. - Hausmynd

.

Jemen og geiturnar þrjúþúsund

Berbera 

Þessi dagur byrjaði rólega. Svo rólega reyndar, að ég fór að hugsa mér til hreyfings. Að fara til hafnarþorpsins Berbera og húkka þar far með bát yfir Adenflóa til Jemen.

Í þann mund heyrði ég að sendlar hjá Sófasörfaranum væru einmitt á leið til Berbera. Að sjálfsögðu fékk ég að fljóta með.

Þegar þangað var komið rakst ég fyrir tilviljun á þrjá unga Sómala sem voru líka á leið til Jemen sjóleiðis. Að sjálfsögðu slóst ég í hópinn.

Þið eruð heppnir. Það fer einn á miðnætti en engin næstu tíu daga á eftir," sagði maður við höfnina. Að sjálfsögðu bókuðum við pláss.

Þvínæst gengum við frá vegabréfsstimplum hjá tollinum. Afgreiðslan gekk mun betur fyrir sig en við var að búast í spilltasta ríki heims. Að sjálfsögðu borgaði ég samt aðeins meira en aðrir.

Þarmeð var leiðin greið niður að höfn þar sem skipsmenn voru í óða önn að reka farminn okkar um borð - þrjú þúsund geitur, takk fyrir.

Að sjálfsögðu var þetta allt saman of gott til að vera satt.

Skipstjórinn hélt langa tölu á sómalísku. Af svipbrigðum ferðafélaga minna virtust þeir vonsviknir. Talandi þeirra varð hvass og fleiri blönduðu sér í umræðuna. Ég vissi ekki hvert deilumálið var en tók eftir að allir forðuðust að horfa framan í mig.

Eigandi bátsins, sem talaði ensku, tók af skarið og tilkynnti mér að ég væri ekki velkominn um borð. „Við gætum verið stoppaðir í Jemen fyrir að taka ferðamann. Við megum ekki við því. Ef það hættir að blása súrefni inn í bátinn lengur en fjórar klukkustundir byrja geiturnar að kafna."

Líkurnar á veseni eru sáralitlar en ákvörðunin er skiljanleg úr því verið var að flytja geitahjörð að andvirði 150 þúsund dollara.

Ég hafði alltaf búið mig undir að þessi þáttur ferðaplansins væri tvísýnn. Þetta er ekki beinlínis fjölfarin leið hjá ferðamönnum. Verst fannst mér þó að hafa komst alla þessa leið en verið snúið við á elleftu stundu vegna húðlits.  

Berbera Smábátahöfnin við Adenflóa.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Sigurðarson

Er það ekki ágætt. Stefnir ekki allt í að ástandið í Yemen verði óstöðugra en í Sómalíu, stríð í loftinu.

Ragnar Sigurðarson, 28.11.2009 kl. 19:13

2 identicon

eheheheheheh..he :)

sæunn (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 19:59

3 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt

Sigrún Óskars, 29.11.2009 kl. 00:08

4 identicon

Sæll Egill. Það er ekki laust við að ég hafi fundið til öfundar þegar ég rak augun í fyrstu línurnar. Bátsferð til Yemen yfir Adenflóa hefur lengi verið draumur minn.

Óska þér alls hins besta!

Kv. Eyþór.

Eyþór Magnússon (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband