21.9.2008 | 21:48
Í kórantíma með talibönum
Svonefndir madrassa skólar við landamæri Pakistan og Afganistan eru alræmdir fyrir að ala af sér árásarmenn talibana og al-Qaeda. Er það sanngjörn einkunn? Blaðamaður 24 stunda sat kennslustund um starfsemi eins trúarskólans, Pakistanmegin við landamærin.
Orðið madrassa þýðir einfaldlega skóli og nemendur þeirra eru kallaðir talib eða taliban. Þegar þessi hugtök eru nefnd í fjölmiðlum á Vesturlöndum vísa þau til iðulega róttækra jihad-skóla og uppreisnarmanna í Afganistan.
Salim Rahmani er enskumælandi kennari við madrassa skóla í grennd við fjölmennustu flóttamannabúðir Pakistan. Hann segir að verið sé reyna eyðileggja orðspor þessara fornu trúarskóla. Við höfum ekkert á móti Bandaríkjunum eða Vesturlöndum. Því síður styðjum við ofbeldi enda er það ekki í takt við hugmyndafræði madrassa," útskýrir Ramhani en hann virðist forðast að nota orðið talibani yfir nemendur sína.
Haldið uppi af Sádum
Í umræddum skóla eru hátt í hundrað nemendur á aldrinum tíu til átján ára. Stúlkur eru í miklum minnihluta og haldið aðskildum. Flestir eru Afganskir flóttamenn sem eiga ekki kost á annarri menntun. Samkvæmt hugmyndafræði madrassa á allt að vera ókeypis; menntun, matur og húsaskjól. Að sögn Rahmani er skólinn rekin á frjálsum framlögum, sérstaklega frá örlátum Sádum.
Læra kóraninn utanbókar
Helsti munurinn á madrassa og ríkisreknum skóla er sá að einungis er stuðst við trúleg rit. Megin áhersla er lögð á að nemendur læri vers kóransins utanbókar og geti flutt þau með framburði og takti Múhameðs spámanns. Eftir eitt og hálft til tvö ár getur nemandi flutt öll 6200 vers kóransins frá hjartanu," segir Ramhani. Við kennum líka önnur fög á borð við skrift, tölvufræði, stærðfræði og trúarleg vísindi."
Trúarleg vísindi. Hljómar undarlega. Sjáðu til," segir kennarinn, í kóraninum er að finna svör við öllu mögulegu. Til dæmis ef nemandi er með stanslausan höfuðverk. Þá getur hann leitað til múllans, skólastjórans, og saman vinna þeir buga á vandanum með hjálp Allah og kóransins."
Athygli vekur að nemendur læra kóraninn utanbókar á frummálinu, arabísku, en ekki móðurmálinu, pastú, sem er gjörólíkt tungumál. Rahmani segir nemendur samt sem áður skilja boðskapinn jafn óðum.
Þegar talib útskrifast fer hann á vinnumarkaðinn, fær hlutverk í mosku eða gerist íslamskur kennari líkt og Rahmani.
Dæmigerður skóladagur
Skóladagurinn byrjar klukkan fimm að morgni með bænastund í mosku skólans. Síðan er tími fyrir lexíur úr kóraninum fram að hádegi. Þá breytast kennslustofurnar í fuglabjarg. Yngstu nemendurnir fara upphátt með mismunandi vers úr hinni heilögu bók og rugga sér á meðan fram og aftur. Að sögn kennaranna er þetta besta námstæknin".
Eftir hádegi taka við almennari fög þangað til skóladeginum lýkur með krikketleik.
Þó að flestir madrassa skólar í Pakistan séu í líkingu við þennan er staðreynd að sumir eru notaðir sem skæruliðaverksmiðjur með áherslu á Vesturlandahatur. Á níunda áratug síðustu aldar voru nemendur sendir til að berjast gegn Rússum í Afganistan og Indverjum í Kasmír. Nú á dögum nota talibanar þá í skæruhernað gegn herliði NATO.
Talið er að einungis 2% skólabarna í Pakistan gangi í madrassa skóla. Deilt er um hvort auknar sjálfmorðsárásir trúarofstækismanna í landinu séu afleiðing fjölgunar á madrassa skólum á undanförnum áratugum.
