. - Hausmynd

.

Eyðimerkurganga

Garmeh er tvö hundruð manna bær, með örlítið færri úlföldum, í miðri eyðimörk Íran. Þangað ætla ég. Ekki á hraða Gunnars Egilssonar ofurpólfara, heldur fótgangandi frá Yazd, þar sem ég er nú. Úr því að leiðin er um þrjú hundruð kílómetrar reyni ég kannski að fara spölkorn á puttanum.  

Væri ég skáld, hefði ferðin einhvern væmin tilgang, eins og hamingjuleit undir stjörnubjörtum himni. Væri ég íþróttamaður yrði markmiðið að slá met. Væri ég sagnfræðingur myndi ég fylgja sporum Marco Polo. En ég er bara langt genginn áhugamaður um eyðimerkur og ferðalangur í leit að tilbreytingu.

Það er engin heitur reitur í boði Vodafone í eyðimörkinni. Þannig að, hér birtist ekkert næstu daga. Eftir það fáið þið að heyra alla sólar(ríku)söguna.


Draumalandið Íran

mashad

Hótelstarfsmaðurinn í Mashad í Íran varð hálf móðgaður, þegar ég spurði hvort það kæmi heitt vatn úr sturtunum. Halló, þetta er hótel!

Í Afganistan var ég vanur að spyrja hvort það væru sturtur. Stundum var ekki einu sinni rennandi vatn.

Verslanir í Mashad eru opnar langt fram á nætur. Handan hótelsins eru seldir FERSKIR ávextir. Til þess að nálgast þá þarf að nota svokallaða gangbraut við svonefnd umferðarljós. Engin hætta er á að stíga ofan í opin holræsi meðan maður gengur um snyrtilegar aðalgöturnar. Á meðan eru heldur engar búrkuklæddar konur sem grípa í handlegginn á manni og grátbiðja um bukshiss!

Ég er í kúltúrsjokki.


Lærisveinn múlla

Madrassanemendur i HeratFór húsavillt í Herat og lenti í teboði með lókal múlla og lærisveinum hans. Vegna tungumálaörðugleika héldu þeir að „mín bók" væri kóraninn. Áður en ég vissi af, voru fyrir framan mig heilög vers á arabísku og fjörtíu starandi augu sem biðu þess að ég hefði upp rausn mína. Mér til undrunar var ég útskrifaður með einkunnina Islam kam kam, smávegis íslam. Fostudagsmoskan i Herat

Veit ekki hvort það hafði eitthvað með heimsóknina að gera, en daginn eftir vaknaði ég klukkan fimm og fylgdist með morgunbænum í Föstudagsmoskunni í Herat.


Valmúavandinn

Vegna umfjöllunar fyrir 24 stundir sökkti ég mér ofan í ópíumvanda Afganistan á dögunum. Hitti valmúabónda, smyglara og meðferðarlækni.

Þrátt fyrir átak alþjóðasamfélagsins hefur valmúaræktun aldrei verið meiri í Afganistan. Dauðasveitir talibana hagnast um milljarða, lögreglumenn eru gegnsýrðir af spillingu og dópistum fjölgar stöðugt.

Maður spyr sig hvort þetta sé ekki vonlaus barátta. Álíka gáfuleg markmið og að reyna útrýma minknum á Íslandi. Einhvern vegin verða bændur að skrimta og heróínsjúklingar í Evrópu að fá sinn skammt.

Lögleiðing myndi auka öryggi í landinu. Talabanar fengju ekki lengur borgað fyrir að vernda valmúaakrana. Fjármunum alþjóðasamfélagsins varið í þarfari verkefni. Embættismenn gætu ekki lengur hagnast á samstarfi við smyglara. Og fíklarnir ... tja - þeir verða hvort sem alltaf til staðar. Eru ekki síður afleiðing atvinnuleysis og bágborinnar heilsugæslu.

En segjum að yfirvöld nái að útrýma valmúaræktun. Götuverð á heróíni myndi í kjölfarið snarhækka í Evrópu. Dópistar þyrftu að ræna fleiri sjoppur til að fjármagna neysluna. Allt þangað til ræktunin sprytti upp í einhverju öðru landi.

Greinin birtist vonandi þegar ég kemst nær nútímanum, til Íran. Netið í Afganistan er of tregt til að hlaða upp myndum.


Kabúl kvödd

Betlari i KabulKominn tími til að halda eitthvert annað. Rata orðið betur um Kabúl en Reykjavík, þekki ættir betlara og hótelgestir halda að ég sé starfsmaður.

Fer til Herat í fyrramálið og stíg fljótlega yfir landamæri Íran. Inshalla, ef Guð lofar, eins og Afganir enda gjarnan fullyrðingar.


Lygar og geðþóttaákvarðanir

Kvörtunarbréfið virkaði! Eða kannski voru það hótanirnar ...

Síðastliðinna viku hef ég farið ótal fýluferðir í Íranska sendiráðið í Kabúl. Beðin um að koma aftur og aftur á meðan sendiráðsmennirnir væru að bíða eftir „samþykki“ frá yfirvöldum í Tehran. Í gær barst loksins svar, stutt og laggott: Nei.

Til þess að fá nánari útskýringu bað ég um fund með sendiráðsmanninum. Hann skýldi sér bak við ákvörðun yfirmanna sinna. Meðan hann útskýrði umsóknarferlið, ímyndaði ég mér það einhvern vegin svona:

Nefnd situr við hringborð. Horfir á myndirnar af umsækjendunum. Fundarmaðurinn með stærstu gleraugun ræskir sig og tilkynnir að allir sem byrji á pé fái vegabréfsáritun í dag.

Ég sagði að þessi ákvörðun kæmi sér afar illa. Fyrir okkur báða. Upplýsti hann um að Ísland væri eitt auðugasta ríki heims og hefði fyrir mánuði undirritað viðskipta og vináttusamning við Íran. Í því ljósi myndi það án efa komast í fréttirnar ef frægum leikara eins og mér yrði neitað um inngöngu. Þar að auki ætti ég íranska vini og bókað flug frá Theran til London. Þvílík haugalygi frá upphafi til enda.

Vegabréfið mitt er nú í sendiráðinu og áritunin verður tilbúin í fyrramálið - inshalla.

Ótrúlegt geðþóttaferli.


Erik frá Írlandi

Oft er mikill munur að vera frá Íslandi.

Stærsti kosturinn er að þurfa ekki stöðugt að vera afsaka heimlandið. „Bush! Bush! Vondur!!!" Þetta eru viðbrögð sem Bandaríkjamenn fá í þriðja heiminum. Það er að segja ef þeir þykjast ekki vera frá Kanada eða eitthvað álíka. Bretar og Danir fá sinn skerf af dissi. Verst er samt að vera frá Ísrael og þurfa að verja þjóðarmorð.

Fæstir vita reyndar hvar í heiminum Ísland er. Þykjast ýmist þekkja það eða svara eins og ég hafi mismælt mig: „Ísland? Meinarðu Írland?"

Þegar kemur að íbúafjöldanum halda enn fleiri að sér hafi misheyrst eða það sé eitthvað bogið við enskukunnáttuna mína. Þrjár milljónir. Þrjúhundruð milljónir. Hljómar líklegra en þrjúhundruð þúsund.

Ég er löngu hættur að nenna útskýra nafnið mitt fyrir fólki. Kynni mig sem Erik.


Opið bréf til Mahmoud Ahmadinejad

Kæri forseti,

Ég hef beðið eftir vegabréfsáritun til þíns ágæta lands í þrjár vikur. Þínir menn í Kabúl sögðu upphaflega að allt yrði klappað og klárt í gær. Núna vilja þeir að ég komi aftur á þriðjudag.

Þolinmæði mín er á þrotum. Þú þarf að reka á eftir þessum lötu blýantsnögurum.

Íran og Ísland eru nú einu sinni vinátturíki.

Bestu kveðjur,

Egill Bjarnason


Geitagjaldmiðill

Byrjaði daginn snemma.

Fór upp á þak hótelsins til að borða morgunmat (afar áhugavert, ég veit).

Útum gluggann á eldhúsinu sá ég það var kominn nýr hótelgestur. Lifandi geit.

Með nýlagað neskaffi leit ég svo aftur út. Þá lá geitin í jörðinni - hauslaus - og tveir af hótelstarfsmönnunum stóðu yfir henni. Kinkuðu stoltir kolli til mín. Veisla í kvöld

Hótelstjórinn sagðist hafa fengið gripinn upp í skuld. Ein geit eru fjandi margar hótelnætur hugsa ég. Kannski var hann að grínast.

Ég gleymdi að spyrja að einu: Til hvers að slátra henni á hótelinu - uppá fimmtu hæð!?

Þessi sjón bjargaði allavega deginum. Deginum þar sem mitt helsta verk var að iðka þá lista að gera ekki neitt.

Á morgun fæ ég vonandi vegabréfsáritunina til Íran og heimsæki íslenska friðargæsluliða í Kabúl.


Bóksalinn í Kabúl selur ekki Bóksalann í Kabúl

Í næstu götu við hótelið mitt er bókabúðin Shah M. Þar fást allir mögulegir titlar um Afganistan. Nema einn: Bókasalinn í Kabúl.

Shah M er betur þekktur sem Sultan í fyrrnefndri bók eftir norska blaðakonu. Hún dvaldi á heimili bóksalans í þrjá mánuði og launaði gestrisnina með rætinni lygasögu um líf fjölskyldunnar, segir hann.

Bókin hefur verið þýdd á 33 tungumál, þar á meðal íslensku. Fyrrverandi eiginkona Shah hrökklaðist til Noregs eftir að bókin kom út á darí, tungumáli Afgana. Sagði að sér væri lengur vært í Afganistan.

Shah hefur nú gefið út sína eigin bók, Það var einu sinni bóksali í Kabúl. Þar blæs hann á kjaftasögur um framhjáhöld og ýmsa haraam hegðun fjölskyldumeðlima.

„Hún skildi ekki darí og lýsti atburðum án þess að hafa verið viðstödd," sagði sonur Shah, kallaður Mansoor í bókinni, á meðan við tefldum skák. „Lét okkur vissulega hafa dulnefni en hversu margir bóksalar heldurðu að séu í Kabúl?"

Öll þessi frægð hefur að minnsta kosti aukið viðskiptin?

„Það er til afganskt spakmæli sem er svona: Ef þú villt verða frægur skaltu skíta í mosku. Allir munu tala um þig en engin við þig," segir hann, grautfúll yfir umfjölluninni.

Ég sagði honum náttúrulega frá því, að ég hafi unnið í bestu bókabúð Evrópu, Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. „Við erum með kaffistofu upp á annarri hæð en viljum ekki opna hana gestum. Bókakaffi er vestrænn stíll og myndi því einungis trekkja að útlendinga. Og þar með yrði staðurinn að skotmarki sprengjuvarga," sagði Mansoor. Hann er nánast tekin við rekstrinum af föður sínum sem dvelur í Kanada um þessar mundir.

Það er allavega rétt farið með gestrisni fjölskyldunnar. Ég ætlaði bara að kíkja á úrvalið en endaði á því að verja hálfum deginum í búðinni. Boðið uppá baunakássu og Mansoor fyllti tónhlöðuna mína af lögum. Hann virtist vita geysilega mikið um Ísland og ætlar að heimsækja Sunnlenska bókakaffið einhvern daginn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband