19.2.2008 | 08:07
Kosið um arfleifð Bhutto

(Greinin birtist í 24 stundum 13. febrúar síðastliðinn en ferskari fréttir af kosningunum er að finna í blaðinu í dag. Það kemur flestum á óvart hversu friðsamlega kosningarnar gengu fyrir sig og að úrslitin skuli vera sanngjörn.)
Morðið á Benazir Bhutto hefur lamað kosningabaráttuna í Pakistan. Tæp vika er til þingkosninga þar sem lýðræðisbylting er efst á dagskrá. Fari eins og óttast er, að Musharraf forseti hagræði úrslitunum, má búast við blóðugri uppreisn.
Þann 22. desember síðastliðinn kraup Benazir Bhutto við legstein föður síns, Zulfikar Ali Bhutto, dáðasta forsætisráðherra í sögu Pakistans. Viku síðar hvíldi hún í líkkistu á nákvæmlega sama stað, inni í hallarlaga grafhýsi sem hún lét reisa í stjórnartíð sinni.
Fjörutíu dögum síðar stóð blaðamaður 24 stunda við leiðið. Það var baðað blómum, umkringt snöktandi aðstandendum og fyrir utan höllina biðu þúsundir stuðningsmanna Benazir þess að fá að kveðja hana á lokadegi yfirlýsts sorgartímabils. Fólk var í svo mikilli geðshræringu að það braut niður hallarhurðina og þyrptist inn, hrópandi með brostinni röddu: Ó, Guð! Af hverju!? Benazir er saklaus.
Pakistanska lögreglan hefur handtekið þrjá vegna gruns um aðild að árásinni. Þeir tilheyra hópi nýrra jihad-árásarmanna sem hefur fjölgað ört síðan forsetarnir Musharraf og Bush sneru bökum saman í stríðinu gegn hryðjuverkum. Pakistanski herinn fékk gríðarlegan fjárstuðning til þess að kveða niður öfgamenn í fjallahéruðum Afganistans. Baráttan skilaði því að bókstafstrúarmönnum fjölgaði í heimalandinu og núorðið eru nánast engar sýslur landsins lausar við sjálfsvígsárásir. Á síðastliðnum tólf mánuðum hafa uppreisnarmennirnir í Pakistan staðið fyrir 48 sjálfsvígsárásum og kostað um 1100 manns lífið.
Óvinsælasti maður Pakistans
Að undanskildum morðingja Benazir Bhutto er óhætt er að fullyrða að Musharraf forseti sé óvinsælasti maður Pakistans um þessar mundir. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun telja 58% landsmanna að hann hafi liðsinnt morðingjum Bhutto. Sjötíu prósent aðspurðra vildu að hann segði af sér.
Þegar Musharraf ruddist til valda fyrir áratug gaf hann það fljótlega til kynna að hann væri lýðræðislegur einræðisherra sem bæri hag Pakistana fyrir brjósti. En á undanförnum árum hafa valdagræðgi og einræðistilburðir orðið mun meira áberandi. Vinsældir hans hrundu í síðasta mánuði þegar hann reyndi að reka forseta hæstaréttar. Sömuleiðis var ákvörðun hans um að fresta þingkosningum fram til 18. febrúar litin hornauga enda meiningin að draga úr samúðaratkvæðum til stuðnings stjórnmálaflokki Benazir Bhutto.
Musharraf rígheldur í völdin og er talið sennilegt að hann hagræði úrslitum kosninganna. Mögulegt þykir líka að hann muni á síðustu stundu slá kosningunum á frest, enn einu sinni. Kosningasvindl stjórnvalda er nú þegar hafið. Kjörstjórn landsins fær ekki að vera óháð stjórnvöldum og opinberum stofnunum og fjármunum er beitt til að smala atkvæðum fyrir stjórnmálaafl Musharraf, sagði blaðamaðurinn Faroo Adil í samtali við íslenskan kollega. Þetta er því ekki spurning um hvort niðurstöðurnar verði falsaðar, heldur hversu illilega og hverju kjósendur eru tilbúnir að kyngja.
Fingralangur formaður
Það skýtur óneitanlega skökku við að píslarvottur lýðræðisins skuli í erfðaskrá sinni velja son sinn og eiginmann til forystu í vinsælasta stjórnmálaflokki landsins,Pakistan Peoples Party (PPP). Á meðan sonurinn, Bilawal Bhutto, lýkur námi í sagnfræði í Oxford stjórnar faðir hans, Asif Zardari, arfleiðinni.
Sumpart var búist við að PPP myndi klofna við formennsku Asif Zardari en í ljósi aðstæðna virtust kjósendur ekki láta það á sig fá. Þegar Benazir sneri aftur úr sjálfskipaðri útlegð á síðasta ári var Zardari haldið frá sviðsljósinu. Hann var sínum tíma gerður að blóraböggli fyrir hrakförum Benazir í embætti forsætisráðherra. Zardari fékk þá viðurnefnið Herra 10% vegna þess hversu iðinn hann var við að stinga tíund af opinberum tekjum í eigin vasa. Í síðari stjórnartíð hennar gerðist eiginmaðurinn enn kræfari og viðurnefnið margfaldaðist. Herra 50% hefur samtals setið í ellefu ár bak við lás og slá fyrir hvítflibbabrot og enn bíða nokkrar ákærur úrskurðar dómara, þar á meðal ásakanir um aðild að morði á bróður Benazir Bhutto. Sumir af hans eigin flokksbræðrum trúa því meira að segja að hann hafi fyrirskipað morðið á Benazir. Slík sé peninga- og valdagræðgin.
Allt bendir til þess að PPP hreppi flest þingsæti ef engin brögð verða í tafli. Flokkurinn getur þá valið milli þess að mynda annaðhvort meirihluta með mörgum minni flokkum eða stjórnarandstöðuleiðtoganum Nawas Sharif. Líkt og Benazir Bhutto hefur Sharif tvívegis áður gegnt embætti forsætisráðherra. Í seinni tíð gerði hann landið nánast gjaldþrota og var hrakinn í útlegð af núverandi forseta. Þau eiga það einnig sameiginlegt að koma frá tveimur valdamestu fjölskyldum Pakistans. Í landi þar sem helmingur kjósenda er ólæs er hægt að ná langt með þekktu ættarnafni.
Forðast fjöldafundi
Þrátt fyrir að tæp vika sé til hins veigamikla kjördags er kosningabaráttan dauf. Allt þangað til nú, á síðustu metrunum, hafa stjórnmálaflokkar landsins látið lítið fyrir sér fara. Fólk er enn að ná áttum eftir alla ringulreiðina í kjölfar Benazir-morðsins og lítil stemning er fyrir pólitískum útifundum, vígvöllum sprengjuvarga. Í stórborgunum er það í raunar aðeins veggspjaldaþyrpingin sem gefur til kynna að kosningar séu handan við hornið.
Síðastliðinn laugardag hleypti PPP-flokkurinn kosningabaráttu sinni formlega af stokkunum. Fimmtíu þúsund stuðningsmenn mættu á útifund í suðurhluta landsins og hlýddu á ávarp hins nýja leiðtoga, Asif Zardari. Það
vakti athygli að hvergi sást folk veifa myndum af Zardari né hrópa stuðningsorð honum til heiðurs. Benazir er enn leiðtogi þeirra. Meira að segja þegar Zardari gekk á svið var nafn eiginkonu hans kallað í sífellu.
Við munum hefna morðsins á Shaeed Benazir Bhutto með því að koma á fót lýðræði og endurbyggja
dómskerfið. Breyta stjórnkerfinu í þágu hinna fátæku og undirokuðu Pakistana, tilkynnti Zardari í ávarpinu. Kosningabarátta PPP snýst aðallega um að fiska samúðaratkvæði og tala fyrir bættum hag fjöldans, lágstéttarinnar. Ekkillinn kvaðst ennfremur smeykur um að hljóta sömu örlög og eiginkona sín. Öryggiseftirlit á fundinum var óvenju stíft en vígasveitir ofsatrúarmanna virðast hafa haldið sig þúsund kílómetrum norðar þennan daginn þar sem 27 biðu bana í sprengjuárás á sambærilegri samkomu.
Pakistanar ráðþrota
Pakistanar eru hálfslegnir og óöruggir eftir alla harmleikina sem skekið hafa landið síðastliðin misseri. Flestir eru ráðþrota gagnvart vandanum, óánægðir með þá dökku mynd sem landið hefur en vongóðir um að vandinn muni
leiða til alþjóðlegrar hjálpar.
Nokkrir af viðmælendum 24 stunda kvörtuðu yfir hræðsluáróðri leiðtoga Vesturlanda um að kjarnorkuvopn landsins geti lent í höndum öfgamanna. Jihadistar gætu aldrei náð völdum í Pakistan og þar af leiðandi aldrei nálgast vopnin. Kosningarnar munu sýna hversu óvinsælir þeir eru í raun og veru, sagði einn fjölmiðlamaður og benti réttilega á að stuðningur almennings við öfgahópa hafi hrunið eftir að þeir byrjuðu að herja á Pakistan í auknum mæli.
Í janúar sögðust aðeins 24% landsmanna styðja Osama bin Laden, samanborið við 46% í ágúst á síðasta ári. Osama er sagður halda sig í löglausum fjallahéruðum Pakistans og Afganistans ásamt öðrum forystumönnum al-Qaeda og talibana en rúm 18% aðspurðra sögðust styðja þá hópa.
Sorg og reiði Fjörutíu dögum eftir kistulagningu minntust stuðningsmenn Benazir Bhutto hennar sem ótvíræðs leiðtoga Pakistan.
Áfram PPP! Á útifundi Pakistan Peoples Party á laugardag, en flokkurinn mun að öllum líkindum sigra í komandi kosningum. Sama dag létust 27 í sjálfsmorðssprengjuárás á sambærilegri samkomu í norðurhluta landsins.
Ekkillinn Asif Zardari segist ætla að hefna Bhutto með því að koma á fót lýðræði.
![]() |
Pakistanska stjórnarandstaðan sigraði í kosningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2008 | 14:08
Sara (púnktur is) hefur orðið
Larry var mjog afbrydisamur ut i mig og Egil tar sem vid virdumst vera teim haefileika buin ad geta sofid i hvada adstaedum sem er. Hann kennir myrkrinu a Islandi um tessa nadargafu okkar. Egill fer bara i svefnpokann sinn ofugan og sefur eins og steinn, eg loka augunum og hossast i svefn i hverri einustu rutuferd. A rutustod i Rorhi herna i Pakistan turftum vid ad bida eftir rutu i fjora tima, vid Egill tokum ut svefnpokana okkar og fengum okkur fjogurra tima lur undir berum himni hja einhverjum testandi med sjonvarpid a fullu blasti og kedjureykjandi hop af tedrykkjumonnum i hrokasamraedum yfir okkur. Larry vakti, mjog afbrydisamur. Gott ad eiga haefileika.
Ferðalög | Breytt 19.2.2008 kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2008 | 10:50
Klámkaffi
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2008 | 13:00
Dannebrog óskast
Pakistanskir óvinir tjáningarfrelsis mótmæltu Múhameðs-teikningunum fyrir utan höfuðstöðvar blaðamanna í Karachi í dag.
Fyrst kveiktu þeir víst í brúðulíki af forsætisráðherra Danmerkur. Ég missti af því en sá þegar þeir báru eld að bandaríska (!) fánanum, öskrandi eitthvað sem endaði á DENMARK! Fyrst Dannebrog var ekki til varð Bandaríkjafáni að duga.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.2.2008 | 13:11
Dagur í Karachi
Ég nenni nú sjaldan að blogga í dagbókarstíl en ætla að prófa í þetta skiptið.
Vaknaði upp úr klukkan 10 við frímínútnalæti á skólalóðinni fyrir neðan hótelgluggann minn.
Að morgunstússi loknu gekk ég niður í miðbæ Karachi. Á leiðinni keypti ég enska dagblaðið The Nation og var minntur á það á forsíðunni að í dag ætti ég tvítugsafmæli.
Borðaði morgunverð á lókal veitingastað. Te og eitthvað jukk sem verður best lýst sem eggjaköku.
Síðan fannst mér gráupplagt, fyrst ég var ekki lengur tjáningur, að heimsækja rakarann. Hann renndi yfir skeggstæðið og áður en ég vissi af var ég lentur í hárgreiðsluleik. Fór þaðan nýrakaður með fáránlega hárgreiðslu.
Við hliðin á rakaranum var símaþjónusta sem ég notaði til að hringja á þrjá staði. Fyrst í ónefndan Bhutto-fjölskyldumeðlim sem svaraði ekki, síðan í pakistanskan sjónvarpsfréttamann og loks á staðinn sem ég heimsótti klukkutíma síðar; Edhi-stofnunina.
Edhi stofnunin rekur umsvifamesta sjúkrabílasístem í heimi án stuðnings frá hinu opinbera," útskýrðu þeir sem tóku á móti mér en þessi hagnaðarlausa stofnun er efni í heila grein.
Verður í nógu að snúast fyrir sjúkraflutningamenn á kjördag? Já, þeir héldu það nú.
Tveimur tebollum síðar var ég margs vísari um stofnunina en var boðið í vettvangsleiðangur í fyrramálið.
Þaðan hélt ég á skrifstofu Mannréttindastofnunnar Pakistan í Karachi. Hitti meðal annars lögfræðing sem var einn þeirra sem harðstjórinn Musharraf forseti fangelsaði fyrir mótmælaaðgerðir gegn aðför stjórnvalda að réttarkerfinu. Engin þar inni hafði trú á komandi kosningum.
Borða síðan kvöldmat með mannréttindafrömuðunum á fínum hótelveitingastað. Ég setti mig í ákveðnar sparistellingar en lagði frá mér hnífapörin þegar ég sá að félagar mínir skófluðu í sig matnum með hægri hönd. Vinstri höndina má maður ekki nota því heimamenn skeina sér, án klósettpappírs, með henni.
Við ætluðum að enda daginn á einhverjum stjórnmálafundi en hann var víst blásinn af.
Á leiðinni aftur á hótelið kom ég við í klúbbhúsi fjölmiðlamanna í Pakistan. Stað þar sem starfsbræður skrafast við. Eftir að hafa mætt á nokkrar stórar fjölmiðlauppákomur er ég farinn að þekkja nokkra í klíkunni. Það var eitt og annað í fréttum.
Á hótelinu pikka ég þetta meðal annars inn á tölvuna. Sé að klukkan er orðin of margt fyrir ferð á netkaffi þannig að ég ætla að enda daginn - og bloggið - á því að horfa á bíómyndina um hinn afganska Flugdrekahlaupara í sjóræningjaútgáfu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2008 | 14:16
Vandamál Pakistan
Onefndur rafvirki í Lahore í tilfinningaþrunginni, paranjoaðri, pólitískri predikun: ,,Það er hægt að kenna fjórum aðilum um nánast öll vandamál Pakistan: Bandaríkjamönnum, Indverjum, Ísraelum og Afgönum."
Einfalt?
---
Þjónn á nokkuð fínum veitingastað í Pakistan: ,,Afsakaðu herra en við getum því miður ekki afgreitt kjúklingaréttinn. Þessi fuglaflensa ... ''
---
Hóteleigendur í Karachi: ,,Stjórnvöld hafa bannað okkur að hýsa útlendinga þangað til kosningunum er lokið.''
Ég fann sem betur fer einn anarkískan hóteleiganda.
11.2.2008 | 08:55
Bhutto-dagar
Í gær yfirgáfu tveir frábærir ferðalangar Karachi. Sara er farin áleiðis til Indlands þar sem hún hyggst setjast á skólabekk. Vonandi liggja leiðir okkar saman einhvern tíman síðar á ferðalaginu. Með henni í för er Bandaríkjamaðurinn Larry sem við kynntumst í Lahore. Tjékkið endilega á vefsíðu Larry hann hefur komið fram í Jay Leno og ferðast til 88 á landa. Skemmtilega spes náungi.
Ég er með Benazir Bhutto slagorð á heilanum eftir atburði síðastliðinna daga. Síðasta fimmtudag fóru ég, Sara og Larry til heimabæjar Dóttur austursins en þar fór í hönd mikil minningarathöfn. Tíu þúsund raunarmæddir Pakistanar mættu.
Athöfnin markaði endalok yfirlýsts sorgartímabils og upphaf kosningabaráttu stjórnmálaafls Benazir. Ég lét mig ekki vanta á fyrsta útifund flokksins á laugardag. Margra klukkutíma ræðuhöld snérust um að fá pöpulinn til að öskra slagorð til heiðurs Benazir. Og allt saman fór sprengjulaust fram.
Nánari úttekt síðar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2008 | 16:10
Flóttinn í borgina
(Grein eftir mig sem birtist í 24 Stundum 1. febrúar síðastliðinn)
Eftir alvarlega uppskerubresti vilja þorpsbúar í indverska ættbálkaþorpinu Basari gera staðinn aðlaðandi fyrir ferðamenn. Tveimur ferðalöngum frá Selfossi, Agli Bjarnasyni og Söru Kristínu Finnbogadóttur, var boðið að vera með þeim fyrstu til að heimsækja staðinn.
Fjórtán sæta jeppi, með tuttugu og fjórum farþegum, nemur staðar við lítið ættbálkaþorp fyrir miðju Indlandi. ,,Basari!" kallar bílstjórinn og réttir fram lófann að útlendingunum í aftursætinu. ,,Þrjátíu rúpíur, takk!"
Gestgjafarnir koma á augabragði og fagna okkur eins og höfðingjum. Á meðan einn þorpsbúanna skreytir mig með blómakransi reyni ég að rifja upp hversu oft ég ítrekaði fyrir tengiliðnum að ég vildi alls enga sérmeðferð. Ég stórefast um að almennir gestir fái viðlíka móttökur og sé að því búnu afhent íbúð héraðshöfðingjans sem dvelur þessa stundina við vinnu í höfuðborginni Delhi.
Í landi sem hýsir liðlega einn milljarð fólks er Basari ekki til á landakorti þrátt fyrir að þorpsbúar séu álíka margir og Akureyringar. Um þessar mundir er verið að byggja hótel, unnið að opnun minjasafns og veitingastaðar til þess að koma staðnum á kortið, túristakortið.
Umdeild stéttaskipting
Við erum eins konar tilraunaverkefni leiðsögumannsins, Surendra, sem byrjar ferðina á að útskýra fyrir okkur stéttaskiptingu hindúismans. ,,Samkvæmt trúnni fæðast hindúar inn í fjórar misháar stéttir: Brahmin, Kshatriya, Vaishya og Shudra. Með öðrum orðum: prestar, bardagamenn, viðskiptamenn og verkamenn. Hinir ósnertanlegu, Dalit, eru ekki taldir með en þeir vinna öll láglaunastörfin," segir Surendra sem er af viðskiptastéttinni Vaishya og bætir kankvís við: ,,Þá má þekkja af klæðnaðinum og ístrunni. Það er þeim að þakka hvað efnahagur landsins er á góðri siglingu."
Surendra er nútímalegur í viðhorfum og kveðst umgangast alla sem jafningja. ,,Já, já, ég heilsa alveg þeim ósnertanlegu og sit með þeim til borðs," segir hann en það ku vera stigsmunur á viðhorfum stórborgar- og landsbyggðarfólks. ,,Í borgunum eru skilin óljósari og fólk notar aðallega skírnarnöfn. Borgarbúar eru menntaðri og frjálslyndari og vilja þar af leiðandi leggja af skipulagða téttaskiptingu. Með tímanum verður hún úrelt."
Skítugar heimilisvenjur
Heimili Basaribúa eru flest steinhlaðin og þökin úr handgerðum moldskífum sem sitja á löngum grönnum trjágreinum. Allar dyr í húsunum eru yfirleitt ekki nema einn og hálfur metri á hæð til þess að gestir gangi ekki inn með of mikilli reisn. Enn undarlegri er sá siður heimamanna að maka stéttina fyrir utan heimilin með kúataði. Í augum hindúa eru kýr heilagar en saurinn þjónar einnig þeim praktíska tilgangi að mýkja gólfin og þykir ekki síst mikil húsprýði.
Þegar inn er komið má sjá að nútíminn er að ryðja sér til rúms. Öll heimili, nema þau fáu sem eru úr trjágreinum, hafa rafmagn og hin betur settu hafa sjónvarp og gaseldavél. Undanfarin ár hafa framfarir hins vegar látið á sér standa. Monsúnrigningarnar hafa brugðist bændum í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Margir hafa þurft að flýja til stórborganna í leit að vinnu. ,,Sumir skilja fjölskyldur sínar eftir í Basari og senda peninga heim en aðrir eru farnir fyrir fullt og allt," segir Surendra, vongóður um að túrisminn eigi eftir skapa mörg atvinnutækifæri. Á meðan við göngum um þorpið fjölgar stöðugt í krakkaskaranum sem flykkist forvitinn á eftir okkur. Þau höfðu flest verið að fylgjast með krikketleik en meira að segja leikmennirnir misstu áhugann á meðan við vorum á vappi. Það er augljóst að þorpið hefur hingað til ekki fengið sinn skerf af þeim fimm milljónum ferðamanna sem heimsækja Indland ár hvert.
En eiga börnin ekki að vera í skólanum? Jú, sum þeirra eru það. Það er að segja þau sem koma frá hástéttunum. Skólinn í þorpinu er, eins og allt á Indlandi, ofhlaðinn af fólki. Hluti nemenda situr á hnjánum á skólalóðinni og þreytir lokapróf þegar okkur ber að garði.
Kúltúr og kannabis
Síðar um daginn, þegar ég er einn á vappi að fylgjast með hópi manna í fjárhættuspili, er mér boðið te hjá einu af ótal hindúahofum í þorpinu. Þar hefur hreiðrað um sig gamall, blindur Indverji sem sagður er vera að tilbiðja guðina en í rauninni er hann rammskakkur. Með þjóðardrykknum, mjólkurteinu reykja hinir elstu í hópnum marijúana. Heimaræktað, segja þeir stoltir en verða stressaðir þegar ég hyggst ljósmynda afurðina. Smeykir við hina hörðu réttvísi að sjálfsögðu.
Undir kvöldið er okkur boðið á æfingu þjóðlegs fjöllistafólks í þorpinu. ,,Til þess að stemma stigu við því að fólk gleymi uppruna sínum reynum við að slá reglulega upp indverskum menningarhátíðum. Líka til að viðhalda mállýskunni sem er töluð á svæðinu. Nú orðið talar fólk mun frekar hindí eða ensku," segir Surendra ábúðarfullur en listamennirnir knáu eru að þessu sinni að æfa sig fyrir brúðkaup hjá fjölskyldumeðlimi héraðshöfðingjans sem ég minntist á í upphafi. Gestalistinn telur hvorki meira né minna en fimm þúsund manns.
Til stóð að gista tvær nætur í þorpinu en vegna 59. lýðveldisdags Indlands vilja félagar okkar í Basari bregða sér af bæ og síður skilja gestina eftir í reiðileysi.
Skakkur Brahmin Með hasspípu í hendi situr þessi aldraði Indverji í hindúahofi og tilbiður Ganesha og aðra merkilega guði.
Þjóðleg skemmtun Í Basari eru haldnar reglulegar menningarveislur til þess að viðhalda indverskum hefðum.
Kúaskítur Íbúar í Basari þekja heimilisstéttina sína með kúataði af trúarlegum og praktískum ástæðum.
Vatnsberi Kona á leið heim með vatn úr þorpsbrunninum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2008 | 08:21
Meint erótík
Þriðja kvöldið í Pakistan lenti ég inni í herbergi með ,,erótískum" dansmeyjum. Áður en fólk fussar og hugsar með sér hvurslagseiginlega siðlausa karlrembusvín ég sé orðinn skal það lesa frásögnina til enda.
Uppúr miðnætti var ég á rölti ásamt Kana og tveimur pakistönskum félögum hans. ,,Hérna rétt hjá er hægt að sjá dansandi skvísurnar sem ég sagði þér frá," sagði heimamaðurinn við Kanann og fór síðan að útskýra þessa starfsemi fyrir mér. ,,Þú borgar þeim pening og þá dansa þær mjög villt fyrir þig. Og ef þú gefur þeim pening á meðan strjúka þær á þér kinnina eða eitthvað ..."
Strípistaður ... í Pakistan!? Var maðurinn virkilega að tala um það? Veit Allah af þessu? Við útlendingarnir urðum náttúrulega frekar forvitnir. Gengum í átt að þessum alræmda stað og þar var margt sem gaf til kynna að hann þætti eitthvað vafasamur. Heimmönnunum varð líka frekar órótt, vildu síður staldra við til að glápa inn um dyrnar og sögðu ,,þetta fólk" vera litið hornauga af íbúunum í kring. Á endanum ákvað Bandaríkjamaðurinn að blæða í einn einkadans fyrir okkur fjóra sem kostaði á við hálfsmánaða alþýðulaun í landinu.
Inn á staðnum sem við völdum voru tvær stúlkur, á aldur við mig, þrír eldri menn með hljóðfæri og eldri kona, pimpmama, eins og heimamennirnir kölluðu hana kímnir. Svo byrjuðu stúlkurnar að dansa við undirleik karlanna. Atriðið var mjög flott en langt frá því að vera svæsið. Dansararnir sýndu ekkert hold og ef maður rétti pening að andlitinu klipu þær þéttingsfast í kinnarnar, rétt eins og gert er við ungabörn.
Þetta var allur ósóminn. Eins gott að Sara siðgæðisvörður var sofandi.
Ferðalög | Breytt 10.2.2008 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)