. - Hausmynd

.

Eyðimerkurævintýri

Skemmti mér skrambi vel í Jórdaníu. Eftir eina nótt í Amman fór ég suður í eyðimörkina og skoðaði gömul heimkynni araba á hinum heimsfræga stað Petra. Einum of túristavæddur staður fyrir minn smekk. Allar hallirnar, sem eru byggðar inn í kletta virka óraunverulegar, og til þess að trompa það eru druslulegir stillansar utan i sumum höllunum.  

Svo rambaði ég á Bedvinabyggð í nokkrum kílómetrum frá Petra. Ótrúlegt hvernig þetta hirðingjaþjóðfélag lifir í hellum í eyðimörkina. Mér var boðið í heimsókn í einn hellinn þar sem húsmóðirin lagaði te en heimilisfaðirinn var fjarri, sennilega á túristaveiðum í Petra að reyna ,,tvöþúsund ára gamla skildinga” á skitnar tvö hundruð krónur. Þau eiga einn krakkagrísling sem var mín vegna með stjórnlaus gestalæti en mamman dró þá fram vöndinn og rassskellti barnið. Því næst kallaði hún á geiturnar sínar með kokhljóðum sem ég vissi ekki að væri hægt að mynda.  

Alvöru Bedvinar flakka á milli staða með geitur, rollur og úlfalda en þeim fer fækkandi. Núorðið hafa margir Bedvinar fallið fyrir lífinu í stórborgunum og aðrir hafa selt úlfaldana fyrir Toyota pallbíl. Á Sínaiskaganum í Egyptalandi eiga hinsvegar að leynast ansi frumstæðir flokkar sem ég ætla mér að heimsækja, þannig að segi seinna meir betur frá þessu eyðimerkurfólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband