29.2.2008 | 07:51
Má bjóða ykkur franskar með þessu væli?
Ótrúlegt hvað skopmyndamálið er langlíft.
Undarlegra er að heyra vel menntaða Pakistana fordæma myndbirtinguna.
Furðulegast er svo að sjá hvað enska pressan í Pakistan ýtir undir mótmæli sem virðast núorðið miðast gegn heilu landi. Í gær taldi ég þrjár burðarmyndir af æstum mótmælendum á mismunandi stöðum í dagblaðinu The Nation. Er fréttagildið virkilega svona mikið?
Mér skildist á blaðamönnum í Karachi að kvikmyndagerðamaður í Hollywood hygðist birta mynd um Múhameð spámann á Netinu einhvern tíman í mars. Engin treysti sér víst til að kaupa útgáfuréttinn. Í kjölfarið er búist við að óvenju margir bandaríkjafánar verði brenndir í asíu.
Vonandi fylgja einhverjir á eftir. Gera óspart grín af íslam alveg þangað til það þykir orðið sjálfsagt mál. Best væri náttúrulega að einhverjir spaugsamir múslímar tæku sig til.
Í Karachi Mótmælendur við brennandi brúðu af forsætisráðherra Danmerkur.
![]() |
Múhameðsmyndum mótmælt í Súdan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.2.2008 | 08:22
Drykkjuvesen
Ef múslimi er gómaður fullur á almannafæri á hann yfir höfði sér nokkra mánuði í steininum, samkvæmt lögum í Pakistan. Það ku samt sjaldan enda þannig. Flestir múta bara löggunni.
Það er eins með þetta og öll önnur forsjárhyggjubönn; þeir sem virkilega vilja drekka gera það. Kaupa ýmist vín á svörtu eða heimabrugg.
Til þess að ferðamaður geti keypt áfengi löglega verður hann að vera með þar til gert leyfi frá yfirvöldum.Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 15:41
Leiðinlegi tvíburinn
Islamabad og Rawalpindi eru samvaxnar borgir en ólíkt skemmtilegar.
Við stofnun Pakistan um miðja síðustu öld var ákveðið að byggja höfuðborgina frá grunni. Á meðan Islamabad óx naut Rawalpindi titilsins vegna þess að Karachi, fjölmennasta borg landsins, þótti ekki nógu miðsvæðis.
Arkitekt Islamabad lét hanna borgina sem margar ferhyrndar einsleitar einingar. Hver og ein með sín hverfi, verslanir, almenningsgarða og þess háttar. Og allar bera kerfisleg nöfn á borð við G-7 og E-10. Fyrir vikið er borgin án alvöru miðbæjar og alveg hræðilega leiðinleg. Það sést meira að segja á landakortinu hér til hliðar. Borg hönnuð af skipulagsfríki fyrir bréfbera og bílstjóra frekar en almenning.
Aftur á móti er Pindí óskipulögð, litrík og lifandi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2008 | 13:22
Þetta gerist ...
Settist að á hóteli í miðbæ Rawalpindi í gær. Um kvöldið sýndi eigandinn mér á korti hvert væri sniðugt að fara. Til dæmis á staðinn þar sem Benazir Bhutto var myrt (eða lést sökum höfuðáverka - hvernig sem fólk vill hafa það). Síðan nefnir hóteleigandinn, svona í framhjáhlaupi, að það hafi orðið sjálfsmorðsárás nokkur hundruð metrum frá hótelinu í dag. Virtist ekki kippa sér mikið upp við það. Þetta gerist ...
Þegar ég fór á staðinn undir kvöldið var búið að fjarlægja öll verksummerki en lögregluflotinn var enn á staðnum.
Fer annars á morgun til Persawar, stórborgar nálægt landamærum Afganistan.
![]() |
Pakistanskur hershöfðingi myrtur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2008 | 08:40
Talað tungum í kínversku lestinni
Ég var sem betur fer mjög illa sofinn. Þannig að ég skreið upp í svefnkjouna og lét þá um að tala saman á móðurmálinu, urdú. Verst hvað beddinn var stuttur. Sennilega vegna þess að lestin var smíðuð í Kína fyrir smávaxna skáeygða menn.
Þegar ég kom á hótelið í Lahore var hótelstarfsmaðurinn undrandi að sjá mig aftur. Tilkynnti mér, nánast hneykslaður, að konan mín" - við Sara höfum greinilega af praktískum ástæðum skráð okkur inn á hótelið sem hjón á sínum tíma - væri farin til Indlands með Bandaríkjamanninum. Hvurslags eignmaður lætur svona lagað viðgangast?
