. - Hausmynd

.

Horft aftur til hippatímans

Á opinberri ferðaskrifstofu Afganistan eru starfsmenn hissa að sjá útlendinga. Þar fást ferðabæklingar - prentaðir 1979, árið sem allt fór til fjandans. Einu útlendingarnir sem komu áratuginn á eftir voru rússneskir hermenn. Og Afganir hafa ekki upplifað friðartíma síðan. Band-e Amir

Bæklingarnir voru prentaðir undir lok blómaskeiðs ferðaþjónustu í landinu. Menn á borð við Erró ferðuðust milli Herat og Kabúl eftir hinum svokallaða hippaslóða sem lá frá London til Kathmandu.

Núorðið er blómstrar fátt annað en valmúi meðfram hippaslóðanum og þegar minnst er á ferðamenn í Afganistan er það yfirleitt vegna þess að þeim hefur verið rænt. Afganskir sendiráðsmenn eru hins vegar fúsir til að veita ferðamönnum vegabréfsáritun. Góða ferð. Farðu varlega. Búið.

En er fífldirfska að fara?

Ómarktækar aðvarnir

mazar_e_sharif.jpgÉg ferðaðist frá Pakistan til Afganistan gegnum Kyberskarðið, ekki síður frægt fyrir stigamenn en fallegt landslag. Engin ferðamaður fær að fara í gegn nema í fylgd hermanna. Til þess að gera mann enn smeykari töluðu Pakistanar um Afganistan sem algjört helvíti á jörðu. Með svipuðum tón og Indverjar tala um Pakistan.

Ég hafði óþarfa áhyggjur. Í raun og veru eru ferðamenn öruggur í Afganistan miðað við að vera í þriðjaheims ríki. Svo framarlega sem þeir halda sig utan talibanahéraðanna í suðurhluta landsins.

Tímaflakk

Með áhugaverðari stöðum í Kabúl er jarðsprengjusafn. Það er líka vel við hæfi. Fá lönd í heiminum eru eins vel þakin jarðsprengjum. Sömuleiðis er þess virði að þræða fjölfarin miðbæjarmarkað. Versla jafnvel minjagripi á borð við búrku og valmúahnífa. Faizabad, Afganistan

Höfuðborgin er augljóslega á hraðri leið inn í nútímann en ferðalög um landsbyggðina eru í líkingu við tímaflakk. Lifnaðarhættirnir, lífsviðhorfin og húsakynnin hafa lítið breyst frá hippatímanum. Meðfram þjóðveginum má svo sjá gamla rússneska skriðdreka á víð og dreif innan um stórbrotið landslag. Tákn liðinna tíma.

Í tíð ógnarstjórnar talibana var mönnum refsað fyrir að bjóða útlendingum heim í te. Reglan var algjörlega á skjön við þá ríku hefð landsmanna að heiðra aðkomumenn. Afganir eru í eðli sínu öfgamenn - í gestrisni. 

 Bamyan

Sjá landið útum bílglugga 

Mér skilst að Nato-liðar hafi hlegið þegar ferðahandbókarisinn Lonely Planet gaf út sérstaka bók um Afganistan á síðasta ári. „Hver á að nota hana?!"

Líklega hefur útgefandinn miðað út frá því, að í landinu dveldu að jafnaði um 50 þúsund alþjóðlegir hjálparstarfsmenn og hermenn. Og þeir fara í frí eins og aðrir. Gallinn er, að vegna strangra öryggiskrafa er starfsmönnunum bannað að ferðast um landið. Mega ekki einu sinni yfirgefa bílinn sinn þegar þeir eru á ferðinni vegna vinnu. 

 

Túrisminn mun aukast

Adib, hótelstjóri í Kabúl, er vongóður um að hægt verði að vekja túrismann aftur til lífs. „Eftir sirka tíu ár eiga ferðmennirnir eftir streyma hingað aftur. Það er að segja ef öryggisástandið batnar." Þetta sagði hann í einum af hans broslegu heimsóknum inn í herbergið mitt. Afganir eru vanir að gista margir saman í herbergi. Þekkja ekki eitthvað sem heitir einkalíf og næði. Þess vegna sjá hótelstarfsmenn ekkert athugavert við að vaða bara inn án þess að banka. Ýmist til að spjalla, fletta í bókum eða færa manni te.

„Ég meina, hér er allt sem þarf; fornar byggingar, fallegt landslag og þjóðlegar uppákomur. Það er bara þessi neikvæða ímynd ... " segir heimilislegi hótelstjórinn að lokum.

(Birtist í 24 stundum vorið 2008)


Band-e Amir Himinblátt stöðuvatn fyrir miðju landsins. Það kemur ekki á óvart að Afganir útskýri litadýrðina sem galdraverk Ali, frænda Múhameðs spámannas.  

Mazar-e Sharif Eitt af stoltum Afgana er grafhýsi spámannsins Hazrat Ali. Afganir segja að hann hafi verið jarðaður í kyrrþey í Mazar-e Sharif þó að múslimabræður í Miðausturlöndum séu á öðru máli.  

Bæjarprýði Faizabad Þessi gamli rússneski skriðdreki hefur fengið nýtt hlutverk.

Bamiyan Þarna stóðu eitt sinn 2000 ára gömul búddalíkneski. Þau stærstu í heimi. Allt þar til leiðtogi talibana, múlla Ómar, lét eyða þeim með dínamíti árið 2001.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aron Björn Kristinsson

Skemmtileg lesning Egill, hlakka til ad lesa fleiri umfjallanir.

Aron Björn Kristinsson, 25.8.2008 kl. 14:21

2 identicon

Takk fyrir þetta, en þetta land er einmitt á áætlun hjá mér að heimsækja.

Var einmitt að skoða athyglisverða síðu með myndum og texta frá Afganistan.  Þú hefur kannski líka gaman af..  http://avalon.unomaha.edu/afghan/index.htm 

Einar (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband