1.5.2008 | 20:24
Gengið í sundskýluveðri
Þessi eyðimerkurganga" stóð illa undir nafni. Eins og ég sagði í síðasta bloggi fékk ég far fyrstu áttatíu kílómetrana að nýja vinnustaðnum. Þaðan fór ég fótgangandi, húkkaði far, gekk meira, húkkaði aftur far og rölti síðan síðasta spölinn í kolniðamyrkri.
Gangan hófst við sólarupprás. Frá því að ég byrjaði ferðalagið í Indlandi, hef ég alltaf verið í peysuveðri. Í Karachi hefði reyndar verið stuttbuxnaveður, ef borgin væri ekki staðsett í íslamska lýðveldinu Pakistan. Í eyðimörkinni var sundskýluveður. (Afsakið, en ég hef aldrei horft á annað en Krakkaveðrið á Stöð 2 og met því yfirleitt skilyrðin út frá klæðaburði.)
Eftir aðeins nokkra klukkutíma á rölti meðfram veginum til Garmeh óku tveir lögreglumenn framhjá. Þeir stoppuðu, glenntu sundur fingurna og snéru höndunum í halfhring sem virðist í Miðausturlöndum allt í senn þýða: Hver ert þú? Hvað ertu að gera? Hvað villtu?
Löggan bauð mér far en mér leyst betur á að labba. Þegar við kvöddumst sagði annar lögreglumaðurinn með alvarlegum tón:
Ekki fara til Írak. Þú verður drepinn." Ég var nú ekki einu sinni að labba í átt að landamærum Írak en þakkaði nú samt löggunni heilræðið.
Uppúr hádegi tókst mér að húkka far í fyrstu tilraun. Þumbaralegur vörubílstjóri bauðst til að skutla mér hálfa leið, eða þar til leiðir skildu. Vegna tungumálaörðugleika töluðum við saman í stikkorðum. Hann kvartaði ekki yfir eldsneytisverði. Í Íran kostar bensínlítrinn tæpan tíkall og dísellinn er á tvær krónur!
Frá gatnamótunum gekk ég í nokkrar klukkustundir án þess að nokkur bíll æki framhjá. Ég var farin að halda að ég yrði að gista með skriðdýrunum. Til allrar hamingju var mér á endanum boðið far með timburflutningamönnum sem að vildu helst að öllu selja mér bílinn sinn.
Þeir óku með mig á örlítið vitlausan stað, þannig að ég varð að ganga síðasta spölinn að gistiheimilinu í Garmeh.
Á heimleiðinni fékk ég síðan far með franskri fjölskyldu að næstu rútustöð. Frekar óspennandi heimferð. Nema hvað, það er alltaf jafn fyndið að heyra heila rútu fara með bæn áður en lagt er í'ann.
Var samferða smaladrengjum smá spöl.
Áfangastaðurinn Garmeh. Þorpið er umkringt pálmatrjám, sandi og fjöllum.
Heimasætan á gistiheimilinu.
Athugasemdir
Skora á þig að skrifa bók,um þessa mögnuðu ævintýrferð hjá þér.Mjög skemmtilegar færslur hjá þér og ævintýralegar settar upp,það er einsog maður sé staddur á staðnum þarna.Farðu gætilega og gangi þér allt í haginn.
jensen (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 21:13
Sammála síðasta ræðumanni. Virkilega gaman að lesa þessa ferðasögu þína.
Anna Guðný , 1.5.2008 kl. 21:20
Ganga úlfaldar lausir þarna í eyði mörkinni, eða af hverju skiltið???
Það er nú rétt svo að ég trúi því að þessi fegurðardís sé heimasæta á gistiheimili, hélt fyrst að þetta væri prinsessa sem byggi í höll.
Alltaf jafn gaman að lesa ferðasöguna þína.
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.5.2008 kl. 12:13
egill, hef slæmar fréttir að færa.. ég held að krakkaveðrið sé hætt.. Ég er búinn að vera í algjörri krísu hérna síðustu vikur og varla þorað útúr húsi, mamma og pabbi hafa ekki viljað bera þá ábyrgð að velja á mig útiföt
Ragnar Sigurðarson, 2.5.2008 kl. 12:50
ónei krakkaveðrið er sko ekki hætt!:D Gaman að lesa ferðasöguna og ég tala nú ekki um þegar þú talar í krakkaveðri;)
Ester Bergmann (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.