönnur.


Hjólið

Senegal

Er að hvíla hjólið þessa dagana.

Suður Senegal

 Casamance

Kominn til Casamance í suður Senegal.

Hér eru mörg tré.

Fleira er ekki fréttum. 

 


Sem betur fer

_MG_0833 

Feginn að þurfa ekki að reiða mig á bifreiðar hér í Senegal.

Þær virðast margar hafa mátt þola ýmislegt.


Gambía og internetið



Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun til Gambíu, ólíkt flestum þjóðum.

Landamæravörðunum fannst alveg ferlegt að ég skildi sleppa í gegn án þess að borga fyrir vegabréfsstimpilinn.

"Ég hef aldrei heyrt að Ísland þurfi ekki vegabréfsáritun," sagði sá sem átti að stimpla vegabréfið. "Hvaðan hefuru þetta?"

"Frá þínum stjórnvöldum ... af internetinu."

"Internetinu!" sagði hann og hristi hausinn. "Aldrei treysta neinu sem stendur á netinu. Aldrei."

Hann stimplaði vegabréfið eftir að hafa fundið þartilgerðan lista - útprenntaðan af netinu.

---

Gambia er minnsta land Afríku og liggur inní miðri Senegal. Stærsti munurinn á ríkjunum er að í Gambíu er enska hið opinbera tungumál en Senegal er hluti af frönsku Afríku.

Farangurinn

 IMG_0840

Hjólið Surly Long Haul Trucker reiðhjól. Bögglaberi (Jandd) með burðapokum (Jandd). Framgrind (Jandd) með burðapokum (Deuter). Hraðamælir (Cateye). Bjalla. Hjálmur með baksýnisspegli. Lás. Pumpa. Viðgerðasett. Griplur.

Útilega Tjald (Marmot Limelight 2P). Svefnpoki (Marmot). Dýna (Thermarest). Vatnssekkur (4L). Vasahnífur. Höfuðljós. Þurrsekkur. Áttaviti.  

Fatnaður Zip-off síðbuxur. Tvær fóðraðar hjólreiðastuttbuxur. Regnbuxur. Regnjakki. Sandalar. Stuttermabolir. Nærföt. Föðurland. Sokkar.

Snyrtidót Tannbursti (Johnson&Johnson). Tannkrem. Tannþráður. Varasalvi. Rakblöð. Naglaklippur.

Lyf Malarone. Imodium. Síprox. Doxycyclin.

Myndavél Canon 5d Mark II með batterígripi. Linsa (Canon 24-70 2.8). Minniskort (Lexar, samtals 74 GB). Harðir diskar (Lacie 1 TB, 2x, annar sem backöp). Minnislykill (Verbatim 4GB). Myndavélataska með festingu við reiðhjól. Kortalesari. Rafhlöður.     

Bækur Lonley Planet: West Africa. The Shackeld Continent eftir Rboert Guest. Minnisbók.

Annað Ipod. Munnharpa. Passamyndir. Pípa. Tóbak. Sólgleraugu. SteriPen adventurer. Mittisbudda. Debetkort. Kreditkort. Bólusetningarskírteini. Karlmannshringur.


Sakna sundlauganna

Krossnes

Sakna þess að sitja í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni og hlusta á einhvern fastagest nöldra yfir útlendingum sem fara ekki í sturtu áður en þeir hoppa ofaní.

Eftir langan dag á hjólinu, búinn að svolgra sex til átta lítra af vatni án þess að fara á salernið, hef ég samt talsvert hlýrri hug til köldu laugarinnar en oft áður.

Vestfirðir Krossneslaug. 

Ekki gefa föt til Afríku

Ethiopia

Hina berfættu í Afríku vantar ekki háhælaða skó. Eða snjógalla. Eða stuttermabol merktan frambjóðanda repúblikana í Texas.

Fatagjafir Vesturlandabúa til Afríkumanna eru einhver mesti bjarnargreiði nútíma þróunaraðstoðar. 

Með smá afrískum viðskiptaháttum lenda fatagámarnir á mörkuðum í Addis Ababa, Dakar og annars staðar sunnan Sahara.  

Textílframleiðsla krefst baðmullaræktunar og ódýrs vinnuafls. 

Hvergi í heiminum eru jafn góð skilyrði til hvoru tveggja. 

En fataframleiðsla er erfið þegar stöðugt er verið að metta markaði með ókeypis fatnaði að utan. 

Ömurlegt er að sjá hvernig þjóðlegi, litríki klæðnaðurinn, sem einkennir Vestur Afríku, víkur fyrir hinu tuskulega sem dagar uppi í Góða hirðinum áður en því er fleygt til Afríku. 

Vesturlönd koma síðan í veg fyrir að Afríkumenn geti sent okkur föt - líkt og væri eðlilegt á frjálsum markaði - með verndartollum í líkingu við þá sem settir eru á landbúnaðarafurðir.

Finnum frekar stuttermabolunum önnur not og sendum gömlu innþröngu gallabuxurnar þangað sem sér ekki á svörtu ... á Selfoss. 

Frá Eþíópíu Þetta er það sem afrískum börnum vantar; góður snjógalli. 


Toubab

Senegal

Toubab Dialou heitir rólegt sjávarþorp í Senegal með hvítri strandlengju.

Þangað var förinni heitið fyrsta daginn.

Ég hjólaði meðfram ströndinni, gengum hvert þorpið á fætur öðru.

Þegar áfangastaðurinn virtist á næsta leyti fór ég að spyrja til vegar.

Toubab spurði ég með handapati og ætlaðist til að fá einfalt svar.

En það var sama hvort ég benti fram eða aftur veginn, alltaf svörðu heimamenn eins.

Átu orðið upp eftir mér, brostu breytt og kinkuðu kolli. Toubab - jájájá.

Ég fann loksins staðinn en skildi ekki í þessu rugli fyrr en nokkrum dögum síðar að ég byrjaði að veita athygli hvað börn kölluðu á eftir mér er ég hjólaði hjá.

Toubab! Toubab! Toubab!

Orðið þýðir nefnilega "hvítur maður" á tungumáli heimamanna, veit ég núna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband