23.2.2008 | 07:51
Klíka klæðskiptinga
(Birtist í 24 stundum 22. februar sl.)
Í stórborgum Pakistans og Indlands eru betlandi klæðskiptingar nokkuð áberandi. Þeir halda hópinn og hlýða skipunum meistara síns.
Auðvitað ávarparðu mig sem konu - er það ekki augljóst!?" segir Fauzia móðguð. Hún er klædd í litskrúðugan kjól, á háum hælum, með glansandi skartgripi og mellulega mikla andlitsmálningu sem nær samt ekki að fela skeggrótina.
Ég sest niður á kaffihúsi í Pakistan með þeim Fauzia og Hira. Heimamenn kalla þær hidjrur; konur í röngum líkama, með afbrigðilegan getnaðarlim, sem saman mynda órjúfanlega einingu í samfélaginu. Klíku sem nærist á betli, danssýningum og vændi.
Frá því að ég man eftir mér sem litlum dreng var ég utangátta. Allt þar til ég var tíu ára og sá hóp af hidjrum í hverfinu mínu. Eldri bróðir minn lamdi mig fyrir að sýna þeim áhuga og virðingu," segir Hira sem var útskúfað úr fjölskyldunni á barnsaldri en um leið tekin inn í nýtt samfélag.
Lagskipt samfélag
Hidjrur búa margar saman. Á hverju heimili er einn gúrú svokallaður sem ræður ríkjum. Ég var um leið gerð að nemanda hjá gúrú. Lærði að elda, dansa, sauma og hegða mér eins og dama," heldur Hira áfram en í hvert sinn sem gúrú deyr er elsti nemandi hans á heimilinu sæmdur titlinum.
Ejaz Ahsan, höfundur bókar um þennan þjóðfélagskima, segir samfélag hidjra raunar mjög lagskipt. Á tímum kóngaveldis á Indlandi, sem þá náði yfir Pakistan, höfðu þær völd í höllunum. Eftir að það liðaðist í sundur klofnaði samfélagið í tvennt. Annars vegar þær sem lifa á því að dansa í brúðkaupum og hins vegar betlara og kynlífsþræla. Virðulegri hópnum er illa við hvernig hinar koma slæmu orði á þennan lífsstíl," segir hann og telur að í Karachi, fjölmennustu borg Pakistans, séu tæplega tíu þúsund hidjrur.
Fimmtudagar til fjár
Þegar Hira varð sextán ára byrjaði hún að betla í slagtogi við systur sínar" og er enn að. Ég vinn að meðaltali átta klukkustundir á dag," segir hún og kveðst þéna vel yfir almennum lágstéttarlaunum. Flestir gefa okkur eitthvað enda boðar ógæfu að gera það ekki. Sérstaklega á fimmtudögum því þá eiga múslímar samkvæmt trúnni að gefa betlurum. Samt kemur stundum fyrir að við verðum fyrir aðkasti en ég hef ekki lent í neinu alvarlegu," segir hún, orðin liðlega þrítug.
Fauzia og Hira fyrirlíta vændi og segjast ennfremur ekki stunda kynlíf. Með hverjum ættum við að gera það? Hidjrur rugla ekki saman reytum. Við erum eins og systur," útskýra þær.
Ég kann vel við þennan lífsstíl, gæti að minnsta kosti ekki hugsað mér að vera í einhverju öðru starfi, en stundum óska ég þess að hafa fæðst sem stelpa," segir Hira jafnframt en er nú orðið órótt. Er þetta ekki orðið gott? Það er mikið að gera akkúrat núna ... "
Eins og flestum er kunnugt voru þingkosningar í Pakistan á dögunum. Ég varð vitni að því þegar nokkrar hidjrur hugðust láta að sér kveða á kjörstað var þeim vísað sitt á hvað. Fyrst í röðina fyrir konur, þaðan í karlaröðina og á endanum meinað að kjósa. Fregnir herma að á Indlandi hafi hidjrur meiri réttindi og meira að segja sinn eigin fulltrúa á þingi.
Hidjrur Betlararnir Fauzia og Hira þéna vel yfir meðal lágstéttarlaunum enda boðar ógæfu að gefa þeim ekki ölmusu.
Athugasemdir
"Já, það eru margar skúffur í henni Jóhönnu minni", var amma vön að segja.
Júlíus Valsson, 23.2.2008 kl. 12:06
Mjög fróðlegt.
Ég skil ekki á hvaða forsendum hægt var að meina þeim að kjósa. Ekki getur kjörstjórn á hverjum stað tekið ákvörðun um hver megi kjósa og hver ekki á grundvelli útlits og klæðaburðar? Er þá ekki alveg eins hægt að vísa einhverjum frá sem er í blárri skyrtu og með vörtu á nefninu? Sorglegt ef menn komast upp með svona geðþóttaákvarðanir án þess að neinn segi neitt. Vonandi breytist þetta.
Flott mynd hjá þér.
Greta Björg Úlfsdóttir, 23.2.2008 kl. 12:07
Egill ég sé að þú minntist á tónhlöðu hér í síðasta bloggi, þú veist hver skoðun mín er á því. Sarpur egill, Sarpur ! :D
Ragnar Sigurðarson, 23.2.2008 kl. 15:16
eg helt vid vaerum bundir ad utklja tetta mal i heita pottinum. tonhlada er thaegilegt og audskiljanlegt ord, sarpur ekki. to er spilastokkur jafnvel best.
Egill Bjarnason, 26.2.2008 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.