4.12.2009 | 06:04
Hér eru ekki bestu þorrablótin
Tedrykkja og khat-jórtur er dægradvöl Sómalílandans. Önnur afþreying er takmörkuð. Bíómyndir eru bannaðar, dægurtónlist er frá djöflinum (vegna þess að hún kemur fólki til að dansa) og skáldsögur ... það les þær hvort sem er engin. Áfengi er harðbannað, í samræmi við gildandi Sharía-lög.
Reyndar nær bíómyndabannið bara til kvikmyndahúsa. Réttvísin sér í gegnum fingur sér með sjónvörp og gervihnattadiska sem ná enskum myndum með arabískum texta, hvorugt skiljanlegt hinum dæmigerða Sómala.
Þökk sé sjónvarpsleysinu eru landsmenn áberandi miklir sagnamenn. Fréttir eru fluttar á götum úti, kannski af náunganum sem kann að lesa dagblaðið.
Máski er einhver í smábænum Sheikh núna að segja frá heimsókn minni á laugardag. Þessi hvíti maður kom frá Írlandi og var þriggja metra hár. Hann spásseraði um bæinn og var stöðugt að beina risastóru myndavélinni sinni út í loftið. Já, ábyggilega blaðamaður*."
Segðu sís! Eða ekki ...
*Orðið blaðamaður er ekki til í sómalísku en enska orðið er alþekkt.
Athugasemdir
Ég vissi það að þú varst eitthvað öðruvísi á myndinni um daginn en að þú hefðir lengst um 50 sentimetra og orðinn þrír metrar eru tíðindi. Þú manst svo að mæta i jólahlaðborðið með fjölskyldunni klukkan 12:30 á morgun! Faðir.
PS: Ég sagði öllum í fyrragær að þú værir kominn til Jemen en svo ertu alltaf í Sómalíu?
Bjarni Harðarson, 4.12.2009 kl. 10:16
Þakka skemmtilegt blogg, verst hvað það er stutt stundum, hefur þú hugsað um að gefa út ferðasögu, það er að minnsta kosti einn kaupandi.
Góða ferð
Kjartan Björgvinsson, 4.12.2009 kl. 23:12
ja, eg atti bara svo mikid af obirtu efni fra somaliu :)
ps. eg er ekki 2,50 a haed!
Egill Bjarnason, 5.12.2009 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.