21.11.2009 | 08:18
Lög og della
Í kjölfarið neyddist ég til að fylgja fjórum löggum út á stöð til þess að útkljá málin" hjá varðstjóranum. Verra var að hann talaði enga ensku.
Eftir að hafa yfirfarið vegabréfið mitt í hálftíma, hélt ég að allt væri chikkarelle. Samt þurfti ég að bíða lengur. Eftir hverju?
Það kom í ljós þegar jeppi renndi í hlað og út steig maður um þrítugt, klæddur í Addidas-galla. Þú ert ábygglega að bíða eftir mér," svaraði hann eftir að ég hafði rakið raunir mínar. Og þú ert? Ég er bæjarstjórinn."
Núna fór ég að hafa húmor fyrir þessu.
Jijiga er ekkert krummaskurð. Íbúafjöldinn er á við Ísland. En túristar eru sjaldséðir, sem afsakar máski viðbrögð lögreglunnar.
Bæjarstjórinn ritskoðaði myndirnar af umferðalöggunni, baðst afsökunar á bullinu og bauð mér út að borða í sárabætur.
Auðvitað þáði ég það.
Jijiga Heimsóknin á lögreglustöðina tók óvænta stefnu.
Ferðalög | Breytt 30.11.2009 kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.11.2009 | 16:57
Fallegasta fólk í heimi?
Það eru fleiri en Íslendingar sem gera tilkall til þess að eiga fallegasta fólkið. Fegurð Eþíópíumanna er goðsagnakennd.
Stór hluti Eþíópíumanna er ólíkur hinum dæmigerða Afríkumanni í útliti. Með ljósa húð, fíngert nef og hátt kynbein.
Þegar Eþíópíumaður, sem sækir um landvistarleyfi í Bandaríkjunum, þarf að merkja við kynþátt; evrópskur, asískur, rómanskur eða afrískur; skilar hann auðu, segir sagan.
Því ljósari, því fallegri er viðhorfið. Kunningi minn, sem rekur verksmiðju í höfuðborginni, segir að Eþíópíumenn" líti niður á svertingja án þess þó að viðurkenna slíkan rasisma.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2009 | 06:40
Túristi 316
Sómalía skiptist í þrjú sjálfstjórnarhéröð; Sómalíu, Púntland og Sómalíland. Sómalía er samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hættulegasti staður jarðar og stjórnvöld ráða einungis yfir nokkrum götum í höfuðborginni Mogadissjú. Ástandið er skárra í Púntlandi en meðfram ströndum þess sigla alræmdir sjóræningjar. Svo er það Sómalíland. Það er kannski ekkert Disney-land en öryggisástandið er í sóma. Og þangað er ég farinn - sem túristi númer 316.
Fyrsta myndin frá Sómalílandi Ljósmyndari er hirðingjastelpa sem ég veit ekki hvað hetir. Ég veit heldur ekki afhverju ég er svona asnalegur.
Ferðalög | Breytt 30.11.2009 kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.11.2009 | 14:22
Hótel með hýenuútsýni
Hann Egill fer á fætur við fyrsta hýenugól ...
Hýenuarnar í Harar hafa reyndar til þess aðeins látið í sér heyra um miðja nótt. Hótelstjórinn segir að þær komi á völlinn fyrir neðan herbergið mitt en ég held að það sé sölubrella og afsökun fyrir öllu hundagólinu.
Það ku gömul hefð bæjarbúa að halda hýenuhjörðinni góðri með fóðri. Menn þurfa því ekkert að óttast, ef þeir rekast á eina slíka. Eða svo segja þeir.
Hér heyrir maður fólk segjast elska hýenur, líkt og um ketti eða fiðrildi sé að ræða, en ekki forljótar hræætur. Allavega er mitt viðhorf til þeirra mjög mótað af Lion King.
Hýenuungi Rakst á hann fyrir tilviljun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.11.2009 | 07:59
Blogg af síðustu sort
Frá Addis Ababa til Harar er tólf tíma akstur. Hápunktur ferðarinnar er þegar bílstjórinn stoppar í vegasjoppu og farþegarnir borða beonette eða spagettí með tómatsósu.
Mín mestu mistök voru að fara á almenningssalerni staðarins ÁÐUR. Án þess að ætla út í smáatriði, þá vantaði talsvert upp á vottun frá Heilbrigðiseftirlitinu. Og hitinn þennan dag magnaði stækjuna.
Trúið mér. Ég hef verið á gistiheimili í krummaskurði í Afganistan þar sem útikamarinn var svo viðbjóðslegur að flestir gerðu þarfir sínar í dyragættinni.
Verði ykkur að góðu.
Ferðalög | Breytt 14.11.2009 kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2009 | 11:37
Afrekskona og klaufi í kirkju
Ríflega helmingur Eþíópíumanna eru frumkristnir. Þeirra menning er sú ráðandi í landinu, þó að múslímar séu litlu færri.
Raní, vinkona mín hér í Addis Ababa, bauð mér með í messu annað kvöld. Athöfnin var mjög frábrugðin - og þrisvar sinnum lengri! - en ég á að venjast og með smávegis ýkjum má segja að kirkjan hafi verið á stærð við Kringluna. Klaufinn ég afhjúpaði mína heiðni með því að signa mig vitlaust og fleira í þeim dúr.
Raní í messu Hún er atvinnumaður í spretthlaupi, þjóðarsporti Eþíópíumanna, og tilvonandi Ólympíufari. Athyglin var því öll á henni þegar við gengum til messu. Agætis tilbreyting.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.11.2009 | 17:47
Matur og drykkur (og dóp)
Eþíópía er ekki land fyrir grænmetisætu eins og mig - flesta daga vikunnar. Ég segi flesta, því að á miðvikudögum og föstudögum er fastað". Þá borðar almenningur ekkert kjöt og matseðlar veitingastaðanna mér að skapi. Hina dagana eru einungis kjötréttir á boðstólnum. Jafnvel í morgunmat!
Annað sem kom mér á óvart var kaffimenning þjóðarinnar en Eþíópía ku heimaland drykksins. Ég átti einhvern vegin von á að þeir ræktuðu kaffi aðallega til útflutnings, eins og til dæmis Kenýamenn. Og hér er ekkert grín að hella upp á könnuna. Það verður að fylgja ákveðnu ritjúali við að mala og brenna. Samkvæmt hefðinni á að drekka þrjá litla kaffibolla í morgunsárið - með miklum sykri.
Þeir sem vakna ekki við þrjá bolla geta tuggið khad; laufblöð sem hafa örvandi áhrif á heilann og draga úr matarlyst. Samsvara líklega fjórtánföldum expressó.
Besti morgunmaturinn Nýveiddur fiskur úr Awasa-vatni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2009 | 11:49
Lært á klukku
Ef öryggisvörðurinn við bankann hliðin á netkaffinu, þar sem ég sit núna, yrði spurður hvernig klukkan hefði það myndi hann segja hana slá sjö. En á veggklukkunni inn í bankanum er vísirinn á einum - í stíl við venjur umheimsins.
Eþíópíumenn segja að klukkan sé tólf við sólarupprás en samkvæmt tímabeltinu er hún sex. Klukkan sjö segja heimamenn að hún sé eitt - eina klukkustund yfir sólarupprás - og þannig heldur það áfram fram að sólsetri, klukkan sex að kvöldi. Eftir það er klukkan svo og svo margar klukkustundir yfir sólsetur.
Annað: Árið er 2002, ekki 2009. Skemmtilegasta skýringin er að fregnin af fæðingu frelsarans hafi tekið sjö ár að berast frá Nasaret til Addis Ababa. Ég get ímyndað mér að loksins þegar leiðréttingin barst hafi verið of seint að skipta.
Klukkan eitt Það er eina klukkustund yfir sólarupprás.
Ferðalög | Breytt 20.11.2009 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2009 | 09:21
Falin spýta
Á okkar fyrsta degi í Omo-dalnum heimsóttum við þorp Semaye-fólks. Svo kom í ljós að einmitt þetta þorp gerði út á túrisma. Rukkaði aðgang að sínu fólki og húsakynnum. Við það datt ljóminn af heimsókninni. Fyrir utan að minna óþægilega á dýragarð, á ég erfitt með að taka slík þorp trúanleg. Það teldist varla góð blaðaljósmyndun að fara í sýningarbásanna í IKEA til þess að mynda dæmigert skandínavískt heimili. Þorpsbúar vilja þar að auki ölmusu fyrir að sitja fyrir á ljósmynd. Það hlýtur að gera að verkum, að þeir reyni að toppa hver annan í ýktum klæðaburði?
Leiðsögumaðurinn minn var að farast úr magakveisu. Við biðum því með að fara inn í þorpið. Hann tók sér lúr á meðan ég fór í göngutúr. Eftir smá spöl settist ég í skugga trés. Þá sé ég að maður kom hlaupandi, veifandi eins og eitthvað hefði komið fyrir.
Það reyndist allt vera í himnalagi. Hann var bara svo spenntur að sjá mig og æfa sig í enskunni sem hann hafði lært í nærliggjandi UNICEF-skóla. Eftir að hafa tæmt orðaforðann sagðist hann þurfa að fara ná spýtu. Má ég koma með?
Hann tók mig í heimsókn á heimili bróður síns sem var að vísu uppi á fjöllum að reka skepnur þá stundina. Heimilið var girt af með trjágreinum og þar voru tveir strákofar; eldhús og náðarhús. Eiginkona bróðurins var í óða önn að mala maís þegar okkur bar að garði. Mér, gestinum, var boðið sæti á nautaskinsmottu og réttur trjábikar með köldu kaffi, löguðu úr hýðinu af kaffibaununum.
Undir lokin á þessari huggulegu heimsókn, bað ég um að fá að smella einni mynd af fólkinu á bænum. Alveg sjálfsagt, sagði húsfreyjan og tók fram sparifötin, skinnsvuntu með hvítum skeljum frá Kenya, og skrínið sitt, hálsmen og armbönd úr marglitum plastkúlum.
Við þurftum að halda ferð okkar áfram og ná í þessa blessuðu spýtu sem átti að vera hryggjarstykki í trjákofa. Spýturnar reyndust tvær og voru af einhverjum ástæðum faldar inn í miðjum runna lengst út í buska.
Á heimleiðinni kom drengur í Arsenal-bol hlaupandi til okkar og rétt mér handskrifaðan miða sem á stóð:
Erik. Drífðu þig til baka. Við þurfum að koma okkur til Weytto fyrir myrkur. Þinn leiðsögumaður, Kucha.
Þá hófst leiðangurinn til baka sem gæti allt eins verið efni í aðra sögu.
Fjölskyldumynd Fyrsta ljósmyndin þeirra?
Spýtan Annar þeirra hefur líklega fengið fatapakka frá hjálparstofnun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2009 | 11:00
Fréttir úr Buskanum
Eg og leidsogumadur minn hofum thraett Omo-dalinn i sudurhlutanum sidustu sex daga. Oftast gaman, stundum erfitt, aldrei litilfjorlegt. Meira sidar.
Ferðamátinn Við ferðuðumst á puttanum og fengum yfirleitt far með vörubílum.
Ferðalög | Breytt 5.11.2009 kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)