. - Hausmynd

.

Sadou segir: Ísraelsríki verður tortímt eftir nokkur ár

Sadou

Sadou heitir maður. Hann er annar eigandi Hebron Hostel og bróðir Asha (hasshaussins, þið munið). Rétt eins og bróðir sinn er Sadou verulega sagnaglaður náungi. Það veit ég að eigin raun eftir að hafa hlýtt á ófáar sögur af Múhameð spámanni, Abraham, Móses, Ismael og öllum hinum gröllurunum sem nefndir eru í Kóraninum, en hann virðist hafa það að markmiði að gera mig að Múslimstrúa. Honum miðir ekki áfram, get ég upplýst hér og nú.

Fyrsta kvöldið sem ég hitti þennan þegn Allah bar deilu Ísraela og Palestínumanna að sjálfsögðu á góma. Og Sadou var ekkert að skafa utan af hlutnum: ,,Ísraelsríki verður afmáð í einni leifturárás nágranna ríkja þess eftir fjögur til fimm ár. Iran er til í slaginn. Spurningin er ekki hvort önnur ríki fylki saman liði, heldur hvenær!" sagði hann með sinni yfirveguðu röddu.

,,Jesús spáði því réttilega að Ísraelsríki yrði stofnað en í framtíðarspánni segir ennfremur að Ísraelar muni uppskera því sem þeir sá. Hegði þeir sér vel, mun ríkið blómstra ævilangt. Hegði þeir sér illa, munu þeir gjalda fyrir. Ísraelar hafa alla tíð farið um með frekju og yfirgangi og munu þeir því hljóta maklega málagjöld," hélt hann áfram í véfréttastíl og lagði áherslu á síðustu orðin með snöggu handapati. Og ekki batnaði hrakspáin: ,,Ári eftir tortímingu hryðjuverkaríkisins, mun Jesús snúa aftur til Jerúsalem og leggja blessun sína yfir verknaðinn. Ísraelar áttu ekki annað skilið."

Gremja Sadou út í Ísraelsríki er auðvitað vel skiljanleg en svívirðilegar aðgerðir þeirra gagnvart Palestínumönnum eru efni í önnur blogg. Hinsvegar ætla ég að nefna eitt dæmi:

Hebron hostel hét upphaflega ,,Tabasco hostel", og hafði verið rekið farsællega undir því merki í liðlega fjörtíu ár allt þar til ísraelski umboðsaðili Tabasco sósanna frægu stefndi farfuglaheimilinu, vegna notkunar þeirra á nafninu. Málið fór fyrir dómstóla þar sem sósuframleiðandinn vann. Sadou og félagar þurftu að skipta um nafn á gistiheimilinu og borga himinháa sekt, sem gerði þá næstum gjaldþrota. Sadou segir að sósuframleiðandinn hafi upphaflega lagt fram lögsóknina að undirlægi Ísraelskra yfirvalda, vegna þess þeir hafi lengi ágirnst hluta hússins undir bækistöð fyrir lögregluna.

Þegar hingað var komið í spjallinu röskuðu tvær turtildúfur ró okkar í setustofunni. Sadou vatt sér fram, lét parið hafa herbergislykil og kom síðan glottandi til baka. Einn gesturinn á farfuglaheimilinu hafði víst pikkað upp stelpu og ... förum ekki nánar úti það. Allavega þá gaf þetta Sadou tilefni til að ræða við mig um kynlíf og ástarsambönd.

Þá kemur daginn að hann á tvær eiginkonur, sem er vissulega ekkert fátítt meðal múslima en í Kóraninum segir að menn megi eiga fjórar konur. ,,Ég kýs að fara milliveginn og stefni ekki á að fjölga í kvennabúrinu. Ég er ekki jafn öflugur og Múhameð, sem átti alls ellefu kellingar," sagði hann kíminn og byrjaði að dásama ágæti fjölkvæmis. ,,Hlutfallslega eru kvenmenn fleiri en karlar og til þess að engin þeirra sé skilin útundan er fjölkvæmi mjög hentugt. Slíkt kemur i veg fyrir vændi, fátækt og mörg önnur samfélagsmein. Gyðingarnir líta margir hverjir þetta fyrirkomulag hornauga en búa svo kannski sjálfir í stærsta hóruhúsi í heimi – Tel Aviv – en þeir eru auðvitað blindir fyrir eigin ósóma."

En andúrumsloftid milli kvennanna hlýtur að vera nokkuð rafmagnað, spurði ég sakleysislega. ,,Nei, nei. Í flestum tilfellum lifa þær í sátt við hvor aðra. Það veltur stundum á því hvort þær þurfi að búa allar undir sama þaki eða reka hver sitt heimili," sagði hann og bætti við, rétt eins og hann væri að reyna selja mér fjölskyldutryggingu: ,,Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af peningamálum. Guð skaffar, sama hversu mörg heimili þú rekur."

Það er sjálfsagt ekkert ósanngjarnt af mér að kalla Sadou öfgasinnaðan múslima. Hann gegnir virðulegu embætti innan íslamska samfélagsins í Jerúsalem og hefur hlotnast yfirnáttúrulegur máttur frá Guði sem gerir honum kleift að lækna sjúkt fólk með því að kyrja yfir þeim tilteknar bænir.

Sadou er algjörlega ópólitískur og mætti ekki einu sinni á kjörstað í síðustu heimastjórnarkosningum Palestínumanna, þar sem Hamasliðar fóru með sigur af hólmi. ,,Fólk kaus Hamas í góðri trú og átti alls ekki von á því að Ísraelar og Bandaríkjamenn myndu bregðast við með þeim hætti að reyna svæla stjórnina frá völdum," sagði hann.

,,Hamas, Fatah og allar hinir flokkarnir auglýsa mismunandi áherslur en eiga það allir sameiginlegt að vera gjörspilltar hreyfingar með óhreinum múslimum innanborðs. Ég myndi kjósa þann flokk sem hefði íslömsk gildi í hávegum, en því er ekki að heilsa í allri flórunni," sagði Sadou en hann notar Íran gjarnan sem mælistiku fyrir gott stjórnarfar og siði. ,,Íran er hreint íslamskt samfélag þar sem stjórnkerfið ber ekki keim þess bandaríska, ólíkt öllum örðum ríkjum Miðausturlandanna."

Þannig var nú það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert viðtal, ég vissi ekki að það væru til menn þarna í Palestínu sem væru svona ópólitískir, en svona gengur þetta. Ég vil fá mynd af Salame atta !

Ragnarr (IP-tala skráð) 19.9.2006 kl. 21:10

2 identicon

Ef ég væri mamma ín Egill þá væri ég andvaka allar nætur.
Gangi þér vel, kv.ammatutte.

ammatutte (IP-tala skráð) 19.9.2006 kl. 22:11

3 identicon

Greinilegt að þarna er á ferðinni maður sem veit sínu viti. Þeim vantar sannan framsóknarflokk þarna!

Arnþór (IP-tala skráð) 19.9.2006 kl. 22:27

4 Smámynd: GK

Það er ekki verið að láta mann vita af þessu bloggi... Jæja, nú fer ég að fylgjast með... Vonandi ertu í góðum gír og passaðu þig á mús-limunum...

GK, 19.9.2006 kl. 23:18

5 identicon

...ég er greinilega mjög kærulaus móðir því ég sef ágætlega:-) Samtal þitt við Sadou er mjög áhugavert og lífsviðhorf hans minna um margt á lífsviðhorf "Bóksalans í Kabúl". EG

Elin (IP-tala skráð) 19.9.2006 kl. 23:48

6 identicon

Þessi Sadou er greinilega magnaður naggur. Hefur hann ekkert íhugað að fara sjálfur í framboð?

Máni (IP-tala skráð) 20.9.2006 kl. 12:29

7 identicon

sannfærandi gaur þessi Sadou.. helduru að honum verði ekkert ágengt þessa 3 mánuði sem hann hefur til stefnu!?!!!

eva (IP-tala skráð) 20.9.2006 kl. 17:19

8 Smámynd: Egill Bjarnason

Sadou nytur greinilega mikils studnings medal islendinga. eg verda ad lata hann vita. ta kemur hann kannski til landins og innleidir somasamleg gildi, tad er ad segja eftir ad hann hefur verid kosinn forseti.

Egill Bjarnason, 20.9.2006 kl. 17:38

9 identicon

en sadou dæmigerður, trúa palestínumenn því enn upp til hópa að ísraelsríki verði sópað út af landakortinu?

Bjarni (IP-tala skráð) 20.9.2006 kl. 20:53

10 Smámynd: GK

Lifi fjölkvænið!!!

GK, 20.9.2006 kl. 22:45

11 identicon

Sadou getur gist heima hjá mér þegar hann kemur, svona á meðan hann kemur undir sig fótunum allavega :)

Máni (IP-tala skráð) 21.9.2006 kl. 07:53

12 identicon

Eftir svona stuttan tima her er nu erfitt ad fullyrda eitthvad um tad hvort ad skodun hans a tortimingu israel endurspegli vidhorf hins almenna palestinumanns. eg held ekki. tessi meining a frekar heima hja ofgamonnum, sem eru i minnihluta. tar ad auki er gjoreyding israelsrikis enn a stefnuskra hamas samtakanna, eftir tvi sem eg best veit. krafa palestinumann er einfaldlega ad stofna riki og fa tar med full yfirrad yfir vesturbakkanum, austur jerusalem og gaza. einfalt?

egill (IP-tala skráð) 21.9.2006 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband