10.2.2008 | 16:10
Flóttinn í borgina
(Grein eftir mig sem birtist í 24 Stundum 1. febrúar síðastliðinn)
Eftir alvarlega uppskerubresti vilja þorpsbúar í indverska ættbálkaþorpinu Basari gera staðinn aðlaðandi fyrir ferðamenn. Tveimur ferðalöngum frá Selfossi, Agli Bjarnasyni og Söru Kristínu Finnbogadóttur, var boðið að vera með þeim fyrstu til að heimsækja staðinn.
Fjórtán sæta jeppi, með tuttugu og fjórum farþegum, nemur staðar við lítið ættbálkaþorp fyrir miðju Indlandi. ,,Basari!" kallar bílstjórinn og réttir fram lófann að útlendingunum í aftursætinu. ,,Þrjátíu rúpíur, takk!"
Gestgjafarnir koma á augabragði og fagna okkur eins og höfðingjum. Á meðan einn þorpsbúanna skreytir mig með blómakransi reyni ég að rifja upp hversu oft ég ítrekaði fyrir tengiliðnum að ég vildi alls enga sérmeðferð. Ég stórefast um að almennir gestir fái viðlíka móttökur og sé að því búnu afhent íbúð héraðshöfðingjans sem dvelur þessa stundina við vinnu í höfuðborginni Delhi.
Í landi sem hýsir liðlega einn milljarð fólks er Basari ekki til á landakorti þrátt fyrir að þorpsbúar séu álíka margir og Akureyringar. Um þessar mundir er verið að byggja hótel, unnið að opnun minjasafns og veitingastaðar til þess að koma staðnum á kortið, túristakortið.
Umdeild stéttaskipting
Við erum eins konar tilraunaverkefni leiðsögumannsins, Surendra, sem byrjar ferðina á að útskýra fyrir okkur stéttaskiptingu hindúismans. ,,Samkvæmt trúnni fæðast hindúar inn í fjórar misháar stéttir: Brahmin, Kshatriya, Vaishya og Shudra. Með öðrum orðum: prestar, bardagamenn, viðskiptamenn og verkamenn. Hinir ósnertanlegu, Dalit, eru ekki taldir með en þeir vinna öll láglaunastörfin," segir Surendra sem er af viðskiptastéttinni Vaishya og bætir kankvís við: ,,Þá má þekkja af klæðnaðinum og ístrunni. Það er þeim að þakka hvað efnahagur landsins er á góðri siglingu."
Surendra er nútímalegur í viðhorfum og kveðst umgangast alla sem jafningja. ,,Já, já, ég heilsa alveg þeim ósnertanlegu og sit með þeim til borðs," segir hann en það ku vera stigsmunur á viðhorfum stórborgar- og landsbyggðarfólks. ,,Í borgunum eru skilin óljósari og fólk notar aðallega skírnarnöfn. Borgarbúar eru menntaðri og frjálslyndari og vilja þar af leiðandi leggja af skipulagða téttaskiptingu. Með tímanum verður hún úrelt."
Skítugar heimilisvenjur
Heimili Basaribúa eru flest steinhlaðin og þökin úr handgerðum moldskífum sem sitja á löngum grönnum trjágreinum. Allar dyr í húsunum eru yfirleitt ekki nema einn og hálfur metri á hæð til þess að gestir gangi ekki inn með of mikilli reisn. Enn undarlegri er sá siður heimamanna að maka stéttina fyrir utan heimilin með kúataði. Í augum hindúa eru kýr heilagar en saurinn þjónar einnig þeim praktíska tilgangi að mýkja gólfin og þykir ekki síst mikil húsprýði.
Þegar inn er komið má sjá að nútíminn er að ryðja sér til rúms. Öll heimili, nema þau fáu sem eru úr trjágreinum, hafa rafmagn og hin betur settu hafa sjónvarp og gaseldavél. Undanfarin ár hafa framfarir hins vegar látið á sér standa. Monsúnrigningarnar hafa brugðist bændum í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Margir hafa þurft að flýja til stórborganna í leit að vinnu. ,,Sumir skilja fjölskyldur sínar eftir í Basari og senda peninga heim en aðrir eru farnir fyrir fullt og allt," segir Surendra, vongóður um að túrisminn eigi eftir skapa mörg atvinnutækifæri. Á meðan við göngum um þorpið fjölgar stöðugt í krakkaskaranum sem flykkist forvitinn á eftir okkur. Þau höfðu flest verið að fylgjast með krikketleik en meira að segja leikmennirnir misstu áhugann á meðan við vorum á vappi. Það er augljóst að þorpið hefur hingað til ekki fengið sinn skerf af þeim fimm milljónum ferðamanna sem heimsækja Indland ár hvert.
En eiga börnin ekki að vera í skólanum? Jú, sum þeirra eru það. Það er að segja þau sem koma frá hástéttunum. Skólinn í þorpinu er, eins og allt á Indlandi, ofhlaðinn af fólki. Hluti nemenda situr á hnjánum á skólalóðinni og þreytir lokapróf þegar okkur ber að garði.
Kúltúr og kannabis
Síðar um daginn, þegar ég er einn á vappi að fylgjast með hópi manna í fjárhættuspili, er mér boðið te hjá einu af ótal hindúahofum í þorpinu. Þar hefur hreiðrað um sig gamall, blindur Indverji sem sagður er vera að tilbiðja guðina en í rauninni er hann rammskakkur. Með þjóðardrykknum, mjólkurteinu reykja hinir elstu í hópnum marijúana. Heimaræktað, segja þeir stoltir en verða stressaðir þegar ég hyggst ljósmynda afurðina. Smeykir við hina hörðu réttvísi að sjálfsögðu.
Undir kvöldið er okkur boðið á æfingu þjóðlegs fjöllistafólks í þorpinu. ,,Til þess að stemma stigu við því að fólk gleymi uppruna sínum reynum við að slá reglulega upp indverskum menningarhátíðum. Líka til að viðhalda mállýskunni sem er töluð á svæðinu. Nú orðið talar fólk mun frekar hindí eða ensku," segir Surendra ábúðarfullur en listamennirnir knáu eru að þessu sinni að æfa sig fyrir brúðkaup hjá fjölskyldumeðlimi héraðshöfðingjans sem ég minntist á í upphafi. Gestalistinn telur hvorki meira né minna en fimm þúsund manns.
Til stóð að gista tvær nætur í þorpinu en vegna 59. lýðveldisdags Indlands vilja félagar okkar í Basari bregða sér af bæ og síður skilja gestina eftir í reiðileysi.
Skakkur Brahmin Með hasspípu í hendi situr þessi aldraði Indverji í hindúahofi og tilbiður Ganesha og aðra merkilega guði.
Þjóðleg skemmtun Í Basari eru haldnar reglulegar menningarveislur til þess að viðhalda indverskum hefðum.
Kúaskítur Íbúar í Basari þekja heimilisstéttina sína með kúataði af trúarlegum og praktískum ástæðum.
Vatnsberi Kona á leið heim með vatn úr þorpsbrunninum.
Athugasemdir
Sæll Egill...
Vildi bara kvitta fyrir mig, rakst inn á síðuna þína af mbl.is
Lifandi frásagnir og frábærar myndir af framandi slóðum!
Sérstaklega flott myndin af gamla blinda manninum (minnir mig á myndir eftir Steve McCurry ef þú þekkir hann, rosa flottur ljósmyndari)
Góða ferð áfram!
Hildur Gestsdóttir (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 08:53
gaman að sjá hvað lífið þitt er spennandi
ég verð bara að bíða róleg og halda áfram að safna fyrir indlandsferðnni minni hvað verðuru lengi þarna úti ?
Ingibjörg, 12.2.2008 kl. 22:56
rumt halft ar. kem heim i juni. hvenaer ferd tu
Egill Bjarnason, 14.2.2008 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.