3.1.2007 | 03:16
Afbökuð orðabók Ísraelsstjórnar - leiðrétt útgáfa
Israel Defense Forces (IDF) er oftast þýtt sem Ísraelskar öryggissveitir eða sjálfsvarnarsveitir og er gjarnan notað í fjölmiðlum. Á mannamáli heitir þetta Ísraelski herinn, hersetuliðið og/eða í sumum tilfellum aftökusveitir sem myrða ,,eftirlýsta" Palestínumenn án dóms og laga. Það er hreint út sagt smekklaus brandari að kalla hersveit, sem hefur annað eins heljartak á andstæðingum sínum, ,,öryggissveit". Það er ekki ósvipað því ef faðir sem berði börnin sín kvölds og morgna segðist einungis stunda sjálfsvörn. Í framhjáhlaupi má geta þess að Íslenska ríkið hefur einnig leikið sama blekkingaleik með því að kalla íslendinga út í heimi, vopnaða rifflum og klæddum í herbúning Friðargæsluliða. Sætt nafn.
Öryggisvirki (security fence) er opinbert heiti hins ægilega Aðskilnaðarmúrs á Vesturbakkanum. Þessi átta metra hái veggur er byggður til að skilja í sundur tvo kynþætti; gyðinga og araba. Hinir síðarnefndu eru með múrnum rændir stórum hluta land síns og gerðir að föngum á eigin heimili þar sem múrinn umlykur oft á tíðum borgir og bæi. Opinberlega var múrinn byggður til þess að hindra meinta hryðjuverkamenn úr röðum herskárra Palestínumenn til að eiga aðgang inn á svæði Ísraela. Slíkir menn hafa hinsvegar fundið aðrar leiðir til að ná fram hemdum og því bitnar múrinn aðeins á hinum almenna borgara Palestínu; skerðir ferðafrelsi hans verulega, rænir landsvæði og kemur í veg fyrir útflutning á vörum sem hefur í för með sér efnahagskreppu í landinu. Þrátt fyrir að múrinn hafi nú þegar aðskilið Vesturbakka Palestínumanna frá Ísrael og Jerúsalem hefur lítið dregið úr hernáminu í takt við uppbygginguna, eins og kannski ætla mætti. Í dag eru um 70 varanlegir vegatálmar á Vesturbakkanum sem hamla öllum samgöngum Palestínumanna verulega. Ojæja. Meðan Ísraelar eru öruggir og lifa í vellystingum eru þá ekki bara allir sáttir?
Gúmmíbyssukúlur eru það sem Ísraelsher notar stundum í árásum til þess að gera þær sakleysislegar í fjölmiðlum. Það er nú samt þannig að kúlurnar eru að mestu gerðar úr venjulegu stáli og aðeins slíðraðar með hörðu gúmmíi og ekki með oddi. Slík byssukúla getur hæglega mölvað bein í líkamanum og valdið alvarlegum skaða hæfi hún t.d. höfuðið. Gerum ekki mun á kúk og skít. Köllum þetta bara byssukúlur!
Landnemar og landnemabyggðir eru orð notað yfir Ísraela sem búa á afmörkuðum svæðum á Vesturbakkanum. Svæði sem flest voru rænd frá Palestínumönnum með valdi. Þessu ætti því að skipta út fyrir landræningja og landránsbyggðir.
Fleira dettur mér ekki hug svona í svipinn. En þessi listi getur áreiðanlega verið lengri. Endilega komið með ábendingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.