24.5.2008 | 17:04
Ný skotför á nýjum miðbæ
Mikið er þetta friðsæll staður, hugsaði ég með mér á meðan ég gekk um Hamra-hverfið í Beirút framhjá kaffihúsum, ölknæpum og tískuvöruverslunum. Svo stoppaði ég fyrir utan eina fatabúðina, ekki til að skoða smart skó, heldur öll byssukúluförin á búðarglugganum.
Beirút er að vakna til lífs eftir að stríðandi fylkingar í landinu sættust. Kaffihúsin eru þéttsetin og fólk virðist vera í hálfgerðu hátíðarskapi.
Það er samt augljóst að ástandið er enn eldfimt. Hermenn, skriðdrekar, þyrlur og vegatálmar eru hvarvetna á sveimi. Fæstir trúa, að langvarandi friður hafi náðst. Það verði bara rólegt fram að þingkosningum á næsta ári.
Þetta er skrifað á kaffihúsi í miðbænum, staðnum sem Ísraelar jöfnuðu við jörðu fyrir tveimur árum. Nú eru byggingarkranar á hverju strái og allt svo glansandi nýtt - með enn nýrri skotförum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.