. - Hausmynd

.

Miskunnsami rútubílstjórinn

Ég var rammvilltur í Tehran. Dauðþreyttur en of nískur til að taka leigubíl. Stökk inn í rútu sem ók framhjá og sagði bílstjóranum hvert ég vildi fara. „Fáðu þér sæti."

Stóð ekki upp fyrr en rútan tæmdist á einhverskonar Hlemmi. Bílstjórinn sagði eitthvað óskiljanlegt við mig en handapatið gaf til kynna að ég ætti að vera um kurt.

Stuttu síðar var fjörtíu sæta rútu með einum áttavilltum farþega og brosmildum bílstjóra ekið um miðbæ Tehran. Bjargvætturinn minn kjaftaði út í eitt á persnesku og hafði þann glannalega sið að horfa framan í mig - en ekki á veginn - þegar hann vildi leggja áherslu á orð sín.

Ég vissi ekki hvernig á átti að þakka honum þegar hann stoppaði á staðnum sem ég spurði um í upphafi.


Á flótta undan ástarböðlum ríkisins

„Fljótur, beygðu hingað," sagði vinkona mín skyndilega þegar við vorum á gangi um Tehran. „Bílar trúarlöggunnar eru þarna handan við hornið. Ekki kíkja!"Tehranpar

Hún var fyrr um daginn búin að vara mig við. Siðgæðisverðir ríkisins gætu verið á sveimi á fjölförnum stöðum. Við yrðum handtekin fyrir að vera - ógift - á labbitúr. Hún þyrfti í kjölfarið að gangast undir læknisskoðun og ef það kæmi á daginn að hún væri spjölluð mey, yrðu mér settir afarkostir. Annað hvort að giftast dömunni eða láta höggva af mér aðra höndina og annan fótinn. Góðu fréttirnar eru að ég fengi að velja hvort það yrði hægri eða vinstri limir.

Ehnaz býr í Tehran og er vinkona bloggbróður míns, Steina Briem. Sá var svo hugulsamur að láta hana vita að ég væri á þvælingi um landið.

Þetta var kærkomið boð. Á ferðalögum um íhaldsöm samfélög sakna ég þess oft að heyra sjónarmið kvenna. Ég tala nú ekki um að fá að sjá framan í þær.

Svosem engin rómans enda aldursbilið talsvert. „Þú lýtur út fyrir að vera eldri á myndinni á blogginu þínu," sagði hún eftir stutt snakk. Dæmigerð setning á blindu stefnumóti.

Ég lofaði að birta enga mynd né nota rétt nafn. Hún er of paranojud, líkt og þeir sem búa við ógnarstjórn.


Af tregum Túrkmönnum og laaaangri lestarferð

IRAN!

Túrkmennistantúrinn er úr sögunni. Tekur víst margar vikur að fá vegabréfsáritun sem gildir aðeins í þrjá til fimm daga. Til þess að ferlið gæti hafist þyrfti ég í þokkabót að vera þegar orðinn leyfilegur í Aserbaijan.

Þannig að ég keypti miða með lestinni frá Tehran til Damaskus sem fer næsta mánudag. Tekur allavega 65 klukkustundir. Eins gott að lendi ekki hliðin á sætisfélögum dauðans.

 


Ferðaplan

Einhvernvegin finnst manni hálf óviðeigandi að heimsækja ekki höfuðborgir þeirra landa sem maður kemur í, jafnvel þó að þær séu algjört skítapleis.

Ég er semsé kominn til Tehran, einsamall, í þeim erindum að verða mér útum vegabréfsáritun til Aserbaijan og Turkmenistan. Meiningin er að ferðast landleiðina til Baku í Aserbaijan, taka þaðan bát þvert yfir Kaspíahafið og enda á að fljúga til London frá Ashgabat í Turkmenistan. herdissigurgrimsdottir

Samt er alveg eins líklegt að þetta gangi ekki eftir vegna óvinveittra yfirvalda í garð ferðamanna. Þá hef ég í bakhöndinni lestarferð til Sýrlands.

Kem heim í fyrrihluta júní.

--

Við Herdís friðargæsluliði kembdum Esfahan hátt og lágt. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri fínt að vera róni í bænum. Það eru svo margir almenningsgarðar.

Persneskar gelgjur ad yfirheyra Herdisi i Esfahan.


Gellubær

A Tehran-basarnumHættur að vinna og kominn til Esfahan i slagtogi vid Herdisi friðargæslulida. Ætlaði að fara til Shiras en finnst það of mikil krókaleið. Vil eyða sem mestum tíma í norðurhluta landsins.

Ef maður nefnir Shiras við heimamenn, fara þeir undantekningalaust að tala um goðsagnakennda fegurð kvenfólks í bænum. Á mínum ferðalögum hef ég nú heyrt svipaðar sögur og sjaldan mikið mark á þeim takandi. Held að sumir sem fari til Shiras, séu stöðugt að skima eftir sönnun. Svo þegar þeir sjá sæta stelpu, kinka þeir kolli með sjálfum sér. Jújú, þær eru gullfallegar hérna.

 Esfahan er fræg fyrir teppi, shisha-kaffihús og fallega borgarmynd.

 


Manía

Ég er enn að vinna á veitingastað Oriant hótelsins. Þægilega rólegt starf til að byrja með. Reyndar voru vinnufélagarnir óþolandi kurteisir í upphafi. Kunnu ekki við að láta útlending vinna.

Það var ekki fyrr en forstjórinn steig upp frá veikindum að maður þurfti virkilega að spýta í lófana. Hann er gjörsamlega manískur. Og slíkum brjálæðingum þykja gjarnan allir vera letingjar. „Svefn er fyrir aumingja, frítími fyrir landeyður og sólböð fyrir hálfvita." Þetta verður sennilega titilinn á ævisögunni.

hotelkollegarFrændi hans er líka ofvirkur og á það þess vegna til að tala áður en hann hugsar. Dæmi: Síðustu gestir kvöldsins voru að fara. Frændinn, sem starfar sem þjónn, var á léttu snakki við leiðsögumann, roskna persneska konu. Samtalið endaði á því að hann hljóp skellihlæjandi inn í eldhús og konan labbaði út, hissa á svipinn. 

„Hvað gerðist?"

„Haha! Ég sagði við konuna: „Þú ert of feit.""

„Ha? Afhverju?"

„Ekki hugmynd. Bara missti þetta útúr mér."

Kollegar minir i Yazd. Thessi i graena bolnum er hreinskilni thjonninn.


Spurningaflóð

Ég er að hugsa um að fá mér bol með þessari áletrun: spurningamadur

EGILL

SEGI ALLT GOTT

ÍSLANDI

TVÍTUGUR

ÓKVÆNTUR

HEIÐINGI

Myndi kannski minnka áreitið í Íran og fleiri löndum. Heimamenn svífa á mann út á götu og byrja á dæmigerðu snakki: Hvað segirðu? Hvað heitirðu? Hvaðan ertu? Hvað ertu gamall? Ertu kvæntur? Muslimman?

Þeir sem tala þokkalega ensku geta oft verið frumlegir: Hefur þú farið á næturklúbb? Hlustarðu á Michael Jackson? Hvað finnst þér um persneskar konur?

Eftir því sem ég læri meira í farsí, sem er keimlíkt tungumáli Afgana, darí, hef ég tekið eftir því að heimamenn heilsast oft með ýktri kurteisi. Spyrja án þess að bíða eftir svari: „Hvað segirðu? Allt gott? Er dagurinn góður? Er heilsan góð? Hefur fjölskyldan það gott? Megir þú lengi lifa." Með öðrum orðum: „Hæ."

Hins vegar toppar engin afganskan kaupmann í krummaskuðinu Faizabad. Eftir að hafa virt mig lengi fyrir sér, spurði hann loks með semingi:

„Súdan?"


Fann fátækan Frónverja

Saell. Er i Yazd nuna og verd allavega eina nott i vidbot. Ertu enntha herna? Og a hvada hoteli?

 

Þessi skilaboð blöstu á tölvuskjánum á netkaffi einu í Yazd. Þegar ég var við það að senda svarið, kom inn útlendingur með ansi kunnuglegan hreim. Þetta reyndist vera sendandinn, Eyþór Magnússon. Vesturbæingur á ferðalagi þvert yfir Asíu í slagtogi við einhvern Kristjan sem er á sólótúr um þessar mundir.eythormagnusson

Eyþór er fátæklingur með debetkort. Klikkaði á að taka með sér nóg reiðufé til Íran, landsins þar sem ekkert alþjóðlegt plast er tekið gilt vegna viðskiptabanns í tengslum við „stríðið gegn hryðjuverkum". Að því gefnu var auðvelt að dobla hann í vinnu á hótelinu mínu í Yazd.

Ég hyggst senda The Economist fréttaskot. Segja þeim að efnahagsástandið á Íslandi sé orðið svo kolsvart að alþýðan neyðist til að gerast draugaverkamenn í Íran.

 Í framhjáhlaupi má nefna að ég sá um daginn hálfsíðuúttekt á efnahagslífinu á Íslandi í dagblaðinu Tehran Times.

Þjófar athugið: Ég er vel múraður af dollurum. Samt næstum lentur í sama veseni og Eyþór. Síðustu dagana í Kabúl hætti debetkortið mitt nefnilega að virka. Sem betur fer bauðst friðargæsluliðinn Herdís Sigurgrímsdóttir til að hlaupa undir baggann. Hún er reyndar líka á leiðinni til Íran á næstu dögum.

Skildi hana vanta vinnu?


Gengið í sundskýluveðri

eydimorkiran

Þessi „eyðimerkurganga" stóð illa undir nafni. Eins og ég sagði í síðasta bloggi fékk ég far fyrstu áttatíu kílómetrana að nýja vinnustaðnum. Þaðan fór ég fótgangandi, húkkaði far, gekk meira,samalar húkkaði aftur far og rölti síðan síðasta spölinn í kolniðamyrkri.

Gangan hófst við sólarupprás. Frá því að ég byrjaði ferðalagið í Indlandi, hef ég alltaf verið í peysuveðri. Í Karachi hefði reyndar verið stuttbuxnaveður, ef borgin væri ekki staðsett í íslamska lýðveldinu Pakistan. Í eyðimörkinni var sundskýluveður. (Afsakið, en ég hef aldrei horft á annað en Krakkaveðrið á Stöð 2 og met því yfirleitt skilyrðin út frá klæðaburði.)

Eftir aðeins nokkra klukkutíma á rölti meðfram veginum til Garmeh óku tveir lögreglumenn framhjá. Þeir stoppuðu, glenntu sundur fingurna og snéru höndunum í halfhring sem virðist í Miðausturlöndum allt í senn þýða: Hver ert þú? Hvað ertu að gera? Hvað villtu?  Garmeh

Löggan bauð mér far en mér leyst betur á að labba. Þegar við kvöddumst sagði annar lögreglumaðurinn með alvarlegum tón:

„Ekki fara til Írak. Þú verður drepinn." Ég var nú ekki einu sinni að labba í átt að landamærum Írak en þakkaði nú samt löggunni heilræðið.  

garmehUppúr hádegi tókst mér að húkka far í fyrstu tilraun. Þumbaralegur vörubílstjóri bauðst til að skutla mér hálfa leið, eða þar til leiðir skildu. Vegna tungumálaörðugleika töluðum við saman í stikkorðum. Hann kvartaði ekki yfir eldsneytisverði. Í Íran kostar bensínlítrinn tæpan tíkall og dísellinn er á tvær krónur!

Frá gatnamótunum gekk ég í nokkrar klukkustundir án þess að nokkur bíll æki framhjá. Ég var farin að halda að ég yrði að gista með skriðdýrunum. Til allrar hamingju var mér á endanum boðið far með timburflutningamönnum sem að vildu helst að öllu selja mér bílinn sinn.

Þeir óku með mig á örlítið vitlausan stað, þannig að ég varð að ganga síðasta spölinn að gistiheimilinu í Garmeh.

Á heimleiðinni fékk ég síðan far með franskri fjölskyldu að næstu rútustöð. Frekar óspennandi heimferð. Nema hvað, það er alltaf jafn fyndið að heyra heila rútu fara með bæn áður en lagt er í'ann.

Var samferða smaladrengjum smá spöl.

Áfangastaðurinn Garmeh. Þorpið er umkringt pálmatrjám, sandi og fjöllum.

Heimasætan á gistiheimilinu.


Erfiðleikar í eldhúsinu

Fyrst skildi ég ekki hvers vegna hótelstjórinn í Yazd var svona glaður að heyra að ég væri að fara. Svo kom í ljós að hann rak annað hótel í eyðimerkurbæ, miðja vegu milli Yazd og Garmeh. Og þangað vantaði enskumælandi starfsmann í tvo daga. Vinnan yrði launuð með mat og ókeypis gistingu eins lengi og ég vildi. „En ekki lengur en í fimm ár," sagði hann þegar við handsöluðum þennan díl.

Hótelið var nýopnað og undirlagt af þjóðverjum þegar mig bar að garði. Mitt hlutverk var að þjóna gestunum, aðallega kringum matmálstíma. Samstarfsmaður minn í eldhúsinu var kona um sextugt sem talaði enga ensku. Um kvöldmatarleyti vorum við eina vinnufólkið á staðnum. Hún gaf skipanir á farsí en vissi samt að ég skildi aðeins einstaka orð. Þegar ég skildi ekki eitthvað, hækkaði hún bara róminn og endurtók sig þangað til málin leystust.eldabuska

Samskiptin í eldhúsinu væru fyndin á vídjó. Dvergvaxin gömul kona, hálfpartinn að öskra á mann sem gerir sig skiljanlegan með því að leika hlutina; þykist vera að sópa, borða melónu og fleira.

Þrátt fyrir allt lærði ég ýmislegt af henni:

Pilsnerdós má ekki vera inn í ísskáp lengur en tvær klukkustundir. Ella springur hún.

Tannkrem er best við brunasárum. Bölvuð vitleysa að vera sulla með kalt vatn.

Það er dauðasynd að henda brauði. Annar matur á að fara beint í tunnuna.   

Er ekki frá því að ég hafi kvatt konuna með söknuði, áður en ég hélt af stað lengra inn í eyðimörkina ... 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband