15.6.2007 | 17:39
Röðin til Ramallah

Balata-flóttamannabúðirnar eru nöturlegar yfir að lýta þennan laugardag rétt eins og aðra daga. En það er óvenju bjart yfir hinum tíu ára gamla Muhammed. Í fyrsta sinn á ævinni fær hann að ferðast langt út fyrir mörk Balata, alla leið til Ramallah í heimsókn til föðurbróður síns. Spennandi!
Foreldrar Muhammed eru ekki eins spenntir fyrir reisunni. Þau kvíða því að fara í fyrsta sinn með tvö yngstu börnin í gegnum öll herhliðin á leiðinni til Ramallah. Áhyggjuefnið er ekki endilega að upplifunin hafi slæm áhrif á börnin. Barnæska þeirra hefur hvort sem er verið brennimerkt af átökum - annað er óhjákvæmilegt í Balata. Nei, foreldrarnir kvíða því fyrst og fremst að vera niðurlægðir fyrir framan afkvæmin.
Foreldrarnir, Muhammed og 12 ára systir hans setjast upp í leigubíl. Eldri bræður Muhammed sitja eftir heima. ,,Ísrealarnir banna okkur að fara," segja bræðurnir við þann yngri. Ráða þeir öllu? Muhammed skildi þetta ekki.
Leigubílinn ekur áleiðis að Huwwara herhliðinu. Muhammed sér fátt merkilegt á leiðinni nema húsarústir, það er enginn á ferli þennan morgun enda laugardagur. Nema á endastöðinni. Þar er sko allt fólkið!
Feðgarnir stilla sér upp aftast í fólksmergðinni en mæðgurnar fara í biðröð kynsystra sinna. Karlmaður í röðinni snýr sér að föður Muhammed og segir hneykslaður:
,,Hermennirnir lokuðu fyrir alla umferð í klukkutíma! Bara sisvona!"
Faðirinn hnussar lágt, tekur tíðindunum annars með stótískri ró, enda öllu vanur þegar kemur að uppátækjum Ísraelshers. Muhammed starir undrandi framfyrir sig, reynir að sjá fyrir endann á þessari blessuðu röð og hugsar upphátt: Hvað á þetta droll að þýða?
,,Hermennirnir halda að við séum vont fólk og vilja þess vegna hafa eftirlit með ferðum okkar og farangri. Bíddu bara rólegur og gerðu eins og ég segi þegar þar að kemur. Þá fer allt vel," svarar faðirinn.
Og tveimur tímum síðar standa þeir feðgar fremstir í biðröðinni fyrir framan rammgert hlið. Handan hliðsins eru fjórir vopnaðir, glaðlegir hermenn að kveikja sér í sígarettu.
,,Næsti!" kallar einn hermaðurinn. Í sömu andrá tekur félagi hans sér stöðu og miðar hríðskotabyssu að hliðinu þar sem feðgarnir ganga inn. Muhammed skýlir sér lafhræddur bak við pabba sinn sem réttir þeim tvö skilríki. Hermennirnir segja eitthvað á tungumáli, sem Muhammed kannast ekki við, og því næst hvolfir faðirinn úr ferðatöskunni sinni. Hermennirnir gramsa og gera smá gis. Faðirinn tæmir líka vasana og gefur Muhammed merki um að gera slíkt hið sama. Sonurinn þarf líka að herma eftir honum þegar hann lyftir upp skyrtunni af ,,öryggisástæðum". Þeir standa enn í skotlínu hermannsins með byssuna, sem er eins og límdur við miðinn.
,,Jalla!" segir einn hermaðurinn loksins en í stað þess að rétt föðurnum skilríkin fleygir hann þeim í jörðina. Þegar faðirinn bifast niðurlægður eftir þeim horfa nærstaddir hermenn á Muhammed og glotta.
Mæðgurnar bíða eftir þeim fyrir utan herskýlið. Konuröðin gengur oftast hraðar fyrir sig, útskýrir móðirin fyrir Muhammed.
Það léttir yfir Muhammed þegar hann sest inn í rútu. Næstum laus frá þessum skaðræðis stað. Rútan mjakaðist af stað en ekki líður að löngu þar til hún stoppar aftur. Enn ein röðin. Farþegar bíða af palestínskri þolinmæði eftir því að röðin komi að þeim. Bílstjórinn safnar saman öllum skilríkjum, sem ísraelskir hermenn taka síðan við. Á meðan nokkrir þeirra rýna með nefið ofan í skilríkin vappa tveir hermenn um með dólgslæti. Annar bankar til að mynda með byssuskaftinu á gluggarúðu rútunnar sér til skemmtunar en farþegum til ótta.
Til þess að gera langa sögu stutta gekk ferðin hjá Muhammed svona fyrir sig þar til hann var kominn á áfangastað. Stanslaus stopp á herhliðum gerðu það að verkum að þessi tæplega fjörtíu kílómetra leið, frá Nablus til Ramallah, tók á fimmta tímann.
Þessi saga er aðeins eitt dæmi um það hvernig hernámið leggst á almenning í Palestínu. Heft ferðafrelsi hefur ekki síst áhrif á efnahag í landinu; vörur komst ekki til skila og fólk ekki til vinnu. Í takt við þetta allt smýgur ótti og angist inn á óhörðnuð börn.
Vesturlandabúar fá síðan reglulegar fréttir af því að Ísraelsstjórn ætli að fjarlægja hin og þessi hlið - nánast af tómri góðmennsku ef marka má fréttirnar. Þeir standa vissulega stundum við það en setja í staðinn bara upp nýtt hlið steinsar frá hinum gömlu.
Palestínumenn bíða þess, á herhliðum jafnt sem heima hjá sér, að ástandið breytist. Og það sama gerir alþjóðasamfélagið. Nema hvað að þar halda ráðamenn greinilega að málið leysist að sjálfum sér. Það þýðir ekki að grípa loksins inn í þegar þolinmæði Palestínumann er á þrotum með tilheyrandi uppreisn.
(Birtist upphaflega í málgagni félagsins Ísland-Palestína sem kom út í júní á þessu ári)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.