. - Hausmynd

.

Viðurkennum þjóðstjórn Palestínu!

Abbas og lifverdirnir „Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Hamas-hreyfingunni," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, aðspurður í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 út í tillögu utanríkisráðherra um að taka upp ,,eðlileg samskipti" við heimastjórn Palestínumanna. Heldur Geir þá virkilega að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hafi tekið jákvæða afstöðu til málsins vegna þess að henni líkar svo vel við pólitíska öfgamenn Hamas-samtakanna? Kýs Geir í staðinn að styðja kúgun, hernám og yfirgang Ísraela í Palestínu vegna aðdáunnar á Olmert forsætisráðherra landsins? Vonandi ekki.

Raunar virðist Geir misskilja málavexti umtalsvert. Hamas-menn halda vissulega um stjórnartauma í Palestínu en eru langt frá því að vera eini flokkurinn í þjóðarstjórn landsins. Frá því Hamasmenn komust til valda í lýðræðislegum kosningum hafa Vesturveldin sameinast um að einangra Palestínu með skelfilegum afleiðingum. Þjóðarbúið sveltur; opinberir starfsmenn fá ekki laun, samfélagsþjónusta er í lágmarki og fátækt hefur stóraukist - en nóg var hún nú fyrir! Vesturveldunum hefur með aðgerðunum tekist að berja á hinum almenna borgara í Palestínu. Þeim var jú nær að „kjósa vitlaust".

Nú hefur Noregsstjórn tekið frumkvæði í að rjúfa einangrun Palestínu með því að viðurkenna þjóðstjórnina tafarlaust og aflétta viðskiptabanninu. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar ,,ótímabært" að taka upp stjórnmálasamband við Palestínu. Ótímabært? Palestínumenn hafa búið við hernám Ísraela í hvorki meira né minna en fjörtíu ár. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun bíða boða frá Bandaríkjunum, rétt eins og viðkvæðið hefur verið í utanríkismálastefnu flokksins hingað til. Ætli það sé ekki vegna þess að þeir eru sérstaklega hrifnir af repúblikönum og fylgja þeim þar með eftir í blindni.

Birtist í Blaðinu 3. maí síðastliðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband