. - Hausmynd

.

Íslamska lýðveldið Egyptaland?

Giza, Egypt

Kúgum konur. Áfengisbann. Minna einstaklingsfrelsi. 

Þetta eru ekki beinlínis slagorð mótmælenda á Tahrir-torgi og þess vegna virðast nýjustu fregnir frá Egyptalandi á skjön við þá þróun sem hefur birst okkur undanfarið ár:

Íslamistar hljóta 70% þingsæta í Egyptalandi.

Múslímska bræðralagið hlaut flest atkvæði, 47 prósent, tæplega helmingi meira en al-Nour, harðlínuflokkur salafista.

Engu að síður er al-Nour nú orðið næstáhrifamesta stjórnmálaafl Egyptalands, miklu mun stærra en sérframboð sem komu undan arabíska vorinu, illu heilla fyrir frjálslynda byltingarmenn sem ruddu veginn í átt að lýðræði með hrópum og tvítum. 

Þessir flokkar eru nefnilega gjörólíkir, þrátt fyrir að vera ævinlega settir undir sama hatt í fyrirsögnum heimspressunar.

Múslímska bræðralagið er ævagamall íhaldsflokkur með pragmatískar áherslur í efnahags- og velferðarmálum.

Al-Nour flokkurinn er einskonar róttækt afturhald, í eðli sínu andsnúið lýðræði, með Kóraninn að stefnuskrá í málefnum kynjanna og einstaklingsfrelsis.

Ef al-Nour sækir fyrirmynd (og fjárstuðning) til Sádi-Arabíu, má kenna Bræðralagið við  Tyrknesku-leiðina; nútímavæðingar án vesturlandavæðingar - sama hvað Samúel Huntington segir.

Í fyrirlestri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fjallaði Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor viðWilliams háskóla í Bandaríkjunum, einmitt um hina Tyrknesku fyrirmynd endurreistra Arabaríkja og setti ekki síður í samhengi við kosningasigur íslamista í Túnis.

Á Tyrklandi er hagvöxtur án hliðstæðu í heimshlutanum á sama tíma og trúarlegum stjórnmálaöflum vex ásmegin.

Hnattvæðingin, driffjöður efnahagslegra tækifæri í Mið-Austurlöndum, hefur orðið til þess að þeir sem áður hefðu snúið sér að kommúnískum eða and-Amerískum öflum finna nú ákveðna vörn í pólitísku íslam, á Tyrklandi sem og annars staðar, virðist vera.  

En fyrir efnahag sem byggir á ferðaþjónustu fremur en iðnaði má segja að meðalvegurinn sé vandrataðri meðfram Níl.  

Að sleikja sólina í síðbuxum með sódavatn heillar fáan ferðamanninn, þó auðvitað teldum við hinir landhreinsun af þesskonar plebbum.

Nei, byltingin má ekki éta börnin sín.

Egyptar hafa hreinlega ekki efni á stjórnarfari í líkingu við olíuríkin Sádi-Arabíu og Íran.   

Hagkerfi landsins hefur mátt blæða fyrir byltinguna; nettó gjaldeyrisforði minnkað um helming og atvinnuleysi vaxandi vandamál.

Ískyggileg þróun, einkum ef haft er í huga að ójöfnuður, atvinnuleysi og hækkandi húsnæðis og matarverð voru á sínum tíma undirrót byltingarinnar.  

Hvaða leið Egyptar fara í mótun nýs lýðveldis ætti að skýrast við stjórnarmyndun og ekki síður við myndun nýrrar stjórnarskrár og í áætluðum forsetakosningum næsta sumar, ef herforingjaráðið sendur við orð sín.

Fyrstu skerf nýskipaðs þings verða mikilvæg og þar er ábyrgðin Bræðralagsins sem hefur í hendi sér að starfa með frjálslyndari flokkum eða þingmönnum salafista.

Margt bendir raunar til að þrátt fyrir allt ættu Bræðralagið og al-Nour erfitt með að starfa saman vegna veigamikils áherslumunns, einsog áður var rakið.  

En þó salafistum yrði kippt í stjórn má vona að róttæknin rjátlist af þeim við ábyrgðarhlutverkið, svona svipað og með íslenska stjórnmálaflokkinn sem einnig einkennir sig með grænum.

(Verkefni í áfanganum Alþjóðastjórnmál Mið-Austurlanda við Háskóla Íslands.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband