. - Hausmynd

.

Dagur eitt

 Senegal cycling club

Dakar, höfuðborg Senegal, liggur á litlu nesi við Atlantshaf. Útúr borginni er aðeins einn vegur og óska ég engum hjólreiðamanni þess að þurfa taka hann ofar en einu sinni.

Eftir fyrsta klukkutímann á  hjólinu var ég bara nokkuð brattur. Sá ég var á réttri leið og um það bil að nálgast hraðbrautina.

Allt þar til rútubílstjóri dró úr sjálfstraustinu með því að aka utan í mig á fullri ferð þannig að ég skall með hjólið í götuna. Hann hélt áfram ferð sinni en vegfarendur voru fljótir til aðstoðar.

Hjólið slapp merkilega vel en annar bakpokinn þurfti að fara til skraddara. Sjálfur slapp ég með skrámur á handleggnum og gat haldi förinni áfram korteri síaðar.

Ég fór hægar eftir þetta og var hálfpartinn byrjaður að teyma hjólið þegar, hvað haldiði, tuttugu hjólagarpar, klæddir gulu, óku hjá. Reiðhjólaklúbbur Dakar í árlegri utanbæjarferð!

Saman lögum við undir okkur heila akrein.

Ég kvaddi þá fimmtán kílómetrum síðar, við rólegan strandveg. Og þá var ekki einu sinni komið hádegi.


Penni sem gerir kranavatn drykkjarhæft

SteriPen

Maddý gaf mér galdratæki í jólagjöf.

SteriPen adventurer, penni sem drepur bakteríur í vatni á fimmtíu sekúndum.

Hann gerir mér kleift að drekka kranavatn hvar sem er í Afríku án þess að veikjast.

Þarf heldur ekki að reiða mig á að kaupa drykkjavatn í plastflöskum. Sem gerir ferðalagið líka  umhverfisvænna.

Hagræðið er dáldið en þó minna en maður hefði viljað því rafhlöður í tækið kosta sitt.


Stærð Afríku

 Omo valley, Ethiopia

Þessi skýringamynd er forvitnileg. Afríka er eins og samanlögð stærð þorra iðnríkja heimsins. 

Samt tölum við alltaf um álfuna sem eitt land.  


Heimsborgarar ekki frá Hvergilandi

 Abaarso, Sómalíland

Að vera heimsborgari þykir víst töff. Maður sér hugtakið víða. Það ku til dæmis mjög heimsborgaralegt að ferðast með Iceland Express - eða var það Icelandair? 

Fyrir mér er sannur heimsborgari víðförull, kann að haga sér hvar sem er og hefur alþjóðleg sjónarmið.

Ég hef kynnst nokkrum en líka öðrum sem halda að heimsborgarahyggja feli í sér afneitun þjóðhyggju.

Sá sem ræktar ekki ættjörðina hefur ekkert markvert fram að færa í samfélagi heimsborgara. Ræturnar eru forsenda hins sanna heimsborgara.

Lenskan í nútíma borgarskipulagi virðist byggð á sama misskilningi. Að menningarsérkenni verði að víkja fyrir alþjóðlegu smekkleysi. Slíkar borgir verða, einsog Guðbergur Bergsson sagði um Frankfurt, dáldið einsog að fara inní ekkert.   

Evrópusinnar reyna gjarnan að slá sig til heimsborgara en lenda fljótt í mótsögn. Stórveldi þeirra er aðeins fyrir útvalda, líkt og þeir í Istanbúl þekkja. Heimsborgarar boða heimssýn.


Vekjaraklukkan

Vekjaraklukka

Keypti hana fyrir 150 krónur af götusala í Pakistan og hef sofið við hlið hennar síðan.

Ferðafélagar bölva henni fyrir að þagna aldrei. Hins vegar legg ég mig eftir að heyra tifið í sekúnduvísinum.

Því þegar náttstaðir breytast dag frá degi er sefandi að halla aftur augunum við takt sem breytist aldrei.  

Tikk, takk, tikk, takk ...


Almennt mont

National Geographic, nóvember 2010

Gerðist svo heppinn að fá birta eftir mig mynd ásamt nafni í síðasta nóvember-hefti National Geographic.

Að vísu pínulítil og bútuð í púsl, birt til að auglýsa vefsíðu tímaritsins. En mér er sama. Þeir höfðu úr þúsundum að velja. 

Þessu ótengt birtist önnur, sem ég sendi inní árvissa keppni, sem flipi á vef tímaritsins. Hún hefur í framhaldinu birst á nokkrum asískum vefsíðum.

ngm.com Vefsida


Vitjanir með afa

Afi Gunnlaugur

„Ágætt," sagði bóndinn í Skálholti þegar okkur afa bar að garði, hann með geldingajárnin, ég með myndavélina. „Það er alltof lítið gert af að ljósmynda þessi hefðbundnu, mikilvægu störf."

Ég fylgdi afa, Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni, um uppsveitir Árnessýslu síðastliðið sumar. Myndir úr ferðunum birtust í jólalesbók Sunnlenska ásamt viðtali eftir Sigmund ritstjóra. Serían birtist í heild hér á blogginu.

Myndavélin vakti enga tilgerð hjá afa. Það var eins og hann hefði verið eltur af ljósmyndara alla sína starfstíð. Man helst eftir augnabliki þegar hann þurfti að teygja höndina eftir svæfingalyfi sem datt milli bárujárnsveggja í skemmu. Ég smelti myndum einsog um stórviðburð væri að ræða. Meðan fingurnir þreifuðu eftir lyfjaglasinu, leit hann í fyrsta sinn upp, beint í myndavélina. Og glotti.    

Bændurnir voru líka hinir hressustu. Hefðu þó örugglega viljað að ég gerði stundum eitthvað að gagni. Þegar hross sem átti að gelda lét ófriðlega við afa spurði einn þannig að tónninn leyndi sér ekki: „Hvurninn er það, afhverju gerðist þú ekki dýralæknir einsog hann afi þinn?"


Suður Súdan ógnar heimsmeti

Sudan 

Ég þekki einn sem er í rusli yfir sjálfstæði Suður Súdan. Graham Hughes. 

Fyrir ári deildum við ferju frá Egyptalandi til Súdan (vegna landamæradeilna er Níl eina leiðin milli ríkjanna). 

Tveimur dögum eftir að við höfðum stigið á þurrt í Wadi Halfa yfirgaf Graham Súdan sömu leið. Hann var og er á hraðferð. 

Hann hafði þá verið 377 daga á ferðalagi með það að markmiði að setja nýtt heimsmet. Að heimsækja öll ríki jarðar, án þess að fljúga eða stýra ökutæki. 

Ferðin hefur nú tekið rúm tvö ár, mun lengri tíma en hann áætlaði, og síðasti spottinn, smáríki Eyjaálfunnar, virðist einn sá snúnasti til þessa. 

Hvort hann nái að ljúka þeim áður en Suður Súdan lýsir yfir sjálfstæði verður spennandi að fylgjast með.

Blogg hans um dagana í Súdan: http://theodysseyexpedition.com/index.php?s=day+377

Ferjan til Súdan  Farþegar sváfu á þilfarinu. 


Úti að hjóla

Wadi Halfa, Súdan

Sama spurning svífur um hugann í hvert sinn sem ég lendi ínýju landi. Nánar tiltekið þegar flugvélin snertir jörð, hemlar eftirflugbrautinni og taugaveikluðustu farþegarnir klappa. Mér verður litið útumgluggann og áfangastaðurinn yfirgefur ímyndunaraflið. Æ, hvert hef ég nú komiðmér ... Varla aftur snúið úr þessu.

Ég lenti í Dakar, höfuðborg Senegal, í fyrradag. Förinni er heitið þvers og kruss umvestanverða Afríku - á reiðhjóli. Samt engin hjólaferd, beinlínis. Reiðhjól er bara einfaldlega besti ferðamátinn. 

Vinnan við að gera reiðhjólið ferðbúið tók hugann af þessumhefðbundnu efasemdum sem fylgja fyrstu dögunum. Eða kannski var ég bara ofþreyttur eftir 23 klukkustund á flugi, frá New York til Dúbæ og þaðan tilDakar, nær sleitulaust. Náttúrulega klikkun því beint flug frá Bandaríkjunum hefðitekið sjö klukkustundir en jafnframt verið þrisvar sinnum dýrara. Íslenskirstuðningsmenn loftslagsbreytinga geta skilið eftir þakkir hér íathugasemdakerfinu.

Mynd úr safni Tekin í Súdan fyrir tæpu ári síðan. Vildi að ég gæti sagt að hann hefði gefið mér hugmyndina. 


Ár hjólsins

Hjólið mitt

Árið 2011 er ár hjólsins.

Fyrir mig.

Nánar í næstu viku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband