31.3.2008 | 13:43
Maðurinn með hattinn
Ef ég man rétt sagði Erlingur Brynjólfsson, sögukennari í FSu, að leiðtogar með undarlega hatta væru yfirleitt varasamir.
Ahmad Shah Masoud er þjóðarhetja Afgana. Ef maður vissi ekki betur, mætti halda að hann væri forseti landsins, svo áberandi eru veggmyndir af honum (og sjaldséðar af sjálfum forsetanum).
Herkænska Masoud er goðsagnakennd. Sérstaklega sögur af því hvernig hann varði heimabæ sinn gegn Sovétmönnum á áttunda áratugnum. Hins vegar er hann sagður vonlaus pólitíkus.
Masoud varð andlit andspyrnuhreyfingar gegn talibönum. Stjórnaði fámennum en áhrifamiklum her. Og þegar ofstækismennirnir reyndu kerfisbundið að svelta uppreisnargjarna íbúa í norðurhluta landsins kom Masoud til bjargar á þyrlu fullri af brauði frá Tajikistan.
Dáður af blaðamönnum og leiðtogum í Vesturlöndum fyrir nútímaleg viðhorf. Ferðaðist um Evrópu í september 2001 til að vekja athygli á vinnubrögðum talibana. Snéri aftur til heimalandsins og fór dýrkeypt viðtal. Fréttamaðurinn stillti upp sjónvarpsvélinni fyrir framan hann, ýtti á play og ... allir drápust. Sprengjuvargarnir reyndust arabískir al-Qaedamenn en með morðinu var Osama bin Laden að launa talibanastjórninni greiða.
Þegar ég fer inn í opinberrar byggingar í Afganistan þarf ég venjulega að opna bakpokann minn fyrir öryggisvörðum. Þeir heimta margir að ég smelli af einni mynd, bara til að vera öruggir um að vélin sé ekki sprengja. Sennilega vegna þess að verðirnir vita hvernig hetjan þeirra var myrt.
Þeir sem nenna að lesa þessa lofræðu til enda hafa sjálfsagt áttað sig á því að aðdáendahópur Masoud hefur náð til mín. Lýtið á nýju höfundamyndina á blogginu. Ég er með höfuðfat sem Masoud gerði frægt, sást aldrei án, og gefur mér mikið streetkredit - í Afganistan að minnsta kosti.
Var maðurinn með hattinn varasamur?
Athugasemdir
Maður með hatt í íslensku umferðinni..... þá fer ég út í kant og bíð átekta.
Bergur Thorberg, 31.3.2008 kl. 14:05
Flottur
Kristberg Snjólfsson, 31.3.2008 kl. 14:08
Þú ert áhrifagjarn ungur maður...
GK, 1.4.2008 kl. 02:03
Þessi maður hefur verið hetja. Því miður eru slíkar oft vonlausir pólitíkusar og eins virðist líka alltaf auðveldara að drepa góðu gæjana en þá vondu, í raunveruleikanum, þó það sé öfugt í bíó.
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.4.2008 kl. 09:29
var ekki frekar mikið talað um þennan kall í talibanaheimildamyndinni frá national geographic ?
Ragnar Sigurðarson, 3.4.2008 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.