27.9.2006 | 23:19
Orðinn kennari í flóttamannabúðum
Eftir nokkurra daga dvöl í þorpinu Qalkilya er ég nú sestur að í flóttamannabúðum í Nablus. Þar mun ég vinna í um þrjár vikur sem sjálfboðaliði og meðal annars fást við kennslu í ljósmyndun og starfa með skátaflokki svæðisins.
Flóttamannabúðirnar, sem nefnast New Askar, eru í útjaðri Nablus, fjölmennustu borg Vesturbakkans. Þær eru ekki beinlínis einsog ég bjóst við, en það er sennilega vegna þess að ég hef stundum of ýkt ímyndunarafl. Íbúarnir búa við kröpp kjör en þau skrimta þokkalega. Á stofnanamáli yrði svæðið sagt hafa svakalega hátt nýtingarhlutfall. Á þessu 1 2 hektara svæði búa um 700 fjölskyldur, sem á sínum tíma hrökkluðust frá heimilum sínum í t.d. Haifa og Jaffa. Hjálparsamtökin sem ég starfa hjá sjá um félagsstarf á svæðinu, menntun og annast hreyfihömluð börn.
--
Eins og áður sagði kvaddi ég þorpsbúa í Qalkilya í dag eftir fjögurra daga veru. Þar komst ég að þeirri niðurstöðu að Palestínumenn eru sennilega gestrisnasta fólk í heimi. Nokkrir almennilegir Palestínumenn á mínum aldri tóku mig upp á sína arma meðan ég dvaldi í bænum. Qalkilya er við grænu línuna svokölluðu, sem sker landamæri Vesturbakkans og Ísraels. Í gegnum tíðina hafa margir íbúar í bænum sótt vinnu til Ísrael og því verið nokkuð vel stæðir. En eftir að Ísraelar reistu aðskilnaðarmúrinn hefur dæmið snúist við. Þorpið er í dag umkringt múrunum hefur aðeins einn inngang. Þess vegna er orðið ómögulegt fyrir Palestínumenn að sækja vinnu til Ísrael og þar af leiðandi eru þeir vel stæðu flestir fluttir á brott.
Í þokkabót er aðskilnaðarmúrinn byggður fyrir framan grænu línuna og aðskilur því líka ræktunarland bænda í Qalkilya frá svæðinu. Slíkt hefur sett verulegt strik í reikninginn og ekki bætir úr skák yfirgangur Ísraelska hersins sem leggur sig fram við að hefta ferðir bænda á akra sína. Þannig er ástandið nær alstaðar þar sem múrinn liggur og samkvæmt áformum Ísraela, um að halda áfram byggingu aðskilnaðarmúrsins, verður ástandið enn skelfilegra. Takmarkið er að Vesturbakkinn verði á endanum eitt stórt fangelsi fyrir Palestínumenn, sem munu ekki komast leiðar sinnar í eigin landi!
--
Rétt eins og Múslimarnir er ég er byrjaður á hinum ævaforna Ramada-megrunarkúr. Frá sólarupprás til sólarlags fæ ég hvorki vott né þurrt. Þegar myrkrið skellur á háma ég í mig mat og japla síðan á einhverju fram að sólarupprás. Þetta er skrambi erfitt, en það er líka erfitt fyrir mig að svindla. Í fyrsta lagi verið ég þá fyrir miklu aðkasti og í öðru lagi er ekki hægt að fá skyndibita á daginn. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég laumast til að fá mér vatnssopa.
Athugasemdir
Þú er brúnni Egill en sjálfur arabinn, fussumsvei
ragnarr (IP-tala skráð) 27.9.2006 kl. 23:34
Nei ég er bara svona skítugur eftir að hafa sofið undir berum himni í þrjár nætur.
egill (IP-tala skráð) 27.9.2006 kl. 23:39
ég sef oft útí garði, ég fæ bara grasgrænu af því
ragnarr (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 11:08
Eru þetta nemendur þínir þarna á myndinni?
Elín (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 15:39
jááá Egill ég veit nú heldur betur hvað vesturbakkinn er...en jááá ég biðst afsökunar á þessum kenningum mínum um að þú værir á Íslandi ég veit betur núna eftir samtal okkar í gær...
Rikki (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 16:28
Gott Rikki. Krakkarnir á myndinni búa í flóttamannabúðunum en eru ekki nemendur mínir.
egill (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 16:40
Ég sá ekki að þetta væri mynd af þér, hélt þetta væri Mohammad Abdúlla eða einhver, frændi þinn kannski.
Völundur Jónsson, 29.9.2006 kl. 02:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.