3.11.2009 | 09:21
Falin spýta
Á okkar fyrsta degi í Omo-dalnum heimsóttum við þorp Semaye-fólks. Svo kom í ljós að einmitt þetta þorp gerði út á túrisma. Rukkaði aðgang að sínu fólki og húsakynnum. Við það datt ljóminn af heimsókninni. Fyrir utan að minna óþægilega á dýragarð, á ég erfitt með að taka slík þorp trúanleg. Það teldist varla góð blaðaljósmyndun að fara í sýningarbásanna í IKEA til þess að mynda dæmigert skandínavískt heimili. Þorpsbúar vilja þar að auki ölmusu fyrir að sitja fyrir á ljósmynd. Það hlýtur að gera að verkum, að þeir reyni að toppa hver annan í ýktum klæðaburði?
Leiðsögumaðurinn minn var að farast úr magakveisu. Við biðum því með að fara inn í þorpið. Hann tók sér lúr á meðan ég fór í göngutúr. Eftir smá spöl settist ég í skugga trés. Þá sé ég að maður kom hlaupandi, veifandi eins og eitthvað hefði komið fyrir.
Það reyndist allt vera í himnalagi. Hann var bara svo spenntur að sjá mig og æfa sig í enskunni sem hann hafði lært í nærliggjandi UNICEF-skóla. Eftir að hafa tæmt orðaforðann sagðist hann þurfa að fara ná spýtu. Má ég koma með?
Hann tók mig í heimsókn á heimili bróður síns sem var að vísu uppi á fjöllum að reka skepnur þá stundina. Heimilið var girt af með trjágreinum og þar voru tveir strákofar; eldhús og náðarhús. Eiginkona bróðurins var í óða önn að mala maís þegar okkur bar að garði. Mér, gestinum, var boðið sæti á nautaskinsmottu og réttur trjábikar með köldu kaffi, löguðu úr hýðinu af kaffibaununum.
Undir lokin á þessari huggulegu heimsókn, bað ég um að fá að smella einni mynd af fólkinu á bænum. Alveg sjálfsagt, sagði húsfreyjan og tók fram sparifötin, skinnsvuntu með hvítum skeljum frá Kenya, og skrínið sitt, hálsmen og armbönd úr marglitum plastkúlum.
Við þurftum að halda ferð okkar áfram og ná í þessa blessuðu spýtu sem átti að vera hryggjarstykki í trjákofa. Spýturnar reyndust tvær og voru af einhverjum ástæðum faldar inn í miðjum runna lengst út í buska.
Á heimleiðinni kom drengur í Arsenal-bol hlaupandi til okkar og rétt mér handskrifaðan miða sem á stóð:
Erik. Drífðu þig til baka. Við þurfum að koma okkur til Weytto fyrir myrkur. Þinn leiðsögumaður, Kucha.
Þá hófst leiðangurinn til baka sem gæti allt eins verið efni í aðra sögu.
Fjölskyldumynd Fyrsta ljósmyndin þeirra?
Spýtan Annar þeirra hefur líklega fengið fatapakka frá hjálparstofnun.
Athugasemdir
andsk..alltaf er ressi ruslpostvorn tin med vesen vid mig. en otrulega er tetta spennandi og gaman hja ter, eg er alveg sma abbo! eg brosti tegar eg sa 'unicef' skrifad i textanum :] hafdu gaman kaeri vinur ! knus
saeunn (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 09:59
Góðan daginn!
Innilegar þakkir fyrir þessa skemtilegu frásögn.Lifði mig mjög svo inn í hana.
Einhverrra hluta vegna slær hjarta mitt á þessum slóðum,kannski vegna veru kristniboðanna íslensku á þessum slóðum.
Hjartans þakkir og vertu Guði falinn.
Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 4.11.2009 kl. 01:03
Flott skrif um ólíkan veruleika !
Lárus Gabríel Guðmundsson, 5.11.2009 kl. 02:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.