8.4.2008 | 12:21
Golf í Kabúl
Ótrúlegt en satt er golfvöllur í Kabúl. Einstaklega tötralegur en um leið sjarmerandi á sinn hátt. Hvar annars staðar sérðu glitta í gamla skriðdreka meðan þú miðar í átt að holunni?
Ég spilaði fjórar holur í félagi við aðra ferðalanga. Sagði þeim nú ekki frá því þegar ég fékk glæsilegan bikar á meistaramóti GOS um árið. (Ragnarr gerir líklega athugasemd við þetta mont.)
Ferðalög | Breytt 21.4.2008 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 06:09
Lítill ferðalangaheimur
Í tæpan mánuð ferðaðist ég með náunga frá Englistan, eins og Afganir kalla Bretland. Nú er hann snúinn aftur til Londonistan eftir tvö og hálft ár á flakki. Orðinn auralaus og - tja - örlítið þreyttur á þessum þvælingi.
Nokkrum dögum eftir að hann yfirgaf Afganistan fór ég til Bamyian. Þar dvaldi einn túristi, einnig frá Lundúnum.
Í gær var ég svo að fletta í gegnum myndasafnið mitt með honum. Jááá ... þessi gaur. Bradley? Haggi?" sagði hann þegar mynd af ferðafélaganum birtist á skjánum. Þeir höfðu kynnst á Sýrlandi (Arabistan samkvæmt landafræðiþekkingu Afgana).
Dæmigert fyrir kúltúr bakpokaferðalanga. Í löndum, þar sem túrismi er álíka umsvifamikil iðn og kexframleiðsla, fara ferðalangar yfirleitt flestir á sömu gistiheimilin. Sérstaklega þeir sem notast við Lonely Planet bækurnar. Þetta er eitt af því sem gerir ferðalög í óvinsælum löndum skemmtilegri. Pakistan er gott dæmi. Þar kynnist maður öllum útlendingum sem verða á vegi manns.
Þessi kúltúr er hverfandi á Indlandi hugsa ég. Landið orðið of stappað af túristum.
Afganistan vantar líka farfuglaheimilin til þess. Þar eru bara hótel. Hef samt hitt nokkra. Mis bilaða. Magnaðastur var Pólverjinn sem gisti í næsta herbergi við mig. Í hvert sinn sem við mættumst var hann ýmist að leita að vínsala, á leiðinni að hitt einn og á góðum degi fullur inní herbergi. Áttaði sig svo fljótlega á því að hann var í bandvitlausu landi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2008 | 06:11
Kominn af fjöllum
Það gerði ekkert til þótt græjurnar í bílnum væru bilaðar. Menn bara kváðust á!
Eftir klukkutíma á veginum þurftum við að stoppa.
Muslimman?"
Nei."
Hvíldu þig þá í bílnum."
Síðan ruku farþegarnir út í átt að nærliggjandi mosku. Á meðan hugsaði ég með mér hvers vegna ég væri að leggja þessa fjallaferðina á mig. Til þess að sjá silungapoll og grjóthrúgu?
Það tók tíu tíma að aka 260 kílómetra frá Kabúl til Bamyian. Ég dottaði oft á leiðinni. Vaknaði samt iðulega við það að bíllinn hossaðist á veginum. (Næsta dag velti ég fyrir mér, hvaðan ég hafði fengið þrjár kúlur á hausinn.)
Miðhálendi Afganistan tilheyrir hasaraþjóðflokknum. Talibanar vilja helst þurrka þann kynþátt út. Drápu þá í stórum stíl í valdatíð sinni.
Talibanarnir eyðilögðu líka bæjarprýði Bamiyan. Tvö þúsund ára gömul Búddalíkneski, þau stærstu í heimi. Talibanaleiðtoginn múlla Ómar sagðist einungis vera að brjóta steina" - með dínamíti. Núrorðið er aðeins hægt að sjá hellismunninn þar sem stytturnar stóðu.
Band-e Amir er frægt himinblátt vatn. Afganir gefa lítið fyrir skýringar einhverra leiðinlegra vísindamanna á einkenninu. Þeir vita að frændi Múhameðs spámanns galdraði fram litinn.
Á heimleiðinni sá ég - og heyrði - jarðsprengju þjóna tilgangi sínum rúmum kílómeter frá veginum. Fá lönd í heiminum eru eins vel þakin jarðsprengjum og Afganistan. Á síðasta ári drápust sjö hundruð manns, helmingur þeirra undir átján ára aldri. Er til afganskari dauðdagi? var spurt í Flugdrekahlauparanum sem ég las einmitt meðan ég var í Bamyian. Hasarastrákar eru svo sannarlega lunknir með teygjubyssur!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.3.2008 | 14:11
Skeyti frá Kabúl
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.3.2008 | 13:43
Maðurinn með hattinn
Ef ég man rétt sagði Erlingur Brynjólfsson, sögukennari í FSu, að leiðtogar með undarlega hatta væru yfirleitt varasamir.
Ahmad Shah Masoud er þjóðarhetja Afgana. Ef maður vissi ekki betur, mætti halda að hann væri forseti landsins, svo áberandi eru veggmyndir af honum (og sjaldséðar af sjálfum forsetanum).
Herkænska Masoud er goðsagnakennd. Sérstaklega sögur af því hvernig hann varði heimabæ sinn gegn Sovétmönnum á áttunda áratugnum. Hins vegar er hann sagður vonlaus pólitíkus.
Masoud varð andlit andspyrnuhreyfingar gegn talibönum. Stjórnaði fámennum en áhrifamiklum her. Og þegar ofstækismennirnir reyndu kerfisbundið að svelta uppreisnargjarna íbúa í norðurhluta landsins kom Masoud til bjargar á þyrlu fullri af brauði frá Tajikistan.
Dáður af blaðamönnum og leiðtogum í Vesturlöndum fyrir nútímaleg viðhorf. Ferðaðist um Evrópu í september 2001 til að vekja athygli á vinnubrögðum talibana. Snéri aftur til heimalandsins og fór dýrkeypt viðtal. Fréttamaðurinn stillti upp sjónvarpsvélinni fyrir framan hann, ýtti á play og ... allir drápust. Sprengjuvargarnir reyndust arabískir al-Qaedamenn en með morðinu var Osama bin Laden að launa talibanastjórninni greiða.
Þegar ég fer inn í opinberrar byggingar í Afganistan þarf ég venjulega að opna bakpokann minn fyrir öryggisvörðum. Þeir heimta margir að ég smelli af einni mynd, bara til að vera öruggir um að vélin sé ekki sprengja. Sennilega vegna þess að verðirnir vita hvernig hetjan þeirra var myrt.
Þeir sem nenna að lesa þessa lofræðu til enda hafa sjálfsagt áttað sig á því að aðdáendahópur Masoud hefur náð til mín. Lýtið á nýju höfundamyndina á blogginu. Ég er með höfuðfat sem Masoud gerði frægt, sást aldrei án, og gefur mér mikið streetkredit - í Afganistan að minnsta kosti.
Var maðurinn með hattinn varasamur?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.3.2008 | 10:26
Þrælkun fyrir alla
Afganskir flóttamenn í norðurhluta Pakistan lifa margir á múrsteinum. Til þess að skrimta verða börn vinnumannanna líka að strita minnst ellefu tíma á dag, sex daga vikunnar.
Eitt það fyrsta sem ég sé í einni múrsteinaverksmiðjunni er drengur, sem lærði ábyggilega að ganga fyrir nokkrum árum, með hjólaböru fulla af sandi fyrir föður sinn. Á meðan eru systkini hans upptekin við að móta múrsteina úr leðju.
Heimilisfaðirinn fær um 400 krónur á dag fyrir liðlega 1000 múrsteina sem verksmiðjan selur á um 2500 krónur. Með launum sér hann fyrir ellefu manns, allri fjölskyldunni, en hann virðist lítið reyna að takmarka barneignir. Kannski vegna þess að kóraninn segir að menn skuli ekki hafa áhyggjur, Allah muni sjá fyrir öllum.
Þegar búið er að móta múrsteinana eru þeir settir í ofn. Get ekki ímyndað mér að brennslan se eftirsóknarverð á sumrin í yfir 40 stiga hita.
(Skrifað í Pakistan en gleymdist að birta.)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.3.2008 | 10:27
Tíbet fórnað fyrir Íran
Er búinn að sækja um vegabréfsáritun í sendiráði Íran í Kabúl. Ef allt gengur að óskum fer ég um miðjan næsta mánuð yfir landamæri Afganistan og Íran, frá einu íslömsku lýðveldi yfir í annað.
Yfirvöld í Íran eru alræmd fyrir að vilja sem fæsta ferðamenn en sem betur fer eru sendiráðsmenn þeirra í Afganistan sagðir óvenju stimpilglaðir. Allavega á meðan maður er ekki frá Bandaríkjunum. Sá lýður er stranglega bannaður í landinu.
Einshvers staðar las ég að í þeim löndum í heiminum þar sem útlendingaeftirlit er hvað harðast, sé einkennandi að um helmingur landsmanna vilji flýja! Spurning hvort Íran sé eitt þeirra.
Ætlaði mér alltaf að heimsækja Tíbet og Nepal í þessari ferð en er hættur við. Bæði vegna þess að mér leiðist backtrack gegnum Pakistan og Indland og svo er hægara sagt en gert að komast til Tíbet um þessar mundir. Planið var að vísu að fara frá Pakistan yfir til Tíbet áður en ég komst að því að Kínverjar hleypa ferðamönnum aldrei gegnum þann inngang. Læt mig í staðin dreyma um að fara til Tíbet og Nepal seinna og taka Kína, Bangladess og Burma í leiðinni.
Veit hvorki hversu lengi ég verð í öxulveldi illskunnar" né hvert leiðir liggja þaðan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2008 | 12:32
Hyldu hárið, kona!
Í athugasemd við blogg um íslenska dónann" (sem reyndist svo engin dóni) var ég beðin um nánari útskýringar á því hvers vegna það sé virðingarleysi að vera ekki með blæju í íhaldsömum múslimalöndum. Mér leiðast siðapredikanir en ...
Virðingarleysið, menningarhrokinn, fellst í að gefa skít í siði landsins og særa blygðunarkennd heimamanna.
Á Vesturlöndum lýta sumir á blæjuna sem tákn um kúgun kvenna í þessum heimshluta. Búrka og andlitsslæður eru það vissulega, en blæjan er held ég mun frekar kúltúrsleg. Múslímar trúa því að kona eigi ekki sýna neinum nema eiginmanni sínum hár sitt. Konur eru ekkert síður trúaðri en karlmenn og móðgast því jafn mikið við að sjá þessa reglu brotna.
Gestum ber að virða hefðina, þó að hún særi skiljanlega stolt einhverra. Þessu verður best breytt innanfrá. Athugið líka, að í löndum eins og Afganistan eru frelsi til menntunar og vinnu mun ofar á blaði í réttindabaráttu kvenna og klæðnaðarákvæði eiga einnig við um karlmenn.
Á meðan gerðar eru kröfur um að innflytjendur aðlagist vestrænum gildum, verðum við að gera slíkt hið sama í þeirra heimi. Skopmyndamálið og blæjubannið í Frakklandi eru sennilega þekktustu dæmin. Á Íslandi myndi lögregla líka hafa afskipti af búrkuklæddum konum, samkvæmt viðtali við sýslumanninn á Selfossi í Sunnlenska á síðasta ári, fyrir að dulklæðast á almannafæri" en slíkt brýtur í bága við lögreglusamþykktir flestra sveitarfélaga - nema ef fólk er á leið heim af grímuballi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.3.2008 | 14:36
Dýrt fátæktarland
Miðað við önnur Asíuríki, og ennfremur miðað við að vera eitt verst setta land Jarðar, er Afganistan fokdýr staður fyrir ferðalanga eins og mig.
Megin ástæðan er fjöldi alþjóðlegra hjálparstarfmanna og hermanna. Þeir hafa keyrt upp fasteignaverð þannig að nótt á ódýrasta hóteli kostar tíu dollara. Sérstaklega í Kabúl. Skilst að íbúðarhús sem leigðist á tvö hundruð dollara á mánuði í september 2001 var komið upp í þrjú þúsund dollara sex mánuðum síðar.
Rútu-, leigubíla og veitingahúsaferðir eru líka furðu kostnaðarsamar. Ætli ég eyði ekki svona þrisvar sinnum meira fé hér en í Pakistan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2008 | 14:01
Kjúklingastræti
Jú, á Kjúklingastræti eru vissulega flott teppi.
Til dæmis þetta hér. Árásin á tvíburaturnana, skreitt bandaríska- og afganska fánanum ásamt friðardúfu.
Ef Afganistan hefði alla olíuna í Sádi-Arabíu og Sádarnir myndu aðallega flytja út teppi, hvort landið hefðu Bandaríkjamenn þá hernumið eftir 11. september?
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)