19.12.2007 | 16:53
Miðanum breytt fyrir Musharraf
Breytti flugmiðanum. Klukkan níu á nýársdag flýg ég til London og þaðan til Delhi um kvöldið. Stefni síðan rakleitt til Islamabad í Pakistan til þess að fylgjast með þingkosningunum 8. janúar.
Ferðafélaginn Sara Kristín Finnbogadóttir (tékkið á bloggsíðunni hennar!) lendir svo í Delhi þann 15. og heldur sömuleiðis til Pakista. Hún er á eins árs (dúx)útskriftarferðalagi og ætlar að leyfa mér að vera með í för drjúgan hluta reisunnar.
Frá Pakistan er stefnan tekin á Afganistan, Tíbet, Nepal og Indland.
Ferðin endar síðan á byrjunarreit - flugvellinum í Delhi - þar sem ég á bókað flug um miðjan júní.
Ferðalög | Breytt 25.12.2007 kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2007 | 00:17
Áhrifamesta vopnið
Nýr áfangastaður.
Nýr banner (þar sem mótar fyrir Taj Mahal).
Nýr vinur.
Og gamlar myndir.
Nú er ég semsé búinn að bæta inn heilmiklu í myndagalleríið með skýringartextum við flestar myndanna sem eru teknar á Vesturbakkanum, í Jerúsalem og Jórdaníu. Sumar hafa birst í blöðum á borð við Frjálsa Palestínu, kínversku pressunni, Dagfara, Nota bene, Blaðinu og síðast en ekki síst Palestine Times. Dagblað á ensku sem hóf göngu sína fyrir um ári síðan. Einn þeirra sem skrifaði í blaðið var líka innanborðs hjá ISM-hreyfingunni sem ég starfaði fyrir. Ég varð drullumontinn að sjá nafnið mitt í því blaði. Alveg bandvitlaust stafsett að vísu.
Ég segi við alla þá sem fara til Palestínu að taka nógu andskoti mikið af myndum. Myndavélarnar eru nefnilega besta vopnið.
Hermaðurinn á myndinni lét taka mynd af sér kampakátum fyrir framan húsarúst, sem eitt sinn var heimili Palestínumanns. Síðan smellti hann einni af mér og fór að rífast um hvalveiðar! Með hríðskotabyssu á öxlinni sagðist hann vona að Íslendingar myndu hætta að drepa hvali. Grínlaust.
Ferðalög | Breytt 13.12.2007 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2007 | 01:23
Frá besta til eins versta
Ég bý í besta landi heims samkvæmt lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna. En hvar skildu löndin sem ég heimsæki á næsta ári standa?
Indland er í 128. sæti, Pakistan í 136. sæti og Nepal er meðal neðstu Asíuríkjanna í 142. sæti. Á listanum eru 177 lönd, næstum því öll lönd jarðar, en nokkrum var sleppt vegna ófullnægjandi upplýsinga. Þar á meðal Afganistan en ætla má að það myndi verma botnsæti. Af virðingu við sjálfstæðisbaráttu Tíbeta ætla ég ekki að flokka þá með Kínverjum.
Palestína kemur þokkalega út. Er í 106. sæti en vert er að taka fram að könnunin er gerð árið 2005. Síðan þá hefur ástandið hríðversnað, sérstaklega á Gaza. Eins og við er að búast lifa Ísraelar góðu lífi á því að blóðmjólka hagkerfi og auðlindir Palestínumanna og ná alla leið upp í 23. sæti.
Hér má annars finna allt um þessa áhugaverðu vísitölu.
Ferðalög | Breytt 3.12.2007 kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2007 | 16:12
Aftur til Asíu
Þann 15. janúar fer ég aftur á flakk. Flýg frá Lundúnum til Delih á Indlandi. Þaðan liggur leiðin vítt og breitt um Asíu. Stefnan er að skoða norðurhluta Indlands, Pakistan, Afganistan, Nepal og Tíbet á liðlega hálfu ári.
Fylgist með!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.6.2007 | 17:39
Röðin til Ramallah

Balata-flóttamannabúðirnar eru nöturlegar yfir að lýta þennan laugardag rétt eins og aðra daga. En það er óvenju bjart yfir hinum tíu ára gamla Muhammed. Í fyrsta sinn á ævinni fær hann að ferðast langt út fyrir mörk Balata, alla leið til Ramallah í heimsókn til föðurbróður síns. Spennandi!
Foreldrar Muhammed eru ekki eins spenntir fyrir reisunni. Þau kvíða því að fara í fyrsta sinn með tvö yngstu börnin í gegnum öll herhliðin á leiðinni til Ramallah. Áhyggjuefnið er ekki endilega að upplifunin hafi slæm áhrif á börnin. Barnæska þeirra hefur hvort sem er verið brennimerkt af átökum - annað er óhjákvæmilegt í Balata. Nei, foreldrarnir kvíða því fyrst og fremst að vera niðurlægðir fyrir framan afkvæmin.
Foreldrarnir, Muhammed og 12 ára systir hans setjast upp í leigubíl. Eldri bræður Muhammed sitja eftir heima. ,,Ísrealarnir banna okkur að fara," segja bræðurnir við þann yngri. Ráða þeir öllu? Muhammed skildi þetta ekki.
Leigubílinn ekur áleiðis að Huwwara herhliðinu. Muhammed sér fátt merkilegt á leiðinni nema húsarústir, það er enginn á ferli þennan morgun enda laugardagur. Nema á endastöðinni. Þar er sko allt fólkið!
Feðgarnir stilla sér upp aftast í fólksmergðinni en mæðgurnar fara í biðröð kynsystra sinna. Karlmaður í röðinni snýr sér að föður Muhammed og segir hneykslaður:
,,Hermennirnir lokuðu fyrir alla umferð í klukkutíma! Bara sisvona!"
Faðirinn hnussar lágt, tekur tíðindunum annars með stótískri ró, enda öllu vanur þegar kemur að uppátækjum Ísraelshers. Muhammed starir undrandi framfyrir sig, reynir að sjá fyrir endann á þessari blessuðu röð og hugsar upphátt: Hvað á þetta droll að þýða?
,,Hermennirnir halda að við séum vont fólk og vilja þess vegna hafa eftirlit með ferðum okkar og farangri. Bíddu bara rólegur og gerðu eins og ég segi þegar þar að kemur. Þá fer allt vel," svarar faðirinn.
Og tveimur tímum síðar standa þeir feðgar fremstir í biðröðinni fyrir framan rammgert hlið. Handan hliðsins eru fjórir vopnaðir, glaðlegir hermenn að kveikja sér í sígarettu.
,,Næsti!" kallar einn hermaðurinn. Í sömu andrá tekur félagi hans sér stöðu og miðar hríðskotabyssu að hliðinu þar sem feðgarnir ganga inn. Muhammed skýlir sér lafhræddur bak við pabba sinn sem réttir þeim tvö skilríki. Hermennirnir segja eitthvað á tungumáli, sem Muhammed kannast ekki við, og því næst hvolfir faðirinn úr ferðatöskunni sinni. Hermennirnir gramsa og gera smá gis. Faðirinn tæmir líka vasana og gefur Muhammed merki um að gera slíkt hið sama. Sonurinn þarf líka að herma eftir honum þegar hann lyftir upp skyrtunni af ,,öryggisástæðum". Þeir standa enn í skotlínu hermannsins með byssuna, sem er eins og límdur við miðinn.
,,Jalla!" segir einn hermaðurinn loksins en í stað þess að rétt föðurnum skilríkin fleygir hann þeim í jörðina. Þegar faðirinn bifast niðurlægður eftir þeim horfa nærstaddir hermenn á Muhammed og glotta.
Mæðgurnar bíða eftir þeim fyrir utan herskýlið. Konuröðin gengur oftast hraðar fyrir sig, útskýrir móðirin fyrir Muhammed.
Það léttir yfir Muhammed þegar hann sest inn í rútu. Næstum laus frá þessum skaðræðis stað. Rútan mjakaðist af stað en ekki líður að löngu þar til hún stoppar aftur. Enn ein röðin. Farþegar bíða af palestínskri þolinmæði eftir því að röðin komi að þeim. Bílstjórinn safnar saman öllum skilríkjum, sem ísraelskir hermenn taka síðan við. Á meðan nokkrir þeirra rýna með nefið ofan í skilríkin vappa tveir hermenn um með dólgslæti. Annar bankar til að mynda með byssuskaftinu á gluggarúðu rútunnar sér til skemmtunar en farþegum til ótta.
Til þess að gera langa sögu stutta gekk ferðin hjá Muhammed svona fyrir sig þar til hann var kominn á áfangastað. Stanslaus stopp á herhliðum gerðu það að verkum að þessi tæplega fjörtíu kílómetra leið, frá Nablus til Ramallah, tók á fimmta tímann.
Þessi saga er aðeins eitt dæmi um það hvernig hernámið leggst á almenning í Palestínu. Heft ferðafrelsi hefur ekki síst áhrif á efnahag í landinu; vörur komst ekki til skila og fólk ekki til vinnu. Í takt við þetta allt smýgur ótti og angist inn á óhörðnuð börn.
Vesturlandabúar fá síðan reglulegar fréttir af því að Ísraelsstjórn ætli að fjarlægja hin og þessi hlið - nánast af tómri góðmennsku ef marka má fréttirnar. Þeir standa vissulega stundum við það en setja í staðinn bara upp nýtt hlið steinsar frá hinum gömlu.
Palestínumenn bíða þess, á herhliðum jafnt sem heima hjá sér, að ástandið breytist. Og það sama gerir alþjóðasamfélagið. Nema hvað að þar halda ráðamenn greinilega að málið leysist að sjálfum sér. Það þýðir ekki að grípa loksins inn í þegar þolinmæði Palestínumann er á þrotum með tilheyrandi uppreisn.
(Birtist upphaflega í málgagni félagsins Ísland-Palestína sem kom út í júní á þessu ári)
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2007 | 21:46
Einkamál vinstrimanna?
Þingsályktunartillaga Vinstri grænna um að Ísland taki upp eðlileg samskipti við þjóðstjórn Palestínu var tekin til umræðu á Alþingi í fyrradag. Nú skilst mér að það sé nokkur eining um málið meðal allra flokka nema auðvitað ákveðins hóps í Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna er furðulegt - en í senn dæmigert - hjá vinstri grænum að standa einir að tillögunni.
Hvernig stendur á því að vinstri menn skuli alltaf eigna sér málstað Palestínumanna? Hvar sem er í heiminum eru það alltaf þeir sem berjast mest fyrir þessu þarfa máli. Gott hjá þeim, en það er algjör óþarfi að gera þetta að sínu prívatmáli.
Þingmenn vinstri grænna hefðu mun frekar átt að vinna téða þingsályktun í samráði við sem flesta þingflokka. Í staðinn eigna þau sér málið til þess að skjóta beint í mark hjá íslenskum Palestínuvinum, sem eru án efa margir. En þetta er vanhugsuð veiðiferð; skotið særir á endanum málstað Palestínumanna. Með þessu eru vinstri græn nefnilega að grafa undan þeim möguleika að sátt náist um málið á þingi.
Sjálfstæðismenn bíta á agnið og flæmast í Kaldastríðsskotgrafirnar. Þeir líta sem svo á að þetta vandamál komi þeim ekki við og telja þess vegna vænlegast að taka afstöðu í takt við hugsjónabræður þeirra á þingi í Bandaríkjunum. Vita þeir ekki að þar í landi hefur eindregin stuðningur þingmanna við Ísrael ekkert með pólitík að gera? Heldur er það vegna þess, hve voldugt gyðingalobbíið er á sviði pólitíkur og fjölmiðla að engin alvöru þingmaður kemst upp með annað.
Ofbeldi og kúgun í Palestínu snýst ekki um pólitík. Vonandi eru fleiri en vinstrimenn á þingi með nógu mikla réttlætiskennd til þess að sjá það!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2007 | 15:41
Viðurkennum þjóðstjórn Palestínu!
Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Hamas-hreyfingunni," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, aðspurður í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 út í tillögu utanríkisráðherra um að taka upp ,,eðlileg samskipti" við heimastjórn Palestínumanna. Heldur Geir þá virkilega að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hafi tekið jákvæða afstöðu til málsins vegna þess að henni líkar svo vel við pólitíska öfgamenn Hamas-samtakanna? Kýs Geir í staðinn að styðja kúgun, hernám og yfirgang Ísraela í Palestínu vegna aðdáunnar á Olmert forsætisráðherra landsins? Vonandi ekki.
Raunar virðist Geir misskilja málavexti umtalsvert. Hamas-menn halda vissulega um stjórnartauma í Palestínu en eru langt frá því að vera eini flokkurinn í þjóðarstjórn landsins. Frá því Hamasmenn komust til valda í lýðræðislegum kosningum hafa Vesturveldin sameinast um að einangra Palestínu með skelfilegum afleiðingum. Þjóðarbúið sveltur; opinberir starfsmenn fá ekki laun, samfélagsþjónusta er í lágmarki og fátækt hefur stóraukist - en nóg var hún nú fyrir! Vesturveldunum hefur með aðgerðunum tekist að berja á hinum almenna borgara í Palestínu. Þeim var jú nær að kjósa vitlaust".
Nú hefur Noregsstjórn tekið frumkvæði í að rjúfa einangrun Palestínu með því að viðurkenna þjóðstjórnina tafarlaust og aflétta viðskiptabanninu. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar ,,ótímabært" að taka upp stjórnmálasamband við Palestínu. Ótímabært? Palestínumenn hafa búið við hernám Ísraela í hvorki meira né minna en fjörtíu ár. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mun bíða boða frá Bandaríkjunum, rétt eins og viðkvæðið hefur verið í utanríkismálastefnu flokksins hingað til. Ætli það sé ekki vegna þess að þeir eru sérstaklega hrifnir af repúblikönum og fylgja þeim þar með eftir í blindni.
Birtist í Blaðinu 3. maí síðastliðinn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2007 | 22:45
Sjálfboðaliðastörf í Palestínu
Á hverju ári lætur fjöldi Vesturlandabúa gott af sér leiða í Palestínu. Miðað við ástanda mála ætti fjöldi sjálfboðaliða í Palestínu raunar að vera í líkingu við hersveitir Ísraela. En vopnað ofureflið hefur vinninginn, enn einu sinni!
Félagið Ísland-Palestína hefur í áraraðir haft milligöngu í sjálfboðaliðastörfum ytra. Algengast er að fólk fari í um þrjár vikur og starfi við það sem þeim hugnast best. Möguleikarnir eru margvíslegir. Hér verður stiklað yfir þau hjálparsamtök sem starfa á Vesturbakkanum.
International Solidarity Movement (ISM)
ISM eru sennilega ein þekktustu grasrótarsamtökin í Palestínu en þeim er stjórnað af bæði Palestínu og Ísraelsmönnum. Samtökin standa meðal annars fyrir reglulegum mótmælaaðgerðum gegn hernámi Ísraela en líkt og öll viðurkennd hjálparsamtök er blátt bann við ofbeldi. Hjálparliðar ISM standa götuvakt nálægt landnemabyggð í Hebron, tína ólívur með palestínskum bændum á haustin, bregðast við ýmsum neyðarástöndum, hindra framgöngu hermanna við tilefnislausar eyðileggingar á heimilum Palestinumanna. Að ógleymdu öflugri fjölmiðlaskrifstofu sem samtökin halda út. Þau eru öllum Palestínuvinum opin.
Project Hope
Hjálparsamtök sem starfa í flóttamannabúðum á Vesturbakkanum, sér í lagi Balata-flóttamannabúðunum, sem lesa má nánar um í Nablusgreininni hér neðar á síðunni. Sjálfboðaliðar starfa mikið með krökkum; kenna ensku, frönsku, leiklist, myndlist og fleira.
International Women's Peace Service (IWPS)
Alþjóðleg samtök kvenna sem reyna með nærveru sinni í hertekinni Palestínu að aðstoða íbúa landsins og skrásetja þau mannréttindabrot sem eiga sér stað í landinu. Allt starf unnið í sjálfboðavinnu. Mjög innihaldsríkur vefur með skýrslum, myndefni, video skrám, upplýsingum fyrir væntanlega sjálfboðaliða og fleira.
Christian Peace Maker Team (CPT)
Alþjóðleg samtök sem starfa að mannréttindarmálum víða um heim. Sjálfboðaliðar frá CPT hafa unnið frábært starf í gömlu borg Hebron á Vesturbakkanum frá árinu 1995 við að fylgjast með mannréttindarbrotum á svæðinu og reyna aðstoða íbúa borgarinnar við dagleg störf þrátt fyrir sífelldar árásir landránsmanna og ísraelska hersetuliðsins.
Grassroots International Protection For The Palestinian People (GIPP)
Grasrótarhreyfing ýmissa palestínskra sem miðar að því að fá alþjóðlega sjálfboðaliða til Palestínu til aðstoðar og sem tákn um samtöðu með Palestínumönnum. Meðal aðstandenda eru Palestinian NGO Network, Palestinian Council for Justice and Peace og The General Union of Palestinian Women.
Alþjóðleg hjálparsamtök eins og Rauði krossinn, Rauði hálfmáninn og Sameinuðu þjóðirnar starfa vissulega líka í Palestínu en þar eru inngönguskilyrðin býsna ströng.
--
Fyrsta skrefið til þess að gerast sjálfboðaliði er að setja sig í samband við síðuskrifara sem er sjálfboðaliðastjóri félagsins Ísland-Palestína. Nánar um málið hér og hér.
Það er gömul míta að sjálfboðaliðastörf á þessum slóðum sé ofboðslega hættuleg. Slysatíðni sjálfboðaliða er hinsvegar lægri en hjá íslenskum smiðum. Sem betur fer er oftast hægt að forðast hugsanlegar hættur. Í raun forðast Ísraelskir hermenn að beinlínis slasa vestrænt fólk, enda hefur slíkt í för með sér neikvæða fjölmiðlaumfjöllun, mikla pappírsvinnu og jafnvel utanríkisdeilur. Þá er nú að nær að myrða bara bölvaða Palestínumennina, er ekki annars öllum sama um þá?
Kjarni málsins í þessu langlokubloggi er semsé: Kúguð þjóð þarf á þér að halda!
Og það strax!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2007 | 17:10
Farðu í Friðarhúsið á miðvikudag
Ferðalög | Breytt 5.3.2007 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2007 | 21:16
Tískuklæðnaður og andspyrnutákn
Fékk það verkefni í félagsfræðiáfanga - sem fjallar um þróunarlönd heimsins - í Fjölbrautaskóla Suðurland að skrifa frétt um eitthvað sem tengdist þriðja heiminum. Þetta er afraksturinn.
Sala á svonefndum kafíum, ævafornum þjóðernisklæðnaði araba, hefur stóraukist á Vesturlöndum á síðastliðnum árum eftir að tískufrömuðir hófu útbreiðslu þess. Í takt við vinsældirnar hefur kafían komist í tísku hér á landi, sérstaklega á undanförnum mánuðum. Samkvæmt athugunum greinarhöfundar höfðu hinsvegar fæstir hugmynd um að þessi köflótti klútur væri sterkt pólitískt andspyrnutákn frá Miðausturlöndum.
Kafíur urðu fyrst vinsælar á Vesturlöndum á sjöundaáratug tuttugustu aldar. Þá aðallega meðal róttækra vinstri manna sem klæddust svart-hvítum kafíum um hálsinn til þess að sýna Palestínumönnum stuðning í baráttu þeirra við Ísraelsmenn. Jafnframt jókst notkun hennar í Bandaríkjunum eftir 11. september 2001 þegar haturs glæpir gegn múslimum og arabum urðu tíðir.
Um aldamótin síðustu tóku síðan tískuhönnuðir í Bandaríkjunum að markaðssetja kafíur sem tískuklæðanað. Þó að hönnuðirnir hafi örlítið breytt hinu hefðbundna sniði er útlitið nokkurn veginn það sama. Upp frá því hefur útbreiðsla kafíunnar stóraukist og náð miklum vinsældum í Evrópu, Bandaríkjunum og austur Asíu. Nú orðið klæðast allir kafíum, hvort sem um er að ræða vestræna andspyrnumenn eða bandaríska hermenn í Írak, sennilega vegna þess að hún er þræltöff," segir Will Nadeem, arabískur tískubloggari.
Íslenskar tískuvöruverslanir hafa ekki látið sitt eftir liggja og bjóða upp á nokkrar tegundir af kafíum - þó að þar séu þessir klútar allajafna ekki kallaðir réttu nafni. Forsvarsmenn félagsins Ísland-Palestína hafa selt kafíur í áraraðir en þeir segja að frá því síðastliðið haust hafi sala á þeim tekið mikinn kipp. Athygli vekur að á Íslandi nota kvenmenn aðallega kafíur, öfugt við hefðina í Miðausturlöndum þar sem mun algengara er að karlmenn klæðist þeim.
Andspyrnutákn í arabaheimi
En hvað svo sem skekur heim tískunnar halda arabar í Miðausturlöndum áfram að klæðast kafíum rétt eins og þeir hafa gert í fleiri aldir. Það á einna helst við íbúa í Jórdaníu, Palestínu, Írak, Sádi Arabíu og örðum ríkjum Arabíuskagans. Arabar bera ýmist slæðuna sem sólhlíf á hausunum, vefja henni um andlitið til að verjast sandfoki eða hafa hana einfaldlega um hálsinn sem skraut, rétt eins og Vesturlandabúar nú á dögum.
Á nýlendutíma Breta í Palestínu á fyrri hluta tuttugustu aldar fékk hin svart-hvíta kafía nýja merkingu. Hún varð einkennistákn andspyrnumanna úr röðum Palestínumanna. Við það varð hún svo vinsæl að Bretar reyndu að brjóta útbreiðsluna á bak aftur með því að handtaka þá uppreisnarseggi báru hana.
Frægð kafíunnar á Vesturlöndum er sennilega hvað mest Yasser Arafat, leiðtoga Palestínsku þjóðarinnar, að þakka. Arafat kom nær aldrei fram opinberlega án svart-hvítrar kafíu á höfðinu skorðaða með hringlaga reipi. Með því gaf hann kafíunni jafnframt dýpri póltískari skírskotun innan Palestínu. Þannig varð hin svart-hvíta kafía einkennistákn Fatah, stjórnmálaafls Arafat, rauð og hvít kafía varð einkennistákn palestínska kommúnistaflokksins og grænar og hvítar kafíur eru notaðar af liðsmönnum Hamas-samtakanna.
Þannig hefur merking kafíunnar orðið mismunandi eftir stöðum. Til að mynda er sá sem klæðist kafiu í Þýskalandi oft stimplaður sem nýnasisti vegna þess að sá hópur hefur gjarnan einkennt sig með henni. Á pólitískum vettvangi er kafían oftast tákn um að vera vinstrimaður. Og loks getur þetta einfaldlega þýtt að viðkomandi fylgi tískunni.
Ferðalög | Breytt 25.2.2007 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)