Á sínum tíma gagnrýndi Benazir Bhutto skólana harðlega fyrir að heilaþvo börn. Vegna þess að stjórnvöld kjósa að sóa 1400% meira fé í herinn en skólakerfið, eiga margir fátækir foreldrar ekki annarra kosta völ," sagði Benazir í æviminningum sínum. Nú þegar Þjóðarflokkur hennar er kominn til valda má því búast við hertum aðgerðum.
Án okkar fengu þessir krakkar enga menntun," segir Rahmani, óhræddur um að yfirvöld svipti hann starfinu. Allah stendur með okkur."
(Birtist í 24 stundum vorið 2008)
Kóraninn stúderaður Nemendur við daglegan kóranlestur í madrassa, trúarskóla, í grennd flóttamannabúðir Afgana í Pakistan.
Salim Rahmani Gestgjafi 24 stunda í mosku skólans.
Ungur talibani Nemendur tilbiðja Allah fimm sinnum á sólarhring.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2008 | 13:29
Herra 10% forseti
Pakistan hefur átt marga glataða forseta en sennilega er Asif Zardari sá vonlausasti.
Þegar Benazir Bhutto sneri aftur úr sjálfskipaðri útlegð á síðasta ári var Zardari haldið frá sviðsljósinu. Hann var sínum tíma gerður að blóraböggli fyrir hrakförum Benazir í embætti forsætisráðherra. Zardari fékk þá viðurnefnið Herra 10%" vegna þess hversu iðinn hann var við að stinga tíund af opinberum tekjum í eigin vasa. Í síðari stjórnartíð hennar gerðist eiginmaðurinn enn kræfari og viðurnefnið margfaldaðist. Herra 50%" hefur samtals setið í ellefu ár bak við lás og slá fyrir hvítflibbabrot. Enn bíða nokkrar ákærur úrskurðar dómara, þar á meðal ásakanir um aðild að morði á bróður Benazir Bhutto. Af ótta við að málin yrðu tekin upp að nýju neitaði Zardari að endurskipa hæstaréttardómaranna sem Musharraf vék frá til þess að halda völdum. Sumir af hans eigin flokksbræðrum trúa því meira að segja að hann hafi fyrirskipað morðið á Benazir. Slík sé peninga- og valdagræðgin.
Ég tók myndina hér að ofan þegar við Zardari mættumst á útifundi Þjóðarflokksins. Formaðurinn fingralangi er illa haldinn af sykursýki, gengur með staf, og var að haltra upp á svið þegar ég smellti af mynd.
![]() |
Zardari kjörinn forseti Pakistans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.9.2008 | 23:58
Sex sjálfboðaliðar í sumar
I fyrri nott var ekki mikill svefnfridur thar sem ad herinn kom inn i borgina og var ad handtaka folk med tilheyrandi latum. Sprengingar og kulnahrid dundu med reglulegu millibili og havadinn nokkud ohugnalegur.
Aron Björn Kristinsson, framhaldsskólanemi frá Reykjavík, hélt á dögunum til Jenin á Vesturbakkanum á vegum félagsins Ísland-Palestína. Þar mun hann starfa við enskukennslu og fleira fyrir hjálparsamtökin Project hope næstu fjóra mánuðina.
Aron er sjötti íslenski sjálfboðaliðinn sem leggur sitt af mörkum á Vesturbakkanum í sumar. Anna Tómasdóttir, Einar Teitur Björnsson, Stefán Ágúst Hafsteinsson, Yousef Ingi Tamimi og Gunnar Pétursson hafa öll upplifað ástandið frá fyrstu hendi. Alræmt hernám Ísraelsmanna í bland við einstaka gestrisni heimmanna.
Blogg Arons
Blogg Önnu
Blogg Gunnars
Blogg Yousefs
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2008 | 18:14
Horft aftur til hippatímans
Á opinberri ferðaskrifstofu Afganistan eru starfsmenn hissa að sjá útlendinga. Þar fást ferðabæklingar - prentaðir 1979, árið sem allt fór til fjandans. Einu útlendingarnir sem komu áratuginn á eftir voru rússneskir hermenn. Og Afganir hafa ekki upplifað friðartíma síðan.
Bæklingarnir voru prentaðir undir lok blómaskeiðs ferðaþjónustu í landinu. Menn á borð við Erró ferðuðust milli Herat og Kabúl eftir hinum svokallaða hippaslóða sem lá frá London til Kathmandu.
Núorðið er blómstrar fátt annað en valmúi meðfram hippaslóðanum og þegar minnst er á ferðamenn í Afganistan er það yfirleitt vegna þess að þeim hefur verið rænt. Afganskir sendiráðsmenn eru hins vegar fúsir til að veita ferðamönnum vegabréfsáritun. Góða ferð. Farðu varlega. Búið.
En er fífldirfska að fara?
Ómarktækar aðvarnir
Ég ferðaðist frá Pakistan til Afganistan gegnum Kyberskarðið, ekki síður frægt fyrir stigamenn en fallegt landslag. Engin ferðamaður fær að fara í gegn nema í fylgd hermanna. Til þess að gera mann enn smeykari töluðu Pakistanar um Afganistan sem algjört helvíti á jörðu. Með svipuðum tón og Indverjar tala um Pakistan.
Ég hafði óþarfa áhyggjur. Í raun og veru eru ferðamenn öruggur í Afganistan miðað við að vera í þriðjaheims ríki. Svo framarlega sem þeir halda sig utan talibanahéraðanna í suðurhluta landsins.
Tímaflakk
Með áhugaverðari stöðum í Kabúl er jarðsprengjusafn. Það er líka vel við hæfi. Fá lönd í heiminum eru eins vel þakin jarðsprengjum. Sömuleiðis er þess virði að þræða fjölfarin miðbæjarmarkað. Versla jafnvel minjagripi á borð við búrku og valmúahnífa.
Höfuðborgin er augljóslega á hraðri leið inn í nútímann en ferðalög um landsbyggðina eru í líkingu við tímaflakk. Lifnaðarhættirnir, lífsviðhorfin og húsakynnin hafa lítið breyst frá hippatímanum. Meðfram þjóðveginum má svo sjá gamla rússneska skriðdreka á víð og dreif innan um stórbrotið landslag. Tákn liðinna tíma.
Í tíð ógnarstjórnar talibana var mönnum refsað fyrir að bjóða útlendingum heim í te. Reglan var algjörlega á skjön við þá ríku hefð landsmanna að heiðra aðkomumenn. Afganir eru í eðli sínu öfgamenn - í gestrisni.
Sjá landið útum bílglugga
Mér skilst að Nato-liðar hafi hlegið þegar ferðahandbókarisinn Lonely Planet gaf út sérstaka bók um Afganistan á síðasta ári. Hver á að nota hana?!"
Líklega hefur útgefandinn miðað út frá því, að í landinu dveldu að jafnaði um 50 þúsund alþjóðlegir hjálparstarfsmenn og hermenn. Og þeir fara í frí eins og aðrir. Gallinn er, að vegna strangra öryggiskrafa er starfsmönnunum bannað að ferðast um landið. Mega ekki einu sinni yfirgefa bílinn sinn þegar þeir eru á ferðinni vegna vinnu.
Túrisminn mun aukast
Adib, hótelstjóri í Kabúl, er vongóður um að hægt verði að vekja túrismann aftur til lífs. Eftir sirka tíu ár eiga ferðmennirnir eftir streyma hingað aftur. Það er að segja ef öryggisástandið batnar." Þetta sagði hann í einum af hans broslegu heimsóknum inn í herbergið mitt. Afganir eru vanir að gista margir saman í herbergi. Þekkja ekki eitthvað sem heitir einkalíf og næði. Þess vegna sjá hótelstarfsmenn ekkert athugavert við að vaða bara inn án þess að banka. Ýmist til að spjalla, fletta í bókum eða færa manni te.
Ég meina, hér er allt sem þarf; fornar byggingar, fallegt landslag og þjóðlegar uppákomur. Það er bara þessi neikvæða ímynd ... " segir heimilislegi hótelstjórinn að lokum.
(Birtist í 24 stundum vorið 2008)
Band-e Amir Himinblátt stöðuvatn fyrir miðju landsins. Það kemur ekki á óvart að Afganir útskýri litadýrðina sem galdraverk Ali, frænda Múhameðs spámannas.
Mazar-e Sharif Eitt af stoltum Afgana er grafhýsi spámannsins Hazrat Ali. Afganir segja að hann hafi verið jarðaður í kyrrþey í Mazar-e Sharif þó að múslimabræður í Miðausturlöndum séu á öðru máli.
Bæjarprýði Faizabad Þessi gamli rússneski skriðdreki hefur fengið nýtt hlutverk.
Bamiyan Þarna stóðu eitt sinn 2000 ára gömul búddalíkneski. Þau stærstu í heimi. Allt þar til leiðtogi talibana, múlla Ómar, lét eyða þeim með dínamíti árið 2001.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2008 | 15:47
Síðasti frjálsi staður jarðar
Milli landamæra Pakistan og Afganistan eru löglaus ættbálkahéröð á stærð við suðlandsundirlendi Íslands. Smygl, fíkniefnasala, vopnaframleiðsla og peningafals eru arðbærustu atvinnuvegirnir á þessum síðasta frjálsa stað jarðar".
Héröðin tilheyra Pakistan en eru utan pakistanskra laga. Íbúar eru liðlega þrjár milljónir talsins og flestir af kynþætti pastúna. Óhætt er að segja að allt logi í átökum. Mismunandi ættbálkar takast á um völd. Á meðan reyna bandarískir hermenn og Nato-liðar að svæla út meðlimi al-Qaeda og talibana frá landamærum Afganistan. Á hinum endanum bifast Pakistanskir hermenn svo við að koma reglu á svæðið.
Byssubærinn Darra
Útum bílglugga virðist Darra vera eins og hvert annað smáþorp á þessum slóðum. En það varir skammt. Ég er ekki fyrr stigin undir beran himin þegar skothljóð heyrast í fjarska. Sjálfsagt einhver að prófa einar af 700 byssunum, framleiddum í þorpinu - daglega. Í Darra er atvinnumiðlun einföld; þú annað hvort framleiðir vopn, selur eða notar þau.
Þessi er á fimmtíu dollara," segir kaupmaður í Darra og veifar að mér skammbyssu, en betri gerðin kostar fjögur hundruð dollara. Haglabyssurnar eru svo þarna ... "
Hver einasta verslun í Darra selur skotvopn. Samt ekki endilega allar vopnabúðir að upplagi. Sumar hafa nefnilega líka gott úrval af verkfærum, mat og örðum kaupfélagsvörum í búðarglugganum. Næstum jafn absúrd sjón og maður á eftirlaunaaldri á vappi með kalashnikov-riffil.
Hvað villtu, félagi? Ég get látið sérsmíða hvernig byssu sem er," heldur vopnasalinn áfram. Í sömu andrá stormar sveit lögreglumanna inn í verslunina.
Þið verðið að fara. Þessi staður er ekki fyrir útlendinga," segir túlkur lögreglunnar og lýtur í átt til mín og breska ferðafélagans. Túlkurinn lærði á sínum tíma ensku til að lóðsa ferðamenn um staðinn. Það var áður en talibanarnir rændu völdum. Núorðið er staðurinn hættulegur," segir hann.
Túlkurinn rifjar upp fyrir okkur að fyrir fjórum dögum hafi fjörtíu gamlir, virtir, menn dáið í sjálfsmorðssprengjuárás. Fórnarlömbin voru saman komin á útifundi til að ræða öryggisástandið í Darra.
Lögreglumennirnir fallast á að gefa okkur te áður en við erum sendir aftur til baka. Við buðum þeim pening, hálfs mánaða laun lögreglumanns í Pakistan, til að fylgja okkur um staðin. En allt kom fyrir ekki. Með öðrum orðum: Túlkurinn sagði satt.
Einnota skotvopn
Í staðinn fæ ég heimamann til að sýna mér ólöglega vopnaverksmiðju í útjaðri Peshawar í Pakistan. Þar starfa um tuttugu manns við að smíða skammbyssur. Mikil nákvæmnisvinna en hver starfsmaður afkastar um fimm byssum á dag. Þær eru síðan aðallega seldar milli- og hástéttarfólki í Pakistan. Byssur eru stöðutákn meðal þeirra.
Ef þú villt taka með þér byssu heim get ég selt þeir eina í þremur pörtum. Þú kemst í gegnum flugstöðvareftirlitið með því að setja þá sitt í hvora töskuna. Púslar gripnum svo saman heima. Einfalt mál," segir forstjórinn í verksmiðjunni. Sýnir mér svo stoltur byssu sem lýtur út eins og penni.
Athygli vekur að byssurnar eru ranglega merktar made in China".Byssurnar frá Pakistan eru nefnilega frægar fyrir að vera einnota drasl.
Vopnaverksmiðjan er steinsnar frá frægum stórmarkað sölumanna dauðans. Basarinn er í munni Kyberskarðsins sem liggur milli tollgæslustöðva Pakistan og Afganistan.
Ópíum, heróín, hass og sprútt frá Afganistan á greiða leið inn á löglausu svæðin. Þó að yfirvöld í Pakistan séu áhrifalítil í ættbálkahéröðunum stjórna þau alfarið umferð inn á svæðið. Löggæslumennirnir eru hins vegar upp til hópa spilltir. Með því að reiða fram mútur geta talibanar, smyglarar og ferðamenn hæglega komist leiða sinna.
Verslunargatan er niðurnídd. Enda þurfa kaupmennirnir ekki að hafa staðinn fínan til að laða að viðskiptavini. Inn í einni dæmigerðri verslun er kaupmaðurinn að vigta heróín. Á gólfinu sitja fastakúnnar, innan um sprautunálar og álpappír, í mjög annarlegu ástandi", eins og lögreglan á Íslandi myndi orða það. Myndatökur eru stranglega bannaðar.
Sumar verslanir selja líka falsaða peninga, hundrað dollara seðla og pakistanskar rúpíur. Kauptu nokkur hundruð dollara á slikk og skiptu þeim svo í Pakistan. Gjaldkerar treysta ferðamönnum mun betur en heimamönum," útskýrir leiðsögumaðurinn minn.
Dópsalarnir verða allir að borga tíund til héraðshöfðingjans, Zaid. Ef einhver vandamál koma upp, leita menn lausna hjá mér," segir höfðinginn og sýnir mér dagsgamla forsíðu pakistanskt dagblaðs. Bendir á mynd af brennandi jeppa, réttir út hendurnar og segir hróðugur: Við notuðum svona stóra sprengjuvörpu. Drápum þrjá af þeirra mönnum. Engan okkar sakaði." Hinir myrtu tilheyrðu öðrum ættbálki og höfðu, að sögn Zaid, rænt konu af hans svæði.
Aðspurður hvort pakistanska lögreglan hafi einhvern tíman gert rassíu sendur ekki á svarinu: Nei! Löggan veit hverjar afleiðingar yrðu," segir hann, montinn af veldi sínu.
Verja eftirlýstasta mann heims
Ef Osama Bin Laden er enn lífi er líklegast að hann sé í felum í Waziristan héraðnu. Íbúar þess eru svarnir andstæðingar yfirvalda og Vesturlanda. Á tímum Sovétstríðsins í Afganistan urðu ættbálkahéröðin að griðastað skæruliða mujaheddin, sveitar guðs. Síðan þá hefur það verið gróðrarstía trúarofstækismanna.
Ein af fáum ættbálkareglum Pastúna á svæðinu er að hýsa alla aðkomumenn sem leita skjóls. Þeim ber meira að segja að verja gestinn með vopnum ef þess þarf.
25 milljón dollara fundarlaun freista ekki þá sem lifa utan peningahagkerfis. Heiður, heiður og aftur heiður er það eina sem máli skiptir í samfélaginu. Það veit Bin Laden.
(Birtist í 24 stundum vorið 2008)
Morðvopn Þessi penni er byssa með einu skoti, nógu öflug til að drepa mann af stuttu færi, segir framleiðandinn.
Hálfkláraðar skammbyssur Talið er að á annað þúsund skotvopna séu framleidd daglega inn á ættbálkasvæðunum í Pakistan.
Í vopnaverksmiðju Þessi vinnumaður púslar saman fimm skammbyssum á dag.
Sölumaður í Darra Ég get látið sérsmíða hvernig byssu sem er."
Héraðshöfðinginn Hinn vægðarlausi Zaid innheimtir skatt af stórfelldum dópsölum á hans yfirráðasvæði. Hér liggur hann makindalega upp í rúmi með hjartalaga púðum og horfir á 46 tommu sjónvarpið sitt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2008 | 16:01
Sprenging við hótelgluggan
Úff. Indverska sendiráðið er bara í næstu götu við Salsal-gistiheimilið þar sem ég dvaldi í tæpan mánuð.
![]() |
41 látinn í Kabul |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2008 | 19:04
Fjórir sjálfboðaliðar í Palestínu
Úr fréttabréfi félagsins Ísland-Palestína:
Fjórir Íslendingar héldu til Palestínu í síðustu viku til starfa sem sjálfboðaliðar á herteknu svæðunum á vegum Félagsins Ísland-Palestína.
Anna Tómasdóttir, hjúkrunarnemi við Háskóla Íslands, verður í Palestínu til 18. ágúst og starfar með samtökunum Project Hope, m.a. við skipulagningu og þróun á skyndi- hjálparnámskeiðum.
Einar Teitur Björnsson og Stefán Ágúst Hafsteinsson, sem leggja stund á læknisfræði við Háskóla Íslands, munu næsta mánuðinn starfa með Palestínsku læknahjálparnefndunum (Palestinian Medical Relief Society - PMRS) í Nablus og víðar um Vesturbakkann.
Yousef Ingi Tamimi, nemi við Kvennaskólann í Reykjavík, er að kenna ungmennum ensku og starfa við félagsmiðstöðvar PMRS fyrir ungt fólk í Ramallah og Nablus.
Mæli með bloggsíðu Yousef og Önnu.
Og enn bætist í hópinn. Gunnar Pétursson hjúkrunarfræðinemi flýgur út á fimmtudag. Í haust ætlar bloggarinn Aron Björn Kristinsson að setjast að á Vesturbakkanum og hugsanlega fleiri Íslendingar.
Nánar um sjálfboðaliðastörf í Palestínu hér.
Fjórmenningarnir, einhversstaðar á Vesturbakkanum. Myndin er fengin af heimasíðu Önnu.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.6.2008 | 00:38
Landagagnrýni
Indland
Plús: Fjölbreytt land; sólríkar strendur neðst, eyðimerkur fyrir miðju og klettabelti efst. Beljur á vappi gera hindúakúltúrinn heillandi. Greiðar almenningssamgöngur. Billeg hótel, full af ferðalöngum. Bragðgóður matur. Nægt framboð af afþreyingu. Góð enskukunnátta heimamanna. Heimsækið litlu þorpin, það er að segja á indverskan mælikvarða.
Mínus: Stappað af ferðamönnum. Vinsælir staðir virka sviknir, hannaðir fyrir ferðamenn. Heimamenn lýta á ferðamenn sem gullnámur fremur en gesti (stór mínus). Taj Mahal er ofmetin.
Pakistan
Plús: Sjaldséðum ferðamönnum er tekið fagnandi af óvenju gestrisnum heimamönnum. Þeir eru fúsir til að kynna þeim fyrir menningu landsins. Þokkaleg enskukunnátta. Nútímalegt samgöngukerfi. Fámennur en góður ferðalangakúltúr - sérstaklega í Lahore. Einstök ættbálkasvæði norðri. Appelsínurnar á mörkuðunum eru þær bestu í heimi. Heimsækið Peshawar.
Mínus: Must-go staðir í ferðahandbókunum eru lítilfjörlegir. Tíðar rafmagnstruflanir. Fáar konur á ferli. Sjálfsmorðsárásir eru farnar að miðast gegn útlendingum. Pakistanar myndu segja að helsti mínus landsins væri Musarraf forseti. Forðist Islamabad!
Afganistan
Plús: Auðvelt að fá vegabréfsáritun. Þrjátíu dollara, takk. Farðu varlega. Góða ferð." Áhugavert samfélag fólks sem hefur lifað við stríðsástand í tæpa þrjá áratugi. Vinalegir heimamenn. Enginn ferðamannaiðnaður. Samt oft hægt að finna einhvern sem talar ensku vegna þess hve eftirsóknarvert er að vera túlkur fyrir alþjóðaliðið. Myndrænt landslag, fólk og tilefni. Ekki festast í Kabúl - þó að þar sé góð bókabúð. Heimsækið Bamiyan, fjallalandslagið á leiðinni þangað, og raunar um allt land, er hrífandi, svo ekki sé meira sagt.
Mínus: Talibanar. Bannað að tala við konur, hvað þá taka mynda þær. Spillt lögregla angrar ferðamenn. Tregar samgöngur og víða ógreiðir vegir. Kostnaðarsöm skítahótel, jafnvel ekki með rennandi vatni. Ekkert næturlíf í borgunum. Almennt rafmagnsleysi. Hætta á mannræningjum. Jarðsprengjur á víðavangi. Suðurhluti landsins er lífshættulegur.
Íran
Plús: Persnesk gestrisni er goðsagnakennd. Heimamenn eru vel menntaðir og opnir, konur jafnt sem karlar. Dizi er besti maturinn. Furðuleg stjórnvöld, leidd af rugluðum einræðisherra, gera landið áhugaverðara fyrir vikið. Ódýrt að komast milli staða vegna þess hve bensínverð er lágt. Fáir staðir eru eins afslappandi og almenningsgarðarnir í stórborgunum.
Mínus: Enskumælandi fólk er vanfundið utan túristastaðanna. Einum of margar merkilegar" byggingar og rústir sem fólk heldur að ferðamenn hafi áhuga á. Erfitt að fá vegabréfsáritun. Strangur dresskóði fyrir konur.
Tyrkland:
Plús: Góðir lestarteinar.
Mínus: Ég ferðaðist aðeins í gegnum landið á skítugri sýrlenskri lest, tíu tímum á eftir áætlun.
Sýrland
Plús: Geysilega hjálpsamir heimamenn. Mikil vatnspípuhefð (með ávaxtatóbaki) og góðar falafel-samlokur. Mátulega nútímalegt og túristavætt. Kósí farfuglaheimili. Sæmilega líbó múslimakúltur.
Mínus: Þeir sem eru ekki kastala-túristar og búnir að sjá of mikið af fallegum moskum gæti leiðst. Lítið um afþreyingu. Venjuleg vegabréfsáritun gildir bara í tvær vikur. Líka galli, hvað ég var stutt í landinu.
Líbanon
Kostir: Eftir ferðalög um frumstæð Miðausturlönd er Líbanon kærkomin breyting. Vestrænt á köflum og frjálslegt eftir því. Enskukunnátta góð, þó að auðveldara sé að bjarga sér á frönsku. Stuttar vegalengdir. Hægt er að fara á skíði fyrir hádegi og ströndina seinnipartinn. Beirút er næs, miðað við aðrar höfuðborgir Miðausturlanda.
Gallar: Dýrt land, miðað við heimshluta. Fáir áhugaverðir staðir til að heimsækja, enda landið lítið. Rík hefð fyrir óeirðum. Stjórnvöld fara illa með Palestínumenn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2008 | 22:27
Farþegar fá vopn
Núna gæti ég skrifað bókina Beirút-Prag-London-Reykjavík á sólarhring. Í staðinn ætla að bara að skrá nokkra hápunkta hinna lítilfjörlegu heimferðar.
Ég hef aldrei séð jafn tómlegan flugvöll og þann í Beirút. Í óeirðunum um daginn var veginum að honum lokað með brennandi dekkjum (hvaðan koma öll þessi dekk, spyr fólk). Svo skilst mér að fólk hafi ætlað að loka honum aftur ef stjórnmálamennirnir hefðu reynt að snúa aftur frá Qatar án friðarsamnings.
En ég semsé flaug frá mannlausa flugvellinum til Prag með tékknesku lággjaldaflugfélagi. Eftirlitið var strangt á flugvellinum. Engin morðtól um borð. Nema hvað. Í mörgþúsund feta hæð báru flugfreyjurnar fram morgunverð með þessum líka beittu álhnífum. Eins gott að hafa þetta sanngjarnt; láta alla hafa vopn!
Í Prag pældi ég í því afhverju eru alltaf svona margar ilmvatnsbúðir á flugvöllum, borðaði súpu og svaf (næstum því yfir mig) fram að fluginu til London.
Er sanngjarnt að kalla Heathrow deathrow? Öryggiseftirlitið er allavega álíka.
Þaðan þurfti ég að taka lest til London Standstet til þess að fljúga heim með hálftómri Iceland express vél. Um borð - á alþýðufarríminu - var þekktur íslenskur bíssnesmaður. Æ, er búið að veðsetja einkaþotuna?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2008 | 22:25
Mestu vonbrigði lífs míns
Næstum jafnmikil vonbrigði og í aldamótaskjálftanum. Þá var ég á trammpólíni og tók ekki eftir neinu. Í síðara skiptið var einfaldlega of tregur.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)