. - Hausmynd

.

Dagur í Karachi

Ég nenni nú sjaldan að blogga í dagbókarstíl en ætla að prófa í þetta skiptið.

Vaknaði upp úr klukkan 10 við frímínútnalæti á skólalóðinni fyrir neðan hótelgluggann minn.

Að morgunstússi loknu gekk ég niður í miðbæ Karachi. Á leiðinni keypti ég enska dagblaðið The Nation og var minntur á það á forsíðunni að í dag ætti ég tvítugsafmæli.

Borðaði morgunverð á lókal veitingastað. Te og eitthvað jukk sem verður best lýst sem eggjaköku.

Síðan fannst mér gráupplagt, fyrst ég var ekki lengur tjáningur, að heimsækja rakarann. Hann renndi yfir skeggstæðið og áður en ég vissi af var ég lentur í hárgreiðsluleik. Fór þaðan nýrakaður með fáránlega hárgreiðslu.

Við hliðin á rakaranum var símaþjónusta sem ég notaði til að hringja á þrjá staði. Fyrst í ónefndan Bhutto-fjölskyldumeðlim sem svaraði ekki, síðan í pakistanskan sjónvarpsfréttamann og loks á staðinn sem ég heimsótti klukkutíma síðar; Edhi-stofnunina.

„Edhi stofnunin rekur umsvifamesta sjúkrabílasístem í heimi án stuðnings frá hinu opinbera," útskýrðu þeir sem tóku á móti mér en þessi hagnaðarlausa stofnun er efni í heila grein.

Verður í nógu að snúast fyrir sjúkraflutningamenn á kjördag? Já, þeir héldu það nú.

Tveimur tebollum síðar var ég margs vísari um stofnunina en var boðið í vettvangsleiðangur í fyrramálið.

Þaðan hélt ég á skrifstofu Mannréttindastofnunnar Pakistan í Karachi. Hitti meðal annars lögfræðing sem var einn þeirra sem harðstjórinn Musharraf forseti fangelsaði fyrir mótmælaaðgerðir gegn aðför stjórnvalda að réttarkerfinu. Engin þar inni hafði trú á komandi kosningum.  

Borða síðan kvöldmat með mannréttindafrömuðunum á fínum hótelveitingastað. Ég setti mig í ákveðnar sparistellingar en lagði frá mér hnífapörin þegar ég sá að félagar mínir skófluðu í sig matnum með hægri hönd. Vinstri höndina má maður ekki nota því heimamenn skeina sér, án klósettpappírs, með henni.

Við ætluðum að enda daginn á einhverjum stjórnmálafundi en hann var víst blásinn af.

Á leiðinni aftur á hótelið kom ég við í klúbbhúsi fjölmiðlamanna í Pakistan. Stað þar sem starfsbræður skrafast við. Eftir að hafa mætt á nokkrar stórar fjölmiðlauppákomur er ég farinn að þekkja nokkra í klíkunni. Það var eitt og annað í fréttum.

Á hótelinu pikka ég þetta meðal annars inn á tölvuna. Sé að klukkan er orðin of margt fyrir ferð á netkaffi þannig að ég ætla að enda daginn - og bloggið - á því að horfa á bíómyndina um hinn afganska Flugdrekahlaupara í sjóræningjaútgáfu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...greinilega viðburðarríkir dagar þarna í Pakistan:) Það var gaman að heyra í þér áðan.

Elín (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 17:33

2 identicon

Það er allt í góðu að gera þetta við og við í dagbókarstíl - bara í góðu lagi. Gangi þér vel.

P.S. Mundu eftir rúllunni í bakpokann!!!!

Edda (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 00:18

3 identicon

Til hammo med ammo :P

Sara (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband