. - Hausmynd

.

Leiðrétting frá ritstjóranum

Guðmundur Karl, ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins, þolir illa staðreyndavillur og sendi mér því leiðrétta útgáfu af forsíðuhaus þessa bloggs.

Fréttaritari Sunnlenska í New York kann honum bestu þakkir fyrir.


Svínaskólinn og náunginn í næsta herbergi

Ég deili íbúð með tveimur kvikmyndagerðamönnum. Annar er töffari, hinn nörd. Báðir djöfull skemmtilegir.

Hárið á töffaranum er orðið vel grátt en hann heldur sér ungum með því að lesa myndasögublöð og eiga kærustu sem er nokkrum áratugum yngri. Enginn veit, eða kann við að spyrja, hvað þessi ungi andi er gamall. Fæðingarárið finnst ekki  á Netinu (nema á heimasíðu sinni segir að hann sé 102 ára).

Um daginn spurði ég hvort hann hefði heyrt fréttirnar; búið væri að loka grunnskóla í hverfinu af ótta við svínaflensu.  

,,Svo pestin er komin hingað," svaraði hann, fljótur að komast að niðurstöðu: „Frábært! Það er alltof mikið af fólki hérna hvort sem er!"

Útrætt mál.


New York, New Work

Faizabad, Afganistan

Árið 2006 fékk ég bókina Portraits eftir ljósmyndarann Steve McCurry í jólagjöf. Hans frægasta mynd prýddi forsíðuna. Myndin af afgönsku stelpunni.  Tveimur árum síðar komst ég að því að myndin prýðir líka hvert einasta götuhorn og hvert einasta póstkort í Kabúl.  Frá Afganistan lá leiðin til Sýrlands. Komst þar í kynni við ljósmyndara sem hafði unnið sem starfsnemi fyrir téðan Steve.

Og nú er ég kominn til New York til þess að gera slíkt hið sama. Fyrsti dagurinn lofar góðu. Vinnan virðist aðallega felast í að skanna, flokka og vinna myndir úr safni meistarans sem nær allt aftur til ársins 1979. Um það leyti gat hann sér raunar fyrst frægðar fyrir að smygla sér inn fyrir landamæri Afganistan og færa umheiminum myndir af innrás Sovéta fyrstur manna.

Starfsbræður Steve Faizabad, Afganistan, 2008. 


Mestu úrhrök jarðar

Leigubílstjóri, Palestínu

Jæja, þá er áralangri rannsókn lokið. Mestu úrhrök jarðar eru fundin:

Leigubílstjórar.

Svikahrappar hvar sem er í heiminum. Notfæra sér fávísi ferðamanna, vitandi að þeir muni aldrei eiga viðskipti aftur.

En oft snillingar. Til þess að fá réttindi í London verður leigubílstjóri að leggja á minnið 25 þúsund götuheiti, staðsetningu og stystu leið. 

Leigubílstjóri Þessi geðþekki Palestínumaður afsannar Úrhrakskenningu Egils. 


Times Square

Times Square

Og þið sem hélduð að þar dýrkuðu menn bara Mammon ...


Markaður óvininum

Frá ÍranSíðustu þrjú ár hef ég átt þrjú vegabréf. Ástæðan: Ástand heimsins.

Fékk ísraelskt stamp-stigma í það fyrsta en til þess að komast til Palestínu þarf ísraelska vegabréfsáritun.

Öll ríki Miðausturlanda, nema Jórdanía, Egyptaland og Tyrkland, bann ferðamenn með vegabréfsáritun frá Ísrael. Þess vegna þurfti ég fá mér nýtt vegabréf tveimur árum seinna.

Loks fór ég til Bandaríkjanna en þangað gat ég ekki mætt með stimpil frá „öxulveldi illskunnar".

Mér skilst að það elski ekki allir Bandaríkjin, þannig að ég þarf máski að punga út 5100 krónum fyrir næsta ferðalag. Enn eina ferðina.

Frá Íran Heimurinn eins og hann birtist á Bandarísku sendiráðsbyggingunni  í Theran. 


Ég bý í Brooklyn!

Nágrannar

Hún er fríkuð, þessi fyrsta íbúð sem ég leigi um ævina.  Þar voru áður seld föt fyrir orthadox gyðinga en verslunarrýmið er nú kvikmyndastúdíó herbergisfélaganna. Innst í þessum geimi, þar sem fatalagerinn var áður, er búið að smíða þrjú herbergi ásamt eldhúskrók og henda upp sturtu og vaski.

Bakdyrnar liggja að garði sem er í eigu kirkju undir sama þaki en því miður notaður sem ruslahaugur. Það gerir ekkert til því ég er með lykil að þakstiganum. Og þaðan má sjá toppinn á Empire State.

Þetta er ekki hverfið til að klæðast bol með mynd af Yasser Arafat. Fyrir utan spássera fyrrum viðskiptavinir fatabúðarinnar að Brodway 495b. Þetta er heldur ekki hverfið til að hlaupa um nakinn. Handan við hornið er nefnilega lögreglustöð. Þetta er hins vegar borgarhlutinn til klæða sig eins og listaspýra ... 

Skammt frá er hjarta Williamsburg, hippahverfi borgarinnar og heimili tónlistarmanna, listamanna og bóhema. Þar er allt morandi í kaffihúsum - og ekki þessum stórfyrirtækjakeðjum sem hafa lagt allt undir sig annars staðar - second hand-fatabúðum og tattústofum. Við þremenningarnir á 496 Brodway erum hins vegar hvorki með tattú né rokkaralúkk. Stór mínus í street-kredit!

Nágrannar Orthadoxar við 496 Brodway. 


Austur verður vestur

Ég er fluttur til Ameríku, eins og frændur mínir gerðu forðum þegar kreppa skók Ísland. Að vísu fer ég með flugvél yfir Atlandshafið en ekki skipi. Og áfangastaðurinn er New York en ekki einhver hallærislegur staður í Kanada. Fer seinnipartinn á morgun og dvel í þrjá mánuði. Hef ekki tíma til að útskýra erindið hér og nú - enda ekki byrjaður að pakka.

Hanaat, hestaruðningur og flugdrekastríð

Hanaat

Afganir hafa undanfarin þrjátíu ár mátt þola linnulaus stríðsátök. Og íþróttir landsins eru eftir því. Allt sem er árásargjarnt trekkir að áhorfendur. Allt frá dúfna og hundaati yfir flugdrekastríð. Buzkashileikmenn

 

Sennilega fangar enginn leikur keppnisanda Afgana jafn vel og þjóðaríþróttin, Buzkashi. Henni verður best lýst sem ruðningi á hestbaki. Buzkashi þýðir bókstaflega „að grípa geit“. Enda „boltinn“ á vellinum höfuðlaust hræ af geit eða kálfi, gjarnan látið liggja í vatni til að harðna.

 

Leikurinn hefst á því að knapar tveggja liða umkringja hræið. Þegar flautað er til leiks keppast þeir við að lyfta því upp að hnakknum og ríða í átt að marklínunni. Það eru engar reglur um fjölda þátttakenda en oftast eru það einungis atvinnumenn, chapandazan, sem ná árangri innan um fólksmergðina, hófana og svipurnar.

 

Dúfna og drekastríð 

Dúfnaflug er álíka þjóðlegt sport og buzkashi. Hljómar sakleysislegt en er í raun grimm keppni. Þegar einn dúfnaeigandi lætur hirð sína lausa ögrar hann um leið nágranna sínum. Sá sleppir sínum dúfum í von um að fæla hinar í átt frá eigandanum. Menn nota flautur og fæði til að tæla dúfurnar og hremma þær síðan með neti. Vilji eigandinn fá þær aftur, verður hann að biða um þær með viðeigandi auðmýkt. Fludrekakepni

 

Eftir vinsældir Flugdrekahlauparans er eflaust mörgum kunnugt um flugdrekaaðdáun afganskra drengja. Stærsta flugdrekakeppnin er haldin í höfuðborginni Kabúl á nýársdag afganska tímatalsins um miðjan mars. Reglurnar eru einfaldar: Fljúgðu drekanum og reyndu að brotlenda þeim sem fyrir eru. Til þess er stjórnlínan glerhúðuð. Hlutverk flugdrekahlauparanna er síðan að grípa þá sem eru skornir niður.

 

Á föstudögum, hvíldardegi múslíma, mæta Afganir í almenningsgarða með hunda, hana eða aðra fugla. Tvö dýr af sömu tegund eru látin berjast, stundum til dauða. Æsingurinn er mikill enda veðja margir á úrslitin.

 

Aftaka í hálfleik

Ógnarstjórn talibana var á móti íþróttum og leikjum en einhverra hluta vegna þoldu harðstjórarnir fótbolta. Aftökusveit þeirra notfærði sér meira að segja vinsældir knattspyrnuleikja með því að taka „glæpamenn“ af lífi í hálfleik á aðal leikvanginum í Kabúl.

 

Á ófriðartímum hafa milljónir Afgana þurft að flýja land. Fyrst vegna stríðsins við Sovétmenn, borgarastríðsins sem fylgdi á eftir og nú síðast innrásar Bandaríkjamanna. Á undanförnum árum hafa margir þeirra snúið aftur og vinsældir krikkets aukist í takt við endurkomur frá Pakistan. 

 

Af öðrum hefðbundnum íþróttagreinum ber að nefna fjölbragðaglímu, hnefaleika og kraftlyftingar. Hástéttarfólkið og alþjóðaliðarnir sniðganga iðulega villimannslega alþýðuleiki og fara frekar útá nýlegan golfvöll Kabúl. Á veturna, þegar fennir yfir íþróttavöllunum, takast menn svo á innandyra – yfir skákborði.

 

Kona ... á ólympíuleikana!!!Hasari með teygjubyssu

Í spretthlaupi kvenna á ólympíuleikunum í Kína mun fulltrúi Afganistan án ef skera sig úr. Í stað þess að vera í þröngum samfesting, keppir hún í hefðbundnum íslömskum klæðnaði.

 

Hinn nítján ára hlaupari, Mehoboba Andyar, býr í fátæktarhverfi í Kabúl. Í tíð talibana þurfti hún að spretta milli húsa til þess að forðast trúarlögregluna. Uppfrá því hefur hún lagt stund á spretthlaup þrátt fyrir erfiðar hindranir.

 

Eftir að þátttakan spurðist út hefur Andyar verið ofsótt af íhaldsömum karlmönnum. „Það hafa ótrúlega margir hringt heim til þess að mótmæla. Oft eru dularfullir menn að slæpast í kringum heimilið og að næturþeli er grjóti kastað í gluggarúðurnar. Ég hef líka fengið fjölda hótunarbréfa,“ sagði hin hugrakka hlaupakona í samtali við dagblaðið Afghanistan Times.

 

 

Hanaslagur Eigendur hananna standa inn á vígvellinum, viðbúnir að grípa hanana við lok hverrar lotu. Hanarnir skaða hvorn annan með örvum, föstum við leggina.

Buzkashi knapar Villtasta íþrótt Afganistan snýst um að ríða með hræ af dauðri geit í mark. Flugdrekahlaupari Átök á árlegri flugdrekakeppni í Kabúl.  

Hasaradrengur Færni hasarastráka með teygjubyssur er lesendum Flugdrekahlauparans kunn.

 

(Birtist í 24 stundum vorið 2008)

Myndarlegra gallerí

Band-e Amir

Var að uppfæra myndagallerí síðunnar. Komnar inn syrpur frá Afganistan, Pakistan og Indlandi. Einnig samtíningur frá Íran, Líbanon, Kenía, Úganda, Jórdaníu og Marokkó.

Afganistan Með sólgleraugu og túrban vaktar hann bænahof við hið himinblá vatn Band-e Aimr sem þekur bakrunn myndarinnar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband