18.10.2008 | 18:15
Hanaat, hestaruðningur og flugdrekastríð
Afganir hafa undanfarin þrjátíu ár mátt þola linnulaus stríðsátök. Og íþróttir landsins eru eftir því. Allt sem er árásargjarnt trekkir að áhorfendur. Allt frá dúfna og hundaati yfir flugdrekastríð.
Sennilega fangar enginn leikur keppnisanda Afgana jafn vel og þjóðaríþróttin, Buzkashi. Henni verður best lýst sem ruðningi á hestbaki. Buzkashi þýðir bókstaflega að grípa geit. Enda boltinn á vellinum höfuðlaust hræ af geit eða kálfi, gjarnan látið liggja í vatni til að harðna.
Leikurinn hefst á því að knapar tveggja liða umkringja hræið. Þegar flautað er til leiks keppast þeir við að lyfta því upp að hnakknum og ríða í átt að marklínunni. Það eru engar reglur um fjölda þátttakenda en oftast eru það einungis atvinnumenn, chapandazan, sem ná árangri innan um fólksmergðina, hófana og svipurnar.
Dúfna og drekastríð
Dúfnaflug er álíka þjóðlegt sport og buzkashi. Hljómar sakleysislegt en er í raun grimm keppni. Þegar einn dúfnaeigandi lætur hirð sína lausa ögrar hann um leið nágranna sínum. Sá sleppir sínum dúfum í von um að fæla hinar í átt frá eigandanum. Menn nota flautur og fæði til að tæla dúfurnar og hremma þær síðan með neti. Vilji eigandinn fá þær aftur, verður hann að biða um þær með viðeigandi auðmýkt.
Eftir vinsældir Flugdrekahlauparans er eflaust mörgum kunnugt um flugdrekaaðdáun afganskra drengja. Stærsta flugdrekakeppnin er haldin í höfuðborginni Kabúl á nýársdag afganska tímatalsins um miðjan mars. Reglurnar eru einfaldar: Fljúgðu drekanum og reyndu að brotlenda þeim sem fyrir eru. Til þess er stjórnlínan glerhúðuð. Hlutverk flugdrekahlauparanna er síðan að grípa þá sem eru skornir niður.
Á föstudögum, hvíldardegi múslíma, mæta Afganir í almenningsgarða með hunda, hana eða aðra fugla. Tvö dýr af sömu tegund eru látin berjast, stundum til dauða. Æsingurinn er mikill enda veðja margir á úrslitin.
Aftaka í hálfleik
Ógnarstjórn talibana var á móti íþróttum og leikjum en einhverra hluta vegna þoldu harðstjórarnir fótbolta. Aftökusveit þeirra notfærði sér meira að segja vinsældir knattspyrnuleikja með því að taka glæpamenn af lífi í hálfleik á aðal leikvanginum í Kabúl.
Á ófriðartímum hafa milljónir Afgana þurft að flýja land. Fyrst vegna stríðsins við Sovétmenn, borgarastríðsins sem fylgdi á eftir og nú síðast innrásar Bandaríkjamanna. Á undanförnum árum hafa margir þeirra snúið aftur og vinsældir krikkets aukist í takt við endurkomur frá Pakistan.
Af öðrum hefðbundnum íþróttagreinum ber að nefna fjölbragðaglímu, hnefaleika og kraftlyftingar. Hástéttarfólkið og alþjóðaliðarnir sniðganga iðulega villimannslega alþýðuleiki og fara frekar útá nýlegan golfvöll Kabúl. Á veturna, þegar fennir yfir íþróttavöllunum, takast menn svo á innandyra yfir skákborði.
Í spretthlaupi kvenna á ólympíuleikunum í Kína mun fulltrúi Afganistan án ef skera sig úr. Í stað þess að vera í þröngum samfesting, keppir hún í hefðbundnum íslömskum klæðnaði.
Hinn nítján ára hlaupari, Mehoboba Andyar, býr í fátæktarhverfi í Kabúl. Í tíð talibana þurfti hún að spretta milli húsa til þess að forðast trúarlögregluna. Uppfrá því hefur hún lagt stund á spretthlaup þrátt fyrir erfiðar hindranir.
Eftir að þátttakan spurðist út hefur Andyar verið ofsótt af íhaldsömum karlmönnum. Það hafa ótrúlega margir hringt heim til þess að mótmæla. Oft eru dularfullir menn að slæpast í kringum heimilið og að næturþeli er grjóti kastað í gluggarúðurnar. Ég hef líka fengið fjölda hótunarbréfa, sagði hin hugrakka hlaupakona í samtali við dagblaðið Afghanistan Times.
Hanaslagur Eigendur hananna standa inn á vígvellinum, viðbúnir að grípa hanana við lok hverrar lotu. Hanarnir skaða hvorn annan með örvum, föstum við leggina.
Buzkashi knapar Villtasta íþrótt Afganistan snýst um að ríða með hræ af dauðri geit í mark. Flugdrekahlaupari Átök á árlegri flugdrekakeppni í Kabúl.
Hasaradrengur Færni hasarastráka með teygjubyssur er lesendum Flugdrekahlauparans kunn.
(Birtist í 24 stundum vorið 2008)
Athugasemdir
Skemmtileg og frodleg grein ad vanda.. Ekki vaeri nu leidinlegt ad sja eitt stykki Buzkashi leik:p
Aron Björn Kristinsson, 18.10.2008 kl. 20:15
Alltaf frábært að kíkja á pistlana og myndirnar frá þér. Fróðlegt og skemmtilega skrifað að vanda...
Lárus Gabríel Guðmundsson, 20.10.2008 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.