Í dag tek ég svo lest til Rawalpindi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.2.2008 | 08:38
Huldukonur
Heyrðu, ég fæ þá loksins að hitta konuna þína þegar við komum," segi ég við Adil félaga minn frá Karachi á meðan við skipuleggjum ferdina til Lahore (sem eg endadi visu a ad fara einsamall).
Nei," andmælir hann og veit að svarið kemur mér á óvart. Mín fjölskylda og hennar heldur í þá hefð að aðskilja konur og karla. Konan mín fær ekki að hitta menn utan fjölskyldunnar. Ekki einu sinni æskuvinir mínir hafa talað við hana en eiginkonur okkar allra hittast aftur á móti stundum."
Afhverju?
Þetta er bara hefð.
En heldurðu að henni langi ekkert að hitta mig?
Ekki séns. Hún myndi harðneita ef ég reyndi að fá hana til þess.
Ég skil.
Ferðalög | Breytt 26.2.2008 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2008 | 07:51
Klíka klæðskiptinga
(Birtist í 24 stundum 22. februar sl.)
Í stórborgum Pakistans og Indlands eru betlandi klæðskiptingar nokkuð áberandi. Þeir halda hópinn og hlýða skipunum meistara síns.
Auðvitað ávarparðu mig sem konu - er það ekki augljóst!?" segir Fauzia móðguð. Hún er klædd í litskrúðugan kjól, á háum hælum, með glansandi skartgripi og mellulega mikla andlitsmálningu sem nær samt ekki að fela skeggrótina.
Ég sest niður á kaffihúsi í Pakistan með þeim Fauzia og Hira. Heimamenn kalla þær hidjrur; konur í röngum líkama, með afbrigðilegan getnaðarlim, sem saman mynda órjúfanlega einingu í samfélaginu. Klíku sem nærist á betli, danssýningum og vændi.
Frá því að ég man eftir mér sem litlum dreng var ég utangátta. Allt þar til ég var tíu ára og sá hóp af hidjrum í hverfinu mínu. Eldri bróðir minn lamdi mig fyrir að sýna þeim áhuga og virðingu," segir Hira sem var útskúfað úr fjölskyldunni á barnsaldri en um leið tekin inn í nýtt samfélag.
Lagskipt samfélag
Hidjrur búa margar saman. Á hverju heimili er einn gúrú svokallaður sem ræður ríkjum. Ég var um leið gerð að nemanda hjá gúrú. Lærði að elda, dansa, sauma og hegða mér eins og dama," heldur Hira áfram en í hvert sinn sem gúrú deyr er elsti nemandi hans á heimilinu sæmdur titlinum.
Ejaz Ahsan, höfundur bókar um þennan þjóðfélagskima, segir samfélag hidjra raunar mjög lagskipt. Á tímum kóngaveldis á Indlandi, sem þá náði yfir Pakistan, höfðu þær völd í höllunum. Eftir að það liðaðist í sundur klofnaði samfélagið í tvennt. Annars vegar þær sem lifa á því að dansa í brúðkaupum og hins vegar betlara og kynlífsþræla. Virðulegri hópnum er illa við hvernig hinar koma slæmu orði á þennan lífsstíl," segir hann og telur að í Karachi, fjölmennustu borg Pakistans, séu tæplega tíu þúsund hidjrur.
Fimmtudagar til fjár
Þegar Hira varð sextán ára byrjaði hún að betla í slagtogi við systur sínar" og er enn að. Ég vinn að meðaltali átta klukkustundir á dag," segir hún og kveðst þéna vel yfir almennum lágstéttarlaunum. Flestir gefa okkur eitthvað enda boðar ógæfu að gera það ekki. Sérstaklega á fimmtudögum því þá eiga múslímar samkvæmt trúnni að gefa betlurum. Samt kemur stundum fyrir að við verðum fyrir aðkasti en ég hef ekki lent í neinu alvarlegu," segir hún, orðin liðlega þrítug.
Fauzia og Hira fyrirlíta vændi og segjast ennfremur ekki stunda kynlíf. Með hverjum ættum við að gera það? Hidjrur rugla ekki saman reytum. Við erum eins og systur," útskýra þær.
Ég kann vel við þennan lífsstíl, gæti að minnsta kosti ekki hugsað mér að vera í einhverju öðru starfi, en stundum óska ég þess að hafa fæðst sem stelpa," segir Hira jafnframt en er nú orðið órótt. Er þetta ekki orðið gott? Það er mikið að gera akkúrat núna ... "
Eins og flestum er kunnugt voru þingkosningar í Pakistan á dögunum. Ég varð vitni að því þegar nokkrar hidjrur hugðust láta að sér kveða á kjörstað var þeim vísað sitt á hvað. Fyrst í röðina fyrir konur, þaðan í karlaröðina og á endanum meinað að kjósa. Fregnir herma að á Indlandi hafi hidjrur meiri réttindi og meira að segja sinn eigin fulltrúa á þingi.
Hidjrur Betlararnir Fauzia og Hira þéna vel yfir meðal lágstéttarlaunum enda boðar ógæfu að gefa þeim ekki ölmusu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2008 | 10:01
Að drepa tuttugu tíma
Ég fer á morgun og til þess að verða ekki til vandaræða vegna eirðarleysis ætla ég að fylgja þessari áætlun:
- Misnota svefnlyf.
- Drekka tuttugu tebolla.
- Borða oft. Sérstaklega tímafrekan mat eins og hnetur og humar.
- Segja hverjum einasta klefafélaga frá ömurlegustu lestarferð lífs míns. Ég var síðastur inn í lest á leið frá Lucknow á Indlandi. Klefinn var svo stappaður af fólki að ég þurfti að standa alla leiðina. Í sjö klukkustundir! Var það ekkert erfitt? Tja ... þú veist nú hvernig við Íslendingar erum. Hefurðu ekki heyrt um Þorskastríðið?"
- Kljást við að minnsta kosti einn ribbalda uppá þaki lestarinnar.
- Syngja úr því ég neyddist til að eyða öllum vírussmituðu tónhlöðulögunum mínum.
- Læra heiti allra höfuðborga utanbókar.
- Glugga í blöðin og bókina The Savage Border sem fjallar um landamæri Pakistan og Afghanistan. Þar er ekki allt með feldu líkt og titillinn gefur til kynna.
- Taka myndir til að birta með þessu bloggi.
- Og pæla í næsta bloggi.
Þetta eru tíu leiðir til að drepa tuttugu klukkustundir. (Fyrsta atriðið er grín, mamma.)
Ps. Gleðifréttir! Félagi minn í Karachi, Adil, er líka á leiðinni til Lahore á morgun til þess ná í konuna sína á heimili tengdaforeldranna. Hann vill ferðast á fyrsta farrými en ég á alþýðufarrými. Það verður útkljáð á morgun.
Ps. aftur. Saemar frettir! Adil kemst ekki med. Tarf ad skaffa meira fe, skrifa fleiri frettir i dagbladid sitt.
Ferðalög | Breytt 23.2.2008 kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.2.2008 | 11:37
Ómerkileg aftaka
ANWER ARAIN VERÐUR HENGDUR Í KARACHI Á MORGUN, 20. FEBRÚAR, FYRIR HRYÐJUVERKAGLÆPI ...
Þetta stóð, handskrifað, á tilkynningaspjaldinu í blaðamannaklúbbinum í Karachi. Í morgun þurfti ég að fletta mjög aftarlega í dagblöðunum, alla leið á lókalsíðurnar, til að finna frétt um málið. Eitt stykki aftaka þykir sjálfsagt ekki stórmál í Pakistan. Þriðja dauðarefsiglaðasta landi jarðar, næst á eftir Kína og Íran, samkvæmt tölum frá árinu 2006. Þá voru 86 glæpamenn teknir af lífi. Hengdir í flestum tilvikum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.2.2008 | 09:34
Talsmaður Íslands í Pakistan
Blaðamaður enska dagblaðsins The News í Pakistan hefur síðastliðna daga tvisvar innt mig eftir kommenti varðandi pólitíkina í landinu. Viðtölin birtust síðan með fréttum um viðhorf erlendra blaðamanna.
Tæplega 500 erlendir blaðamenn flugu sérstaklega til Pakistan til þess að fylgjast með þingkosningum. Sumir telja sig hálf svikna. Hvað varð eiginlega um uppreisnina og kosningasvindlið!? heyrðist á blaðamannaklúbbinum í Karachi í gærmorgun.
Ég segi á einum stað að Íslendingar rugli saman Pakistan og Palestínu. Ég var spurður hversu mikið Íslendingar vissu um Pakistan og sagði að almennt vissu þeir lítið um landið. Gaf sem dæmi að úr því ég hefði eitt sinn verið í Palestínu tæki ég eftir að sumir gerðu engan greinarmun á löndunum. Annars er ég ágætlega sáttur við útkomuna.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)