30.3.2008 | 10:26
Þrælkun fyrir alla
Afganskir flóttamenn í norðurhluta Pakistan lifa margir á múrsteinum. Til þess að skrimta verða börn vinnumannanna líka að strita minnst ellefu tíma á dag, sex daga vikunnar.
Eitt það fyrsta sem ég sé í einni múrsteinaverksmiðjunni er drengur, sem lærði ábyggilega að ganga fyrir nokkrum árum, með hjólaböru fulla af sandi fyrir föður sinn. Á meðan eru systkini hans upptekin við að móta múrsteina úr leðju.
Heimilisfaðirinn fær um 400 krónur á dag fyrir liðlega 1000 múrsteina sem verksmiðjan selur á um 2500 krónur. Með launum sér hann fyrir ellefu manns, allri fjölskyldunni, en hann virðist lítið reyna að takmarka barneignir. Kannski vegna þess að kóraninn segir að menn skuli ekki hafa áhyggjur, Allah muni sjá fyrir öllum.
Þegar búið er að móta múrsteinana eru þeir settir í ofn. Get ekki ímyndað mér að brennslan se eftirsóknarverð á sumrin í yfir 40 stiga hita.
(Skrifað í Pakistan en gleymdist að birta.)
Athugasemdir
Vinna konur og stúlkur ekki við þetta líka? Hvar eru þær?
Þórdís Bára Hannesdóttir, 30.3.2008 kl. 10:38
Þú kemur inn á athyglisvert mál þarna. Ertu viss um að það tengist trúnni að hann á svona mörg börn? Er það ekki frekar fákunnáttu og/eða skorti á getnaðarvörnum um að kenna?
Reyndar áttu afi minn og amma 11 börn saman, þau (það er að segja systikinin 11) eru fædd í sveit á Norðurlandi fyrir miðja síðustu öld. Aldrei gerðist ég svo djörf að spyrja ömmu mína um hvernig getnaðarvörnum hafi verið háttað í þá daga, mér þykir trúlegt að þær hafi einfaldlega ekki verið til staðar.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.3.2008 kl. 10:50
Grimm eru örlög barnanna að vera þrælað svona út.
Kristberg Snjólfsson, 30.3.2008 kl. 10:56
Er hægt að fá getnaðarvarnir á þessu svæði? Spurning hvort hann hugsi ekki sem svo að hanna hafi eitthvað með peninginn að gera heldur en að kaupa smokka. Maður getur aldrei staðhæft um hver ástæðan er að mínu mati.
Aron Björn Kristinsson, 30.3.2008 kl. 15:43
Já þetta er athyglisvert. Svoldið annar heimur þarna. Mér finnst alltaf jafn hrikalegt að hugsa til þessara barna sem alast svona upp. Held að fólki finnist þetta bara sjálfsagt, það þekkir jú ekki annað.
Kolbrún Jónsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:30
Þrælkun barna er að finna um allan heim og í öllum menningum. Þrælkunarhugtakið hefur líka verið breytilegt. Einhverjir menn sem komu til Íslands frá útlöndum á 9. áratug 20. aldar þótti það alveg fyrir neðan allar hellur hvað margir krakkar voru að vinna á Íslandi. Það sem maður kallar þrælkun og barnavinnu er "hefð" og hluti af þjóðfélagsmynd marga svæða á jörðinni, og það mótast af t.d. trúarbrögðum sem ekki virða líf barna eins mikils og fullorðinna.
Þú hugsar eins og dæmigerður VesturlandaEgill, því það eru nú aðeins á okkar svokallaða "vonda" menningarsvæði, sem að sögn gerir svo mikinn usla á þeim slóðum sem þú er nú, að barnavinna og þrælkun er að hverfa. Og eru reyndar margir ósáttir við það, eins og við sjáum.
Líka er hægt að nefna Tíbet sem dæmi, þar sem 95% landsmanna voru þrælar undir hæl 5% höfðingja áður en Kínverjar gleyptu ríkið. Þá var ekki gaman að vera barn í Tíbet þá frekar en nú. Þegar kommúnisminn varð að trú í Tíbet, urðu hins vegar 100% Tíbeta að þrælum undir hæl Kína.
Gæti verið að okkar menningarheimur og gildi séu best?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 31.3.2008 kl. 06:26
ju, stelpur strita lika. sa samt engar konur.
en audvitad spilar skortur a getnadarvornum storan tatt i stor fjolskyldunum tarna. tar ad auki ser madurinn orugglega hag i ad eignast morg born, fleiri vinnumenn.
ekkert ad tvi ad krakkar hjalpi til. tarna eru tau hinsvegar latin traela.
Egill Bjarnason, 31.3.2008 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.