. - Hausmynd

.

Nablus á Vesturbakkanum: Borg ótta og innilokunnar

bilin25nov 116Eftirfarandi grein birtist í Blaðinu föstudaginn 5. janúar 2007.

Ísraelar og Palestínumenn sömdu um vopnahlé á Gasaströndinni í desemberbyrjun, forseti Palestínu boðaði til nýrra þingkosninga skömmu síðar og eftir það stigmagnaðist spennan milli Fatah og Hamas aflanna. En á meðan öllu þessu stendur gleymist ástandið á Vesturbakkanum í Palestínu. Þar er ekkert er gefið eftir. Hernám Ísraela heldur áfram í takt við uppbyggingu Aðskilnaðarmúrsins svokallaða. Verst er ástandið í Nablus, fjölmennustu borg Vesturbakkans, þar sem morð, byssubardagar, innrásir og eyðileggingar hafa verið fastir liðir í áraraðir. Egill Bjarnason, greinarhöfundur, starfaði sem sjálfboðaliði í tæpa þrjá mánuði í Nablus, sem Ísraelski herinn kallar höfuðborg hryðjuverkamanna.  

 

Muhammad Faras er 24 ára gamall Palestínumaður, fæddur og uppalinn í Balata-flóttamannabúðunum í grennd við Nablus. Í jaðri borgarinnar eru einnig flóttamannabúðirnar Askar og Ein Beit El Ma en Balata er sú stærsta og skelfilegasta. Samtals búa 34 þúsund Palestínskir flóttamenn í grennd við Nablus og eru um 80% þeirra atvinnulausir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Muhammed Faras marga fjöruna sopið en sjálfur segist hann í raun aðeins hafa lifað hinu dæmigerða lífi Palestínumanns í Balata-flóttamannabúðunum.

,,Balata er ekki eftirsóknarverður staður til að búa á. Þeir einu sem virðast sækast eftir því að vera þar eru ísraelskir hermenn," segir Muhammed Faras,  í samtali við greinarhöfund, og vísar þar til þess að næstum hverja einustu nótt geri ísraelski herinn innrás í búðirnar.

Samkvæmt Ísraelska hernum eru Balata flóttamannabúðirnar einskonar gróðrarstía öfga og hryðjuverkamanna. Til þess að tryggja þjóðaröryggi sé strangt eftirlit nauðsynlegt í Balata, sem og annarsstaðar í Nablusborg. Samkvæmt upplýsingum frá hernum eru um 60% hryðjuverkaárása á Vesturbakkanum skipulagðar í Nablus.

Muhammed segir ástæður Ísraelsstjórnar aðeins fyrirslátt. ,,Markmið hersins er aðeins að sýna Palestínumönnum hver ræður! Það er ekkert sem gefur tilefni til innrása dag eftir dag, til þess eins að handtaka menn sem gætu hugsanlega framið ódæðisverk. Stundum koma þeir líka að tilefnislausu, aka inn á brynvörðum bílum, bíða þess síðan að eitthvert unglingagengi byrji að kasta steinum í bílana og þar með hafa hermennirnir ástæðu til gagnárásar. "

Innrásir Ísraelshers eru tvennskonar; annarsvegar eru umsvifamiklar innrásir þar sem tugir hermanna storma inn á svæði og hinsvegar þegar sérsveitir hersins koma undir huldu höfði, óeinkennisklæddir og til dæmis akandi palestínskum leigubílum.

Ef ekkert fer úrskeiðis ganga síðarnefndu heimsóknirnar iðulega snöggt fyrir sig: Herinn kemur, tekur af lífi ,,eftirlýstan hryðjuverkamann" án dóms og laga og fer að verki loknu. Svonefndar sérsveitir má því með sanni kalla aftökusveitir.

Í hinum hefðbundnu innrásum, sem eru mun algengari, er yfirlýst takmark annað, það er að handtaka útvalda andspyrnumenn. Við slíkar aðstæður er andrúmsloftið í búðunum svo eldfimt að það þarf lítið til að herskáir Palestínumenn láti til skara skríða gegn hernum. Skotið er á báða bóga og lýkur leiknum oftast með blóðbaði þar sem dauðsföll úr röðum Palestínumanna eru mun algengari en meðal hermanna, enda herinn margfalt öflugri.

Frá árinu 2000 til ársbyrjunar 2007 hafa 565 Palestínumenn verið drepnir af Ísraelska hernum í Nablus, að meðtöldum nærliggjandi flóttamannabúðum, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Bróðurpartur hinna látnu voru óbreyttir borgarar.

Muhammed Faras

Útgöngubann og eyðileggingar

,,Það gleymist stundum að hinir óbreyttu borgarar verða hvað verst úti þegar allt fer í bál og brand. Sett er útgöngubann á flóttamannabúðirnar, herinn hernemur oft tugi heimila og gerir að sínum bækistöðvum," segir viðmælandi okkar, Muhammed Faras, en heimili foreldra hans hefur tvisvar verið hernumið.

,,Í fyrra skiptið brutu hermenn niður stofuvegginn hjá okkur til þess að komast yfir í næsta hús. Í þokkabót mölvuðu riffilskyttur rifur á húsveggina og áttu þannig auðveldara með að skjóta á óvini sína, sem földu sig margir inn í húsasundum flóttamannabúðanna. Rúmu ári síðar komu fleiri hermenn í heimsókn og mölvuðu þá enn og aftur nýreistan stofuvegginn!"

Þetta átti sér stað árin 2001 og 2002 sem voru ein þau stormasömustu í sögu Nablus. Frá apríl til nóvember 2002 setti Íraelski herinn á stanslaust útgöngubann í 151 dag í allri Nablusborg. Á því tímabili var banninu aðeins aflétt í 65 klukkustundir allt í allt.

 

Skotinn og fangelsaður!

Þegar síðari uppreisn Palestínumanna (al-Aqsa Intifada) hófst 28. september árið 2000 var Muhammed Faras virkur í andspyrnuhreyfingu PFLP-kommúnistaflokksins. Hann segir hlutverk sitt mestmegnis hafa verið að skipuleggja mótmæli. Eftir örlagaríkan dag, liðlega einu ári eftir uppreisnina, ákvað Múhammed hinsvegar að snúa við blaðinu og hætta pólitískum afskiptum.

Þann afdrifaríka dag kom til átaka í gömlu borg Nablus þar sem heimamenn vörðust innrás ísraelska hersins. Upphaflega hélt Muhammed sig innandyra og fylgdist aðgerðarlaus með bardaganum, allt þangað til hann sá félaga sinn verða fyrir skoti í magann.

,,Þegar ég sá æskuvin minn liggja í blóði sínu á götunni þusti ég auðvitað umsvifalaust út. Þegar skothríðinni lægði í augnablik komst ég loks að honum, þá nær dauða enn lífi. Ég reyndi hvað gat að stoppa blæðingu úr sárinu en án árangurs. Þvínæst reyndi ég að bera hann í öruggt skjól en óheppnin elti okkur. Eftir að hafa staulast nokkra metra varð ég einnig fyrir skoti," segir Muhammed örlítið klökkur yfir því að rifja þennan sorglega atburð upp. ,,Ég áttaði mig ekki almennilega á því hvað hafði gerst fyrr en ég hneig niður; kúlan hafði hitt mig í lærið. Stundin var runninn upp, hugsa ég, þetta yrði mitt síðasta."

Muhammed skjátlaðist. Hann lifði bardagann af, ólíkt æskuvininum sem lést af sárum sínum á leið á spítala í sama sjúkraflutningabíl og Muhammed var fluttur með. Eftir að gert hafði verið að sárum hans var hann handtekinn af Ísraelska hernum og dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir meinta þátttöku í bardaganum. Hann er enn þann dag í dag haltur í fætinum eftir óhappið.

Eftir afplánunina setti hann sér önnur markmið í lífinu en að bylta hernáminu með beinum aðgerðum. Í staðinn eyddi hann púðri í að byggja upp félagsheimili í Balata-flóttamannabúðunum samhliða því að nema fjölmiðlafræði í háskólanum við Nablus. Það að upplýsa heimsbyggðina um ástandið í Palestínu gerir mun meira gagn en vopnaðar árásir, segir hann.

,,Að loknu námi ætla ég mér burt úr flóttamannabúðunum og eignast fjölskyldu á öruggum stað," segir Muhammed Faras og bætir við að flestir íbúar Balata stefni að hinu sama en fæstum verður ágengt. Hann bendir ennfremur á að þorri íbúanna trúi því enn að einn góðan veðurdag muni þeir snúa aftur til heimila sinna, til dæmis borgunum Haifa og Jaffa, þaðan sem fjölskyldur þeirra voru hraktar við stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

 

Innlyksa í eigin borg

Eftir að síðari uppreisn Palestínumanna hófst versnaði ástandið í Nablus til muna. Af ,,öryggisástæðum" afgirti ísraelski herinn borgina með vegatálmum og jók í samræmi við það eftirlit inni í borginni. Bæði opnunartími og inngönguleyfi gegnum tálmana eru algjörlega undir stjórn hersins.

Allar þær hömlur sem fylgja tálmunum hafa haft slæm áhrif á efnahaginn í Nablus, sem áður fyrr var borg iðnaðar og framleiðslu. Með vegatálmunum hefur verð á innfluttum vörum hækkað, meðal annars vegna aukins flutningskostnaðar. Sömuleiðis hefur dregið verulega úr útflutningi á vörum vegna boða og banna Ísraelsstjórnar þar um.

Aðskilnaðarmúr Ísraels, sem byggður er innan landamæra Palestínu, hefur einnig skaðað efnahag Nablus og annarra borga. Eftir að múrinn kom til sögunnar hefur reynst nær ómögulegt fyrir kaupmenn og bændur að selja vörur sínar á Ísraelskum markaði. Palestínumenn, sem áður unnu í Ísrael, en voru búsettir á Vesturbakkanum fá ekki lengur að ferðast á milli landamæranna og hafa því flestir misst vinnunna. 

En mannlegi þátturinn er kannski öllu verri. Langar biðraðir við vegatálma Nablus gera Palestínumönnum erfitt fyrir en biðin getur tekið allt að þrjár klukkustundir. Verst er þó þegar sjúkrabílar eru kyrrsettir á vegatálmum eða jafnvel meinað að fara í gegn en slíkt kemur upp með reglulegu millibili.

 

Hvítflibbaflokkur Fatah gegn harðlínu Hamas

Í Nablus eru flokkadrættir milli Fatah og Hamas stjórnmálahreyfinganna sérstaklega áberandi og er borgin klofinn milli þessara fylkinga. Í þingkosningunum fyrr á þessu ári vann Hamas yfirburðasigur í borginni með um 52% kjörfylgi en áður hafði Fatah haldið um stjórnartaumanna í borginni.

Ástæðan fyrir óvæntum sigri Hamas í Nablus, sem og annars staðar í Palestínu, er ekki vegna harðlínustefnu þeirra varðandi Ísraelsríki heldur hvítflibbastarfsemi forvera þeirra. Á meðan Fatah-ríkisstjórn Yasser Arafat og arftaka hans Muhamoud Abbas gerðist sek um stórfellan fjárdrátt og spillingu stuðlaði Hamas að uppbyggingu á velferðarkerfi Palestínu, svo sem með því að koma á laggirnar skólum og heilsugæslustöðum. Síðan Hamas komst til valda hefur flokkurinn aftur á móti átt bágt með að greiða opinberum starfsmönnum vegna refsiaðgerða Vesturveldanna sem miða að því að svelta efnahag ríkisstjórnar Hamas. Palestínumönnum var jú nær að ,,kjósa vitlaust".

Þrátt fyrir að efnahagur Palestínu hafi verið í frjálsu falli undir stjórn Hamas-samtakanna er tvísýnt hverjir myndu sigra komandi kosningar, sem forseti landsins og oddviti Fatah, Muhamoud Abbas, hefur boðað til. Hamas hefur nefnilega ekki enn tækifæri á að sanna sig í ríkisstjórn vegna téðra þvingana Vesturveldanna.

Á hinn bóginn er ósennilegt að kosningarnar verði yfirhöfuð haldnar. Það sem vakir fyrir Abbas með því að boða til kosninga á næstunni er að þrýsta á Hamas að taka tilboði Fatah um sameiginlega ríkisstjórn flokkanna þar sem ráðherrar verði flestir með sérfræðiþekkingu á sínu sviði. Líklegt er að Hamasmenn muni kjósa þann kost en þeir hafa þegar afboðað þátttöku í nýboðuðum kosningum.  

 

Framtíðarleiðtoginn í fangelsi

Það er augljóst að fráfall Yasser Arafats leiddi af sér leiðtogakreppu í landinu. Um Arafat ríkti mun meiri eining en gerir nú um Abbas, sem hefur lítið persónufylgi. Það háir Abbas að hafa þá ímynd meðal landa sinna að vera leppur Vesturveldanna sem fylgi þeim eftir í blindi. Ljóst er að Bandaríkin ætla að launa Abbas vinsemdina með háum fjárhæðum, sérstaklega eyrnamerktum eflingu lífvarðasveitar Fatah sem nefnist á íslensku sveit sautján.

Til marks um leiðtogakreppuna eru myndir af Arafat og Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah í Líbanon, áberandi á götum úti og mun algengari en veggspjöld af Abbas eða Ismael Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu.

Nýverið birti dagblaðið Palestine Times útkomu úr nýrri skoðanakönnun þar sem spurt var hvern fólk vildi sem næsta leiðtoga landsins. Samkvæmt henni er Marwan Barghouthi vonarstjarna Palestínumanna en 79% aðspurðra vildi hann sem framtíðarleiðtoga landsins. Abbas hlaut 61% stuðning í könnuninni og Haniyeh 62%.

Gallinn er nú samt sá að Barghouthi afplánar nú fimmfaldan lífstíðardóm í fangelsi eftir að Hæstiréttur Ísraels sakfelldi hann fyrir að hafa staðið á bak við morð á fimm Ísraelum. Hann hefur alla tíð lýst sig saklausan og telja margir að sakargiftirnar á hendur honum hafi verið uppspuni og málið sé fyrst og fremst pólitískt eðlis. Barghouthi varð frægur sem einn af aðal leiðtogum síðari uppreisnar Palestínumanna og stýrði þá al-Aqsa Martyrs Brides, vopnaðs arms Fatah. Hann hefur alla tíð fordæmt árásir á óbreytta borgara en hvatt til vopnaðrar baráttu gegn ísraelska hernum. Reynt hefur verið að fá Barghouthi lausan úr fangelsi í skiptum fyrir ísraelska hermanninn Gilad Shalit sem verið hefur í haldi mannræningja á Gasaströndinni frá því 25. júlí síðastliðnum. Hingað til hefur Ísraelsstjórn þverneitað körfunni.

Burt séð frá pólitískri afstöðu er þrautseigja og frelsisþrá það sem þjappar Palestínumönnum saman. Það er ótrúlegt hvernig þjóð, sem hefur þurft að þola hremmingar og gengdarlausa kúgun í áratugi, hefur náð að lifa með ósköpunum án þess að tapa alveg áttum. Og allir berjast þeir fyrir hinu sama:

Frjáls Palestína!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband