9.12.2009 | 07:42
Hryllingur, hryllingur
Hryllingur. Hryllingur," voru síðustu orð herra Kurtz í bókinni Innstu myrkur. Orð þessi eru viðkvæðið þegar kemur að umfjöllun á Vesturlöndum um Afríku. Fréttir, sem ekki eru stimplaðar mikilvægar en leiðinlegar", staðfesta fordóma fólks um Afríkumenn. Ef ekki nær sulti, þá að borða snáka, apa eða annan viðbjóð sem engin manneskja leggur sér til munns. Stjórnmálamenn taka cannabilisma fram yfir kapítalisma og þegar þeir eru kosnir til valda eru ekki birtar myndir frá kjörstað heldur af kjósendum með sveðjur á lofti.
Aldrei birta mynd af vel settum Afríkumanni framan á bókinni þinni nema sá hafi unnið til Nóbelsverðlauna," segir keníski rithöfundurinn Binyavang Wainaina í grein sinni Hvernig á að skrifa um Afríku. AK-47, útstæð rifbein, nakin brjóst: notaðu þær."
Þetta kallast Bob Geldof-heilkennið; að sjá einungis dauða og djöful þegar kemur að Afríku. Nefna álfuna aldrei nema í samhengi við eyðni, hungursneyð og barbarisma vegna þess að viðkomandi er svo annt um velferð íbúanna. Og tala helst um Afríku sem eitt land, þó að álfan samanstandi af 54 ríkjum og 900 milljón íbúum. Tóninn er: Hvað getum við gert til þess að bjarga Afríku? Ekki: Hvað getur Afríka gert til þess að bjarga sér sjálf?
Hér í Eþíópíu er eymd. Sá sem ferðast um landið getur auðveldlega blindast af þeirri fyrirfram vissu og séð einungis pottlaga sultarmaga og tannlausa betlara. Glaðlyndir og stæltir Eþíópíumenn eru ólíklegri til þess að rata í ferðasöguna. Samt eru þeir þúsund sinnum fleiri. Lýðræðisumbætur, uppgangur á byggingarmarkaði í höfuðborginni og góð kaffiuppskera - fyrirgefið, en hver hefur áhuga á þessu!?
Þessi lenska er kannski vel meinandi en hún stendur þróun fyrir þrifum. Það er ekki hægt að ætlast til mikils, ef fólki er stöðugt talin trú um landið þeirra stefni til helvítis - ef ekki komið þangað.
---
Birtist i útlagadalki Sunnlenska frettabladsins.
Athugasemdir
Frábær skrif hérna á ferðinni, gott að vekja athygli á þessu. Ég mæli með að þú horfir á Bal Poussiére (Dancing in the Dust) við tækifæri, þar er dregin upp mjög lífleg og skemmtileg mynd af mannlífi á Fílabeinsströndinni. Ekki oft sem maður rekst á svoleiðis gullmola þar sem aldrei er minnst á "afríska eymd og volæði" :)
Alda (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 09:07
Orð í tíma töluð segi ég nú bara. Einnig mætti kasta því fram að það eru fleiri en afríkubúar sem eru að berjast við aids og hungursneyð...
Aron Björn Kristinsson, 9.12.2009 kl. 17:18
Þú ert sumsé kominn til manna. Las pistilinn í Sunnlenska, en það er gott að lesa hann aftur.
elín Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 20:14
Like!
Eva (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 01:03
Sæll Egill.
Alveg er ég hjartanlega sammála þér og það er gott að lesa önnur sjónarhorn en birtast í hinum hefðbundnu fjölmiðlum í hefðbundnum, neikvæðum stíl.
Kveðja, Sigurjón
Sigurjón, 11.12.2009 kl. 11:07
Mjög góður pistill frændi, tek undir hvert orð með hliðsjón af mínum litlu kynnum af þessari ágætu heimsálfu.
Máni Atlason (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 04:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.