29.5.2008 | 13:13
Heimferð
Flaug til Indlands síðastliðinn vörutalningadag. Skrilljónbilljón rútuferðum síðar er mál til komið að hypja sig aftur heim.
Flýg frá Beirút í nótt og verð lentur á Íslandi sólarhring síðar eftir stutta viðkomu í Prag og London.
Heimferðin markar starfslok sem fréttaritari Sunnlenska í Miðausturlöndum en í framhaldinu sný ég aftur til höfuðstöðva blaðsins á Selfossi.
Reikna með að setja inn myndir frá ferðalaginu fljótlega.
27.5.2008 | 10:52
Æ, þeir sprengju það ...
Hvaða land er fallegast? Sýrland, Líbanon eða Ísrael?" spurði gestgjafi minn kíminn á meðan við virtum fyrir okkur landamæri fyrrnefndra landa, Líbanonmegin að sjálfsögðu.
Þennan dag, 25. maí, voru nákvæmlega átta ár liðin frá því Ísraelski herinn yfirgaf suðurhluta Líbanon eftir áralanga hersetu. Þeir reyndu misheppnaða endurkomu 2006, eins og flestir vita, en eftir það hafa 15 þúsund hermenn Sameinuðu þjóðanna vaktað svæðið.
Ferðamönnum er almennt bannað að fara um svæðið en vegna þess að gestgjafinn var á bíl frá Sameinuðu þjóðunum voru okkur allir vegir færir.
Ætluðum Hizbollah safn en heimamenn höfðu þetta að segja: No, Hizbollah museum. Israel! Buff!" Með öðrum orðum: Það er búið að sprengja safnið.
Í staðin skoðuðum við gamalt fangelsi - sem var reyndar líka búið að jafna við jörðu að mestu.
Í gærkvöldi bergmálaði kúlnahríð um hverfið mitt í borginni Tyre. Gestgjafinn kippti sér ekki upp við þetta. Þegar heimmenn eru glaðir, þá skjóta þeir út í loftið. Þegar þeir eru reiðir, þá drita þeir líka út í loftið."
Þeir reyndust glaðir. Hassan nasrellah var nýbúinn að ávarpa stuðningsmenn. Hizbollah hefur samt tapað fylgi eftir lætin í Beirút fyrir skemmstu. Þau urðu samt til þess að binda enda á átján mánaða upplausnarástand í landinu.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2008 | 17:04
Ný skotför á nýjum miðbæ
Mikið er þetta friðsæll staður, hugsaði ég með mér á meðan ég gekk um Hamra-hverfið í Beirút framhjá kaffihúsum, ölknæpum og tískuvöruverslunum. Svo stoppaði ég fyrir utan eina fatabúðina, ekki til að skoða smart skó, heldur öll byssukúluförin á búðarglugganum.
Beirút er að vakna til lífs eftir að stríðandi fylkingar í landinu sættust. Kaffihúsin eru þéttsetin og fólk virðist vera í hálfgerðu hátíðarskapi.
Það er samt augljóst að ástandið er enn eldfimt. Hermenn, skriðdrekar, þyrlur og vegatálmar eru hvarvetna á sveimi. Fæstir trúa, að langvarandi friður hafi náðst. Það verði bara rólegt fram að þingkosningum á næsta ári.
Þetta er skrifað á kaffihúsi í miðbænum, staðnum sem Ísraelar jöfnuðu við jörðu fyrir tveimur árum. Nú eru byggingarkranar á hverju strái og allt svo glansandi nýtt - með enn nýrri skotförum.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2008 | 16:55
Strandaglópar í helvíti
Ég gisti hjá starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna í Damaskus. Þeir vinna við að reyna leysa eitt stærsta vandamál Miðausturlanda um þessar mundir; hvað eigi að gera við alla írösku flóttamennina.
Talið er að það séu ein og hálf milljón flóttamanna í Sýrlandi og eitthvað álíka í Jórdaníu þar sem hinir efnameiri halda til.
Flóttamenn í Sýrlandi mega ekki vinna en börn fá að ganga í grunnskóla. Fjölskyldur stóla á matargjafir og 80% geta ekki hugsað sér að snúa aftur til Írak, skilst mér á gestgjöfum mínum. Líkurnar á að flóttamaður fái vegabréfsáritun til annars lands eru einn á móti hundrað. Ástandið virðist aðeins geta versnað.
Á landamærum Írak og Sýrlands lepja 750 Palestínumenn dauðann úr skel. Yfirvöld í Sýrlandi og Jórdaníu segjast bara veita írökum hæli. Palestínumennirnir komast að sjálfsögðu ekki til heimalandsins og þora ekki að snúa aftur til Írak. Á meðan mótmælir landslið fábjána á Íslandi því að bjarga eigi nokkrum palestínskum konum frá þessu helvíti.
Flóttamannabúðir í Palestínu. Tveir hektarar, sjö hundruð fjölskyldur.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.5.2008 | 09:11
Í paradís?
Á sínum tíma á Múhameð spámaður að hafa staðið upp á fjalli og horft yfir Damaskus. Hann neitaði hins vegar að stíga fæti inn fyrir borgarmörkin. Sagðist ekki vilja heimsækja paradís oftar en einu sinni um ævina.
Ólíkt spámanninum lét ég ekki staðin fram hjá mér fara. Ekki alveg paradís á jörðu en virðist vera hin ágætasta höfuðborg.
Var þaráður í borginni Lattakia þar sem konur ganga um í níðþröngum tískufatnaði og fæstar nota slæðu. Ég fór meira að segja á strönd með gestgjafanum mínum. Virðist ekki vera nein sérstök ástæða fyrir því að borgin er ólíkt frjálslegri en aðrir staðir á Sýrlandi.
Næsti áfangastaður er Beirút. Samkvæmt mínum mönnum í Líbanon gengur lífið orðið sinn vanagang eftir skyndilegt upphlaup Hizbollah fyrir skemmstu. Hugsa samt að það séu óvenju fáir ferðamenn.
Ef Hassan Nasrallah leyfir flýg ég heim frá Beirút aðfaranótt þrítugasta þessa mánaðar. Lendi á Íslandi tæpum sólarhring síðar eftir millilendingar í London og Prag.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.5.2008 | 07:45
Vinur Miðausturlandavinar
Settist niður með disk af fuul, arabískri baunasúpu, hliðin á heimamanni á skyndibitastað í Aleppo.
Frá Íslandi. Ég á vinkonu þar ... " sagði sessunauturinn.
Já er þaggi bara! Hvað ertu að selja? hugsaði ég með mér.
Hún heitir Jóhanna og kemur oft í verslunina mína."
Veit ekki afhverju Jóhanna Guðrún kom fyrst upp í hugann en auðvitað átti maðurinn við Jóhönnu Kristjónsdóttur, Miðausturlandavin númer eitt. Gömul kona. Held hún sé fræg í landinu þínu," hélt hann áfram.
Ég var beðinn um að skila kveðju frá Sebastian.
Falafelstaður í Aleppo.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.5.2008 | 13:46
Sófasörf um Sýrland
Þessa dagana gisti ég í sófa einstærðrar konu í Lattakia og á orðið heimboð víða um Sýrland og Líbanon.
Fyrir tæpu ári skráði ég sófanna í kjallaranum á Sólbakka á síðuna. Var verulega hissa á viðbrögðunum. Hvers vegna í ósköpunum svona margir ferðamenn vildu eyða tíma á Selfossi. Skoða Kaupfélagið og Sunnlenska bókakaffið?
Einhvern tíman heyrði ég þá sögu að stofnandi síðunnar hefði fengið hugmyndina eftir að hafa gjaldþrota á ferðalagi um Ísland.
Gestgjafar í Damaskus. (Gekk ekki alveg nógu vel að nota sjálfvirka tímatöku á myndavélinni.)
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.5.2008 | 18:30
Írönsk glæpasaga
Rommí!" sagði Motezza og hrifsaði til sín vinninginn, vodkapela frá Aserbaijan, við lítinn fögnuð. Spilafélagarnir voru samt fljótir að taka gleði sína á ný eftir að Motezza afmeyjaði flöskuna og steig sigurdans.
Klukkustund síðar var flaskan tóm og teitið dautt. Allir farnir nema Motezza og húsráðandinn, Ali. Þeir læstu húsinu, klæddu sig úr stuttbuxunum og skriðu undir sæng - saman.
Rekkjunauturinn reis á fætur við sólarupprás til að biðja, eins og sannur síta-múslimi. Á meðan gat Motezza legið glerþunnur án þess að hafa samviskubit enda bahamatrúar. Hann hugsaði um ritgerðarefnið sitt í stjórnmálafræði og viðbrögð kennarans við yfirskriftinni: OFSTÆKISRÍKI TIL ÓSIGURS
Bekkjasystur hans fannst ritgerðarefnið æðislegt. Kannski ekki að marka. Henni líkaði hvort sem er hvers kyns andóf. Gekk um með lata" hijab og tók slæðuna jafnvel niður þegar trúarlöggan var örugglega fjarri. Fólk kallaði hana Snöruna með vísan til örlaganna ef lögreglan kæmist að því hvað hún ætti marga bólfélaga.
Motezza var skriðinn undir rúm í leit að öðrum sokknum. Ryk, klámblað og blýantur en engin sokkur. Bíðið við, hvað er þetta? Bók ... um Kanada. Og eyðublöð. Og reiðufé. Og flugmiði. Skrýtið.
---
Eftir því sem ég kemst næst eru tíu landslög Íran brotin í sögunni. Já, það er bannað að dansa og taka í spil. Bahamar og hommar eru útlagar. Menn eru fangelsaðir fyrir að gagnrýna yfirvöld. Konur verða að vera með slæðu yfir hárinu sama hverrar trúar þær eru. Stuttbuxur eru svívirðilegar en virðast ekki vera bannaðar með lögum. Stóri dómur er við lýði og fleira og fleira ...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.5.2008 | 18:36
Af smyglara, spellvirkjum og spjöllurum
Damaskus EXPRESS var tíu tímum á eftir áætlun.
Byrjaði á að deila klefa með þremur Írönum; tveimur miðaldra mönnum og einum tvítugum. Allir ókunnugir. Samt kjaftaði á þeim hver tuska alla leiðina. Ég hlustaði á óskiljanlegar sögur milli þess sem ég gluggaði í Freakonomics.
Á öðrum degi, þegar ég var að slæpast um lestina, sveif einn þjónninn á mig og bauð mér sígarettu. Spurði svo, líkt og hann væri að bjóða mér te eða kaffi, hvort ég vildi ópíum. En hvað með marijúana?"
Líkt og þessi kærulausi smyglari komst ég hratt og örugglega gegnum landamæraeftirlit Tyrklands. Í stað þess að vera spurður að því hvað væri í bakpokanum vildi tollgæslumaðurinn vita hvað herra Guðjónsen væri að gera þessa dagana. Er hann ennþá að spila með Barcelona?"
Persneskar gellur um borð, sem lögum samkvæmt voru vafðar í svarta skikkju með blæju yfir hárinu, losuðu sig fljótt við múnderinguna eftir að lestin ók úr Íran.
Aðra nóttina var barið að dyrum í lestarklefanum og kallað: Allir upp á dekk! Landkrabbar!" Okei, kannski ekki alveg en við þurftum semsé að taka tyrkneskan Herjólf yfir Van-vatnið svokallaða.
Á hinum enda vatnsins beið önnur, sýrlensk lest, mun frumstæðari en sú íranska.
Var svo heppinn að ná prívat klefa. Næsta dag áttaði ég mig á því hvers vegna gluggarúðan í klefanum var brotinn. Var að veifa nokkrum sveitapollum útum lestargluggann þegar nokkrir fullorðnir menn byrjuðu að grýta lestina að kappi. Helvítis Kúrdar, útskýrði einn lestarstarfsmaðurinn og virtist ekki hissa á móttökunum.
Eftir sjötíu tíma lestarferð, þúsundir kílómetra, fjögur tollgæsluhlið og óþarflega marga kexpakka stökk ég út í Aleppo í norðurhluta Sýrlands. Þá voru enn sex tímar á endastöðina. Mæli samt með þessu.
Loksins, ferskt loft. Sýrlenska lestin stoppaði stundum á óskiljanlegum stöðum.
Lestarstjórinn. Sallarólegur þó að hann væri vel á eftir áætlun. Bara verst það var engin matur eftir á þriðja degi.
Halló, Tyrkland! Við komum í friði.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.5.2008 | 09:22
Nei, nei og aftur nei
Tarof kalla Persarnir það sem er fyrir mér ruglingsleg gestrisni. Orðið er notað yfir þann sið heimamanna að bjóða eða hafna einhverju án þess að meina það.
Með því getur til dæmis fátæklingur haldið reisn með því að bjóða upp á mat þó að búrið sé tómt. Samkvæmt venjunni á maður að hafna boðinu þrisvar en ef viðkomandi heldur áfram eftir það er honum alvara.
Þetta var áberandi þegar ferðamenn voru að reyna tipsa vinnufélaga mína á hótelinu í Yazd. Þeir harðneituðu í fyrstu og fæstir föttuðu að endurtaka boðið í þrígang.
Til þess að sleppa við formlegheitin dugar stundum að segja einfaldlega no tarof".
Kaupmenn i hijab-verslun.
Ferðalög | Breytt 15.5.2008 kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)