. - Hausmynd

.

Rickshaw-ferðasaga

 okumadur_blogg

Hamil heitir 57 ára rickshaw ökumaður í geggjuðu umferðinni í Delhi.

,,Er ég ekki of þungur fyrir þig?" spyr ég á meðan ég kem mér fyrir í farþegasætinu á þríhjólinu hans sem gengur alfarið fyrir fótafli. Rickshaw svokölluð. Til fróðleiks er líka til Autorickshaw sem er lítill þriggja hjóla bíll.

Hamil heldur nú ekki. Með hvorki meira né minna en 17 ára reynslu í faginu. Ekur stundum með tvo fullorðna og eins mörg börn og komast fyrir.

Þá leggjum við í'ann.

Ferðin byrjar rólega. Allt þar til við komum út á aðalveginn.

Umferðin í Delhi er eitt allsherjar kaos. Menn keppast við að taka fram úr þannig að allir aka á þvers á kruss um götuna. Fyrir vikið gengur umferðin mjög hægt fyrir sig. Þar að auki hefur bifreiðaeign aukist svo hratt í borginni á undanförnum árum að kerfið er alveg að springa. Nú orðið tekur það 30 til 40 prósent lengri tíma að komast í vinnuna en það gerði árið 2000.

Indverjarnir vita hins vegar að til þess að allt gangi greiðar fyrir sig er best að flauta bara nógu andskoti mikið. Stundum mætti halda að ökumennirnir væru sofnaðir með höfuðið fram á stýrið.

Hamil er ekki með flautu en veit hins vegar fljótlegustu leiðina á áfangastað. Nefnilega með því að aka á móti umferð! Á meðan hann smeygir sér framhjá bílum, reiðhjólum, fólki og einni kú, byrjar hann skyndilega að spjalla. Vill vita allt um mína hagi og jafnframt segja frá sínum eigin. Ekki nóg með það, þá reigir hann höfuðið alltaf aftur á meðan við tölum saman. Hann sér samt mestmegnis um að tala. Ég á frekar erfitt með að einbeit mér að öðru en farartækjunum sem komu úr gagnstæðri átt.

,,Ég á konu og þrjú börn sem öll búa í þorpi langt frá Delhi. Hjólið er mitt heimili í Delhi. Ég vinn alla daga og sendi tekjurnar heim. Á næturnar sef ég síðan í farþegasætinu," segir ökuþórinn.

Á miðri leið stoppum við til þess að ná kröftum. ,,Ég verð að fá mitt eldsneyti," segir hann og dregur upp sígarettu. Bidis-retta vafinn inn í laufblað af börnum í þrælkunarvinnu. Bæði ódýrari og daufari en verksmiðjusígarettur.

Í síðasta hringtorginu sem við ökum inn í stendur ungur starfsmaður umferðarlögreglunnar með skilti sem á stendur, stórum stöfum, á ensku:

DO NOT USE MOBILE WHILE DRIVING

Já, það er eins gott að aðvara þessa blaðrandi ökumenn.


Gífurleg fjölgun Íslendinga á Indlandi

sara

Sara er lent!

Á meðan ég beið eftir að ferðafélaginn kæmi frá flugvellinum rakst ég tvo aðra Selfyssinga - fyrir algjöra tilviljun. Auður Örlygsdóttir og Berglind Helgadóttir eru víst einnig nýkomnar og verða á flakki fram á sumar. Já, ég varð hissa að sjá þær.

Svo vinna víst tveir Íslendingar í sendiráðinu okkar í Delhi. Gaman væri að vita hvort það leyndust fleiri samlandar í nágrenni við mig.


Leyndardómur Pushkar

puskarÉg hef yfirgefið smáþorpið Pushkar eftir fjögurra daga dvöl sem, að marga mati, telst bara stutt heimsókn. Það er nefnilega eitthvað við þennan stað sem fær ferðlanga til dvelja í vikur og mánuði í senn.

Er það hið helga stöðuvatn sem þorpið umlykur? Stórfenglegur fjallagarðurinn umhverfis þorpið? Öll 400 hindúa-bænahúsin með sínum heillaga anda?

Ónei, ástæðan er ekki svona rómantísk, sagði einn breskur eilífðarferðalangur, heldur er það einfaldlega hassið á staðnum sem kyrrsetur fólk svona rækilega.

Staðurinn er líka ágæt aðlögunarstöð fyrir þá sem upplifa kúltúrsjokk á Indlandi. Vegna þess að túrisminn tröllríður öllu í Pushkar er hvarvetna að finna vestræna strauma; matsölustaðirnir bjóða upp á vestrænan skyndibita, bókabúðirnar selja allt það vinsælasta á Amazon og klæðskerarnir sníða fötin eftir tísku túristanna svo eitthvað sé nefnt. Þessi vestrænu hlunnindi mun hafa verið til staðar lengi, meira að segja þegar þessi maður flakkaði um Indland.

Ísraelar og Kóreumenn eru sérstaklega áberandi á staðnum og eru flest auglýsingaskilti á ensku, hebresku og kóreskur. Einn Ísraelinn hafði á orði að Pushkar væri eins og annað heimili. Nánast eins og ganga inn í Tel Aviv, nema hvað hér heilsuðu sér allir og verðlagið væri auðvitað mun lægra.

Svo finnast þarna hópar hippa í rammskökku móki dag eftir dag. Lonely planet ferðahandbókin segir að hass sé svo ólöglegt í Indlandi að minnsti skammtur geti kostað að minnsta kosti tíu ár í steininum og Indverska lögreglan taki núorðið hart á slíku. Svokallað bhang, sem inniheldur marijúana, er hins vegar löglegt og notað af Hindúum til þess að ná sambandi við guðina.

Og til þess að undirstrika sérstæðu staðarins eru í gildi íhaldsamar trúarreglur eins og bann við áfengi, kjöti, eggjum og faðmlögum og kossum á almannafæri.


Gleðilegan flugdrekadag

Hundruð flugdreka flöktu yfir smábænum Pushkar í dag, á degi flugdrekans. Eftir því sem ég best veit fór ekki fram nein formleg keppni í að fljúga drekunum en það var augljós metingur milli nágranna, bæði barna og fullorðna.flugdrekamynd

Engin sem ég spjallaði við virtist vita hvers vegna þessi hefð væri tilkomin en hún er víst nokkuð útbreidd á Indlandi. Undanfarnar vikur hefur fólk líka verið að æfa sig fyrir daginn mikla.


Belja á veginum

motorhjol

Ók mótorhjóli, sem leigði í einn dag, um sveitir Rajasthan-héraðsins. Geggjað - á marga vegu. Miðað við litla reynslu af mótorhjólum, og enn minni af indverskri vinstri umferð, gekk ferðin vel. Eða allt þar til mótorhjólið bilaði en sem betur fer var vaskur vélvirki ekki langt undan.

Það er nokkuð greinilegt að Indverjar taka lausagöngu búfjár ekki eins alvarlega og lögreglan í Rangárvallasýslu. Ég ók næstum niður belju en fyrir þá sem ekki vita eru kýr heilagar í augum hindúa. Ég hefði sjálfsagt endurfæðst sem rotta ef þetta hefði farið illa.


Bamm! Bamm! Betlarar!

Sá hóp götubarna, ábyggilega hátt í 20 krakkar á aldrinum 7 - 13 ára, gera innrás á nokkuð fínan veitingastað.

fataekrabornÖll vopnuð kjuða og trommu, gerða úr hjólkopp, mataríláti eða öðru tilfallandi, hófu þau að ,,spila" ærandi dinnertónlist við inngang veitingastaðarins.

Þjónarnir á staðnum ruku út og reyndu að flæma krakkaskarann burt, ógnandi með lurk á lofti. Í staðinn framkölluðu krakkarnir bara ennþá meiri hávaða allt þar til kokkurinn borgaði þeim fyrir að hætta. Þá tvístraðist trommusveitin upp en hún ku vera iðinn við að finna sér áheyrendur með þessum hætti.

(Götustrákarnir á myndinni eru ekki í trommusveitinni.)


Skartgripasvik

Á dóli mínu um stórborgina Jaipur stoppuðu mig nokkrir menn á mínum aldri. Spurðu hvort ég vildi ekki taka einn leik í einhverju borðspili, drekka te og spjalla. Jújú, mér leist vel á það enda töluðu þeir allir fína ensku.

Tveimur tebollum síðar rekur inn nefið maður; óaðfinnanlegur til fara, yfirvegaður í fasi og reiprennandi enskumælandi. ,,Íslendingur. Virkilega. Þvílík heppni að hitta á Íslending. Það eru nú einu sinni bara til 300 þúsund af þeim. Hvar á Íslandi býrðu. Reykjavík?" spurði hann, fyrsti Indverjinn, sem ég hitti, sem veit einhver deili á Íslandi. ,,Ég á viðskiptavini á Íslandi," hélt hann áfram, ,,sel þeim skartgripi sem ég framleiði. Á meira að segja eina íslenska bók sem ég geymi í versluninni minni hérna hliðin á. Villtu sjá hana?"skartgripir

Auðvitað vildi ég það. Bókin reynist vera íslensk landslagsmyndbók og auk þess átti hann skartgripabækling frá Icelandair. Kom líka á daginn, þar sem við létum fara vel um okkur í skartgripaversluninni, að hann var á leiðinni í bíssnesferð til Íslands og í leiðinni að heimsækja kunningja þar.

Eftir gott spjall, spurði hann, eins og upp úr þurru, hvort ég vildi ekki verða mér útum pening á ferðalaginu? 8 þúsund pund nánar til tekið!

Það eina sem ég þyrfti að gera væri að flytja með mér skartgripi til Íslands að andvirði 10 þúsund punda og afhenda þá öðrum Indverja á Leifstöð. Og hvers vegna? Ég væri nefnilega með ferðamannavegabréfsáritun og gæti flutt þetta milli landa án þess að borga af því skatt. Ella myndu indversk yfirvöld leggja 250% álagninu á sendinguna vegna þess að glingrið ætti eftir að hækka svona mikið í verði.

Að fá tæpa eina milljón fyrir að flytja einn pakka er augljóslega of gott til að vera satt.

Eftir að ég var búinn að segja nei við þessu óvænta atvinnutilboði sýndi hrappurinn mér pappíra frá öðrum burðardýrum. Þarna voru vegabréfsljósrit frá fólki víðsvegar að í heiminum. Fólk sem hafði látið blekkjast af þessari svikamillu. Starfsmaður hótelsins sem ég gisti á sagði mér, eftir þetta atvik, að það væru fáránlega margir sem bitu á agnið. Fyrir vikið væru svona hvítflibbar orðnir að plágu í borginni. Að hans sögn eru til nokkrar útgáfur af atvinnutilboðinu en í mínu tilviki hefði trúlega óvænt komið upp einhvers konar vandamál í tollinum og ég tapað hárri fjárhæð.

Hvað varðar heimsókn hans til Íslands held ég að það sé líka lygi. Samt spann svikahrappurinn þetta mjög vel. Til dæmis afhenti hann öðrum manni feitt seðlabúnt a meðan við spjölluðum saman. Allt partur af leikritinu. En eins og ég benti honum á voru launin aaaðeins of óraunhæf.


Bakdyramegin að Taj Mahal

Vaknaði við sólarupprás og leit útum hótelgluggann. Það var þoka en í henni leyndist þetta:

tja_mahal_blogg

Taj Mahal er minnismerki um ást. Þegar önnur eiginkona keisarans Shah Jahan lést árið 1631, við að fæða sitt fjórtánda barn, varð keisarinn svo sorgmæddur að hárið á honum varð grátt á einni nóttu. Framkvæmdir hófust strax og stóðu í rúma tvo áratugi. Talið er að um 20 þúsund verkamenn hafi komið að smíðinni en kostnaðurinn var allt að 3 milljónir rúpía, sem er að núvirði um 4550 milljónir íslenskra króna. Sjálfsagt eitt dýrasta ástartákn sem um getur.

Að loknum morgunmat trítlaði ég niður að hallarinnganginum. Á meðan ég virti fyrir mér röðina fyrir utan, kom að mér Indverji og benti mér á leið til sjá höllina að aftan, án þess að borga aðgangseyri sem er fáránlega hár. Ég gekk því framhjá innganginum, meðfram kastalaveggnum og mætti á leiðinni fleiri öpum en mönnum. Á leiðarenda blasti meistaraverkið við en þar voru líka nokkrir vopnaðir menn. Einhvers konar lögreglumenn skildist mér en þeir vildu endilega fá mynd af sér við Taj Mahal. Og auðvitað vill maður gera mönnum með byssu við hæfi.

Síðan stökk ég upp í rútu á leið í eitthvert þorp sem að ég kann ekki að skrifa nafnið á.

api_bloggtaj_verdir_blogg


Gullni þríhyrningurinn

agra_indlandskonur_bloggFannst tilvalið að fara svokallaðan gullna þríhyrning um Indland sem að bæði byrjar og endar í Delhi. Rúmlega vikuferð um Agra, Jaipur og fleiri merkisstaði. Náttúrulega eins túristalegt og hugsast getur en það ágætt að byrja ferðina þannig.

Dagarnir í Delhi

,,Frá Íslandi? Ég átti einu sinni kærustu þaðan, maður!" Þetta er vinsæl setning hjá öllum höstlerunum sem hafa svifið á mig í verslunargötunni við farfuglaheimilið mitt í Delhi. Áður en ég næ að spyrja hvort sú hafa nokkuð heitið Eva, eru þeir farnir að tala ævintýralegar túristaferðir um Indland. Allar á einstöku verði fyrir mig - samlanda ástarinnar. blogg_delhi

Annes gekk ferðin til Indlands ljómandi vel en það er frá litlu að segja eftir aðeins einn og hálfan dag í Delhi. Ég gæti kannski reynt að lýsa því hvað borgin er farmandi en ég held ég láti það bíða. 

„No, no, no! Pakistan is no good now. You know that Benazir Bhutto ..." veina síðan þessir  ágengu ferðaþjónustubændur þegar ég reyni að bíta þá af mér.

Í dag hitti ég fulltrúa fjölmiðlaráðherra Pakistan í sendiráði landsins í Delhi. Ég vildi vita hvernig hægt væri að komast inn í landið með vegabréfsáritun frá fjölmiðlaráðherranum - sem hefur víst haft í nógu að snúast síðustu vikurnar. Embættismaðurinn vildi mun frekar tala um veðrið (sem var víst óvenju kalt) og mitt óþjála íslenska nafn (ég er aftur byrjaður að kynna mig sem Erik), en kvað það síðan vel mögulegt að ég fengi slíka áritun, ef ég myndi bara vera svo vænn að fylla út fleiri eyðublöð. Ég gæti hins vegar aðeins fengið að vera í landinu í tvær vikur ...

Morðingi Benazir Bhutto hefur eyðilagt fyrir mér ferðaplanið. Þingkosningarnar í landinu verða ekki haldnar fyrr en 18. febrúar og landvistarleyfi eru takmörkuð. Það þýðir að verð á Indlandi mun lengur en til stóð. Ég hugsa að ég leggist yfir Lonely planet bókina í kvöld og skipuleggi dagana þangað til Sara kemur, 16. þessa mánaðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband