19.2.2008 | 08:07
Kosið um arfleifð Bhutto

(Greinin birtist í 24 stundum 13. febrúar síðastliðinn en ferskari fréttir af kosningunum er að finna í blaðinu í dag. Það kemur flestum á óvart hversu friðsamlega kosningarnar gengu fyrir sig og að úrslitin skuli vera sanngjörn.)
Morðið á Benazir Bhutto hefur lamað kosningabaráttuna í Pakistan. Tæp vika er til þingkosninga þar sem lýðræðisbylting er efst á dagskrá. Fari eins og óttast er, að Musharraf forseti hagræði úrslitunum, má búast við blóðugri uppreisn.
Þann 22. desember síðastliðinn kraup Benazir Bhutto við legstein föður síns, Zulfikar Ali Bhutto, dáðasta forsætisráðherra í sögu Pakistans. Viku síðar hvíldi hún í líkkistu á nákvæmlega sama stað, inni í hallarlaga grafhýsi sem hún lét reisa í stjórnartíð sinni.
Fjörutíu dögum síðar stóð blaðamaður 24 stunda við leiðið. Það var baðað blómum, umkringt snöktandi aðstandendum og fyrir utan höllina biðu þúsundir stuðningsmanna Benazir þess að fá að kveðja hana á lokadegi yfirlýsts sorgartímabils. Fólk var í svo mikilli geðshræringu að það braut niður hallarhurðina og þyrptist inn, hrópandi með brostinni röddu: Ó, Guð! Af hverju!? Benazir er saklaus.
Pakistanska lögreglan hefur handtekið þrjá vegna gruns um aðild að árásinni. Þeir tilheyra hópi nýrra jihad-árásarmanna sem hefur fjölgað ört síðan forsetarnir Musharraf og Bush sneru bökum saman í stríðinu gegn hryðjuverkum. Pakistanski herinn fékk gríðarlegan fjárstuðning til þess að kveða niður öfgamenn í fjallahéruðum Afganistans. Baráttan skilaði því að bókstafstrúarmönnum fjölgaði í heimalandinu og núorðið eru nánast engar sýslur landsins lausar við sjálfsvígsárásir. Á síðastliðnum tólf mánuðum hafa uppreisnarmennirnir í Pakistan staðið fyrir 48 sjálfsvígsárásum og kostað um 1100 manns lífið.
Óvinsælasti maður Pakistans
Að undanskildum morðingja Benazir Bhutto er óhætt er að fullyrða að Musharraf forseti sé óvinsælasti maður Pakistans um þessar mundir. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun telja 58% landsmanna að hann hafi liðsinnt morðingjum Bhutto. Sjötíu prósent aðspurðra vildu að hann segði af sér.
Þegar Musharraf ruddist til valda fyrir áratug gaf hann það fljótlega til kynna að hann væri lýðræðislegur einræðisherra sem bæri hag Pakistana fyrir brjósti. En á undanförnum árum hafa valdagræðgi og einræðistilburðir orðið mun meira áberandi. Vinsældir hans hrundu í síðasta mánuði þegar hann reyndi að reka forseta hæstaréttar. Sömuleiðis var ákvörðun hans um að fresta þingkosningum fram til 18. febrúar litin hornauga enda meiningin að draga úr samúðaratkvæðum til stuðnings stjórnmálaflokki Benazir Bhutto.
Musharraf rígheldur í völdin og er talið sennilegt að hann hagræði úrslitum kosninganna. Mögulegt þykir líka að hann muni á síðustu stundu slá kosningunum á frest, enn einu sinni. Kosningasvindl stjórnvalda er nú þegar hafið. Kjörstjórn landsins fær ekki að vera óháð stjórnvöldum og opinberum stofnunum og fjármunum er beitt til að smala atkvæðum fyrir stjórnmálaafl Musharraf, sagði blaðamaðurinn Faroo Adil í samtali við íslenskan kollega. Þetta er því ekki spurning um hvort niðurstöðurnar verði falsaðar, heldur hversu illilega og hverju kjósendur eru tilbúnir að kyngja.
Fingralangur formaður
Það skýtur óneitanlega skökku við að píslarvottur lýðræðisins skuli í erfðaskrá sinni velja son sinn og eiginmann til forystu í vinsælasta stjórnmálaflokki landsins,Pakistan Peoples Party (PPP). Á meðan sonurinn, Bilawal Bhutto, lýkur námi í sagnfræði í Oxford stjórnar faðir hans, Asif Zardari, arfleiðinni.
Sumpart var búist við að PPP myndi klofna við formennsku Asif Zardari en í ljósi aðstæðna virtust kjósendur ekki láta það á sig fá. Þegar Benazir sneri aftur úr sjálfskipaðri útlegð á síðasta ári var Zardari haldið frá sviðsljósinu. Hann var sínum tíma gerður að blóraböggli fyrir hrakförum Benazir í embætti forsætisráðherra. Zardari fékk þá viðurnefnið Herra 10% vegna þess hversu iðinn hann var við að stinga tíund af opinberum tekjum í eigin vasa. Í síðari stjórnartíð hennar gerðist eiginmaðurinn enn kræfari og viðurnefnið margfaldaðist. Herra 50% hefur samtals setið í ellefu ár bak við lás og slá fyrir hvítflibbabrot og enn bíða nokkrar ákærur úrskurðar dómara, þar á meðal ásakanir um aðild að morði á bróður Benazir Bhutto. Sumir af hans eigin flokksbræðrum trúa því meira að segja að hann hafi fyrirskipað morðið á Benazir. Slík sé peninga- og valdagræðgin.
Allt bendir til þess að PPP hreppi flest þingsæti ef engin brögð verða í tafli. Flokkurinn getur þá valið milli þess að mynda annaðhvort meirihluta með mörgum minni flokkum eða stjórnarandstöðuleiðtoganum Nawas Sharif. Líkt og Benazir Bhutto hefur Sharif tvívegis áður gegnt embætti forsætisráðherra. Í seinni tíð gerði hann landið nánast gjaldþrota og var hrakinn í útlegð af núverandi forseta. Þau eiga það einnig sameiginlegt að koma frá tveimur valdamestu fjölskyldum Pakistans. Í landi þar sem helmingur kjósenda er ólæs er hægt að ná langt með þekktu ættarnafni.
Forðast fjöldafundi
Þrátt fyrir að tæp vika sé til hins veigamikla kjördags er kosningabaráttan dauf. Allt þangað til nú, á síðustu metrunum, hafa stjórnmálaflokkar landsins látið lítið fyrir sér fara. Fólk er enn að ná áttum eftir alla ringulreiðina í kjölfar Benazir-morðsins og lítil stemning er fyrir pólitískum útifundum, vígvöllum sprengjuvarga. Í stórborgunum er það í raunar aðeins veggspjaldaþyrpingin sem gefur til kynna að kosningar séu handan við hornið.
Síðastliðinn laugardag hleypti PPP-flokkurinn kosningabaráttu sinni formlega af stokkunum. Fimmtíu þúsund stuðningsmenn mættu á útifund í suðurhluta landsins og hlýddu á ávarp hins nýja leiðtoga, Asif Zardari. Það
vakti athygli að hvergi sást folk veifa myndum af Zardari né hrópa stuðningsorð honum til heiðurs. Benazir er enn leiðtogi þeirra. Meira að segja þegar Zardari gekk á svið var nafn eiginkonu hans kallað í sífellu.
Við munum hefna morðsins á Shaeed Benazir Bhutto með því að koma á fót lýðræði og endurbyggja
dómskerfið. Breyta stjórnkerfinu í þágu hinna fátæku og undirokuðu Pakistana, tilkynnti Zardari í ávarpinu. Kosningabarátta PPP snýst aðallega um að fiska samúðaratkvæði og tala fyrir bættum hag fjöldans, lágstéttarinnar. Ekkillinn kvaðst ennfremur smeykur um að hljóta sömu örlög og eiginkona sín. Öryggiseftirlit á fundinum var óvenju stíft en vígasveitir ofsatrúarmanna virðast hafa haldið sig þúsund kílómetrum norðar þennan daginn þar sem 27 biðu bana í sprengjuárás á sambærilegri samkomu.
Pakistanar ráðþrota
Pakistanar eru hálfslegnir og óöruggir eftir alla harmleikina sem skekið hafa landið síðastliðin misseri. Flestir eru ráðþrota gagnvart vandanum, óánægðir með þá dökku mynd sem landið hefur en vongóðir um að vandinn muni
leiða til alþjóðlegrar hjálpar.
Nokkrir af viðmælendum 24 stunda kvörtuðu yfir hræðsluáróðri leiðtoga Vesturlanda um að kjarnorkuvopn landsins geti lent í höndum öfgamanna. Jihadistar gætu aldrei náð völdum í Pakistan og þar af leiðandi aldrei nálgast vopnin. Kosningarnar munu sýna hversu óvinsælir þeir eru í raun og veru, sagði einn fjölmiðlamaður og benti réttilega á að stuðningur almennings við öfgahópa hafi hrunið eftir að þeir byrjuðu að herja á Pakistan í auknum mæli.
Í janúar sögðust aðeins 24% landsmanna styðja Osama bin Laden, samanborið við 46% í ágúst á síðasta ári. Osama er sagður halda sig í löglausum fjallahéruðum Pakistans og Afganistans ásamt öðrum forystumönnum al-Qaeda og talibana en rúm 18% aðspurðra sögðust styðja þá hópa.
Sorg og reiði Fjörutíu dögum eftir kistulagningu minntust stuðningsmenn Benazir Bhutto hennar sem ótvíræðs leiðtoga Pakistan.
Áfram PPP! Á útifundi Pakistan Peoples Party á laugardag, en flokkurinn mun að öllum líkindum sigra í komandi kosningum. Sama dag létust 27 í sjálfsmorðssprengjuárás á sambærilegri samkomu í norðurhluta landsins.
Ekkillinn Asif Zardari segist ætla að hefna Bhutto með því að koma á fót lýðræði.
![]() |
Pakistanska stjórnarandstaðan sigraði í kosningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Glæsileg grein Egill, skemmtileg og fræðansi lesning. Og já takk fyrir kommentið á síðuna mína. Ég mun spenntur halda áfram að fylgjast með síðunni þinni.
Aron Björn Kristinsson, 20.2.2008 kl. 02:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.