16.1.2011 | 00:00
Vitjanir með afa
Ágætt," sagði bóndinn í Skálholti þegar okkur afa bar að garði, hann með geldingajárnin, ég með myndavélina. Það er alltof lítið gert af að ljósmynda þessi hefðbundnu, mikilvægu störf."
Ég fylgdi afa, Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni, um uppsveitir Árnessýslu síðastliðið sumar. Myndir úr ferðunum birtust í jólalesbók Sunnlenska ásamt viðtali eftir Sigmund ritstjóra. Serían birtist í heild hér á blogginu.
Myndavélin vakti enga tilgerð hjá afa. Það var eins og hann hefði verið eltur af ljósmyndara alla sína starfstíð. Man helst eftir augnabliki þegar hann þurfti að teygja höndina eftir svæfingalyfi sem datt milli bárujárnsveggja í skemmu. Ég smelti myndum einsog um stórviðburð væri að ræða. Meðan fingurnir þreifuðu eftir lyfjaglasinu, leit hann í fyrsta sinn upp, beint í myndavélina. Og glotti.
Bændurnir voru líka hinir hressustu. Hefðu þó örugglega viljað að ég gerði stundum eitthvað að gagni. Þegar hross sem átti að gelda lét ófriðlega við afa spurði einn þannig að tónninn leyndi sér ekki: Hvurninn er það, afhverju gerðist þú ekki dýralæknir einsog hann afi þinn?"
Athugasemdir
Gaman að þessu!
elingunn@ismennt.is (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 12:14
Þú fórst bara í taugarnar á bóndanum, og ég skil það vel...:)
Bensó (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 22:37
Ég sá eitt sinn hest geldan þegar ég var 14 ára. Það var óhugnanleg upplifun bæði fyrir hestinn og mig og það var ekki bara af því að ég stóð óvart í skotlínunni. Ég veit hins vegar ekki hvernig hundinum á bænum leið eftir að hafa étið eistun.
Vendetta, 19.1.2011 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.