. - Hausmynd

.

,,Gestrisni og vinsemd Palestínumanna er ótrúleg´´

   

 bilin_15des 054

Eftirfarandi viðtal eftir Magnús Hlyn Hreiðarsson birtist ásamt myndasyrpu í héraðsfréttablaðinu Dagskránni 18. janúar síðastliðinn. 

 

Ungur Selfyssingur, Egill Bjarnason, blaðamaður, fór nýlega í fjögurra mánaða ferð til Palestínu og nágrannaríkja þess til þess að svala forvitni sinn um þessi lönd og menningu þeirra. Egill er nú kominn heim eftir vel heppnaða ferð og féllst á að svara nokkrum spurningum blaðsins um ferðina og annað í kringum hana.  

 

Hvað kom til að þú ákvaðst að skella þér í ferðalag til Palestínu og nágranna ríkja þess?

Í stuttu máli var það taumlaus forvitni dró mig á þessar slóðir. Mig hafði lengið langað til að fara í ámóta ferð og ákvað síðastliðið vor að láta loksins verða af því.  Þá fór ég að skoða hin ýmsu lönd þriðja heimsins og fékk fljótlega þá flugu í höfuðið að Palestína væri mest spennandi staður í heimi. Þangað yrði ég að fara. Og þar með var það ákveðið. Vinum og vandamönnum leyst þó fæstum á hugmyndina, kannski vegna þess að þegar ég keypti flugmiðann geisaði stríðið í Líbanon sem hæst.

Áður en ég fór hafði ég lengi haft áhuga á Palestínuvandanum og meðal annars unnið um það skólaverkefni, þar sem ég var reyndar dreginn niður fyrir hlutdrægni.  

Í reisunni fór ég jafnframt aðeins um Jórdaníu og ætlaði mér alltaf að fara alla leið til Egyptalands en kom því einhvern veginn aldrei í verk; einfaldlega festist í Palestínu.



Hvernig skipulagðir þú ferðalagið og hvað hafðir þú að leiðarljósi við þá skipulagningu?

Ég var staðráðinn í því í upphaf að komast í einhverskonar sjálfboðaliðavinnu. Reyndi ítrekað að næla mér í slíkt starf gegnum Netið en án árangurs. Úr því það gekk ekki ákvað ég bara að renna blint í sjóinn með ferðina. Hugsaði með mér að það hlyti að vera auðvelt að finna sér eitthvað að gera þegar maður væri kominn alla leið á staðinn. Sem reyndist alveg hárrétt metið. Að öðru leyti skipulagði ég ferðina lítið sem ekkert, sem var tómt kæruleysi náttúrulega.

Fyrstu dagarnir, getur þú lýst þeim fyrir mig og hvernig varð þér við að koma á staðinn?

Mín fyrstu kynni af landinu var þriggja klukkustunda yfirhersla á landamærum Vesturbakka Palestínu og Jórdaníu. Landamærunum stjórna Ísraelsmenn sem sigtuðu mig úr biðröðinni við vegabréfsinnritunina. Eftir að hafa margsvarað spurningum á borð við hvert erindi mitt inn í landið væri fékk ég að fara. Svörin mín voru reyndar tóm tjara en hefði ég sagt landamæravörðunum sannleikan, að ég ætlaði mér að dvelja í Palestínu en ekki Ísrael, hefði ég mér einfaldlega verið sparkað aftur til Jórdaníu.

Fyrsti áfangastaðurinn var Jerico, rólegur bær skammt frá Jerúsalem sem gerir sérstaklega út á ferðaþjónustu enda eru þar einar elstu byggingar heims. Þaðan fór ég svo til Austur Jerúsalem og vann þar fyrir mér í fáeina daga við að mála á farfuglaheimili í gamla bænum. Það má því segja að fyrstu kynni mín af landinu hafi verið frekar saklaus. Allavega ekki eins og ég bjóst við. Ég komst hinsvegar fljótlega í tæri við hryllinginn sem blasir við sé farið úr alfaraleið hins almenna ferðamanns.


Hvert var hlutverk þitt á þessum stöðum, hvað varstu nákvæmlega að gera?

Verkefnin voru margskonar. Eftir að hafa ferðast á eigin vegum milli staða á Vesturbakkanum settist ég að í flóttamannabúðum í Nablusborg. Ég starfaði þar sem sjálfboðaliði í nokkurskonar félagsmiðstöð flóttamannabúðanna þar sem einnig var séð um umönnun á hreyfihömluðum börnum. Á þessum tíma var kennaraverkfall í landinu sem jók fjölda barna sem héngu í félagsmiðstöðinni á daginn. Mitt hlutverk fólst aðallega í því að hafa ofan af fyrir jafnöldrum mínum og vera til taks. Annars var andrúmsloftið alltaf frekar afslappað á þessum tíma þar sem það var Ramadan-föstumánuður múslima. Þá má hvorki borða, drekka, reykja né stunda kynlíf frá sólarupprás til sólarlags. Eins og gefur að skilja höfðu því fáir orku til að gera margt á daginn en af kurteisi við heimamenn fór ég eftir sömu reglum. Strembinn megrunarkúr.

Eftir að ég yfirgaf flóttamannabúðirnar fór ég að vinna fyrir sjálfboðaliðasamtökin ISM. Það starf fól mestmegnis í sér að hjálpa bændum að tína ólívur á svæðum sem lágu nærri Ísraelskum landnemabyggðum. Það er nefnilega þannig að palestínskir bændur verða oft fyrir árásum frá landnemunum sem þar búa. Séu aftur á móti alþjóðlegir sjálfboðaliðar nærri halda þeir sig frekar í skefjum. Það kom þó fyrir að landnemarnir reyndu að skipta sér af ólívutínslunni og eitt sinn gekk það svo langt að unglingagengi hrakti hópinn í burtu með steinakasti og fúkyrðum.

Auk ólívutínslunnar brást ISM-hópurinn við heiftarlegum aðgerðum ísraelska hersins í Nablusborg og nágrenni. Til dæmis braut hópurinn útgöngubönn hersins í innrásum þeirra í borgina. Við slíkar aðstæður hernema Ísraelar iðulega heimili saklausra borgara til þess að eiga auðveldara skotfæri á herskáa Palestínumenn á götum úti. Hópurinn reyndi stundum að skipta sér af slíku, sérstaklega ef börn og aðrir minnimáttar voru í haldi hermannanna á meðan.

Einangrun er nokkuð sem einkennir daglegt líf í Nablusborg. Öll útgönguhlið á borginni eru undir stjórn Ísraelshers og hermennirnir geta lokað fyrir fólksstreymið hugnist þeim svo. Þá skapast skiljanlega mikið öngþveiti á stöðunum sem kemur í hlut alþjóðlegra sjálfboðaliða að reyna greiða úr, með því til dæmis að ræða yfirvegað við hermennina.

Undir lokinn á ferðinni tók ég einnig þátt í því að skipuleggja mótmæli á Vesturbakkanum gegn hernáminu og aðskilnaðarmúr Ísraelsstjórnar. 


Hvernig gekk þér að tjá þig við Palestínumenn og hvernig voru samskiptin almennt?
Tungumálaörðugleikar voru oft miklir enda tala Palestínumenn flestir aðeins arabísku, sem ég skildi auðvitað ekki bofs í. Oftast náðist að leysa málið með því að hóa í einhvern sem talaði tungumál beggja aðila eða afgreiða málið með handapati og stikkorðum. Undir lokinn á ferðinni kunni ég þó orðið nokkra frasa sem komu sér vel.

 

Móttökurnar, hvernig voru þær og hverskonar fólk býr á þessu svæði?

Gestrisni og vinsemd Palestínumanna er ótrúleg. Vestrænt fólk er sjaldséð á þessum slóðum og því vekur það mikla athygli á götum úti. Þá er algengt að Palestínumenn svífi vinalega á túrista, reyni að blanda geði og krefjist þess að þeir þiggi mat heima hjá þeim - eða allavega tesopa. Já, og helst bara gisti líka heima hjá þeim eftir matinn.  Ólíkt því sem kannski gengur og gerist í sumum þróunarlöndum er fólk ekki að reyna svíða fé útúr ferðamönnum. Það einfaldlega er ekki til í þeirra kúltúr.

Hvað með matinn, hvernig var hann?
Maturinn var góður en afskaplega einhæfur. Í fjóra mánuði lifði ég aðallega á falafel samlokum og baunastöppum sem nefnast hummus og ful. Það var þó aðallega vegna þess að ég kaus að lifa billega og á þennan lókal máta. En þegar manni var boðið í kvöldmat á heimilum Palestínumanna voru oft reiddir fram afbrags kjúklinga og kjöthakksréttir. Versti maturinn sem ég smakkaði var sennilega heimatilbúinn saltaður geitaostarnir og blessaðar ólívurnar sem ég hef aldrei getað vanið mig á að borða.

 

Lendir þú í einhverjum óvæntum uppákomum í ferðinni?
Það kom ansi flatt upp á mig að vera snúinn niður og handjárnaður á vegatálma nálægt Nablus eftir að hafa eins þrasað stutt við ísraelska hermenn um að leyfa ákveðnu fólki að fara í gegn.   


Varstu einhvern tíman hræddur um líf þitt á þessu ferðalagi?
Í fyrsta lagi er ástanið þarna mun hættuminna en margir halda. Dags daglega er ekkert að óttast og auðvelt að forðast hætturnar. Í eldfimum átökum sem ég lenti í, líkt og innrásum hersins, var réttast að vera varkár og óneitanlega fékk maður vægt hland fyrir hjartað við og við. Hvort ég var í einhverri lífshættu þarna hugsa ég ekki.   


Hvers saknaður þú mest að heiman að meðan ferðalagið stóð yfir?

Ef ég segist ekki hafa saknað neins sérstaklega verða mínir nánustu eflaust súrir. Þannig að ég verð að játa að ég saknaði þeirra stundum og því að missa af merkilegum viðburðum heima á Fróni. Sömuleiðis var manni stökusinnum hugsað til ýmissar munaðar heima eins og heitrar sturtu og þægilegs bedda. Alla jafna hafði maður þó um nóg annað að pæla.   

 

Hvað lærðir þú mest á þessu ferðalagi? 

Vafalaust er ég margs fróðari um ástandið þarna fyrir borni Miðjarðarhafs. Ennfremur kynntist ég venjum araba og þá sérstaklega múslima og hef ég dag meiri skilning á skoðunum þeirra og venjum. Oft fá Íslendingar nefnilega kolranga mynd af þessum trúarhópi þar sem þeir eru altént útmálaðir sem ofbeldisfullir villimenn. Það er hinsvegar öllum upplýstum mönnum ljóst að íslam eru ekki verri trúarbrögð en hvað annað. Öll eru þau jafn heimskuleg! Þessu tengt lærði ég inn á ýmis atriði í samskiptum manna í arabaheiminum en þar vega samskipti kynjanna þyngst.

 

Gætir þú hugsað þér að fara aftur á þessar slóðir ?
Já alveg hiklaust, ég er raunar strax farinn að huga að næstu ferð. Sá leiðangur verður vonandi frá Indlandi til Palestínu með viðkomu í öll lönd þar á milli, það er Afganistan, Pakistan, Íran, Sýrlandi og Jórdaníu. Jafnframt væri athugandi að leggja lykkju á leiðina til þess að heimsækja Írak og Sádi Arabíu en það verður að meta það þegar nær dregur. Sennilega verður þessi ferð ekki farinn fyrr en ég verð orðinn stúdent, sem verður sjálfsagt á síðari hluta næsta árs.


Hvað tekur nú við hjá þér eftir að þú ert komin heim?
Þess dagana læt ég til mín taka á prófkjörsbaráttu Framsóknarflokksins. Starfa í stuðningsmannasveit Bjarna Harðarsonar, blaðamanns, sem sækist eftir öðru sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer næsta laugardag. Samhliða kosningabaráttunni nem ég félagsfræði í Fjölbrautarskóla Suðurlands og flýt letilega með ritstjórnarskútu Sunnlenska fréttablaðsins.

MHH


Nablus á Vesturbakkanum: Borg ótta og innilokunnar

bilin25nov 116Eftirfarandi grein birtist í Blaðinu föstudaginn 5. janúar 2007.

Ísraelar og Palestínumenn sömdu um vopnahlé á Gasaströndinni í desemberbyrjun, forseti Palestínu boðaði til nýrra þingkosninga skömmu síðar og eftir það stigmagnaðist spennan milli Fatah og Hamas aflanna. En á meðan öllu þessu stendur gleymist ástandið á Vesturbakkanum í Palestínu. Þar er ekkert er gefið eftir. Hernám Ísraela heldur áfram í takt við uppbyggingu Aðskilnaðarmúrsins svokallaða. Verst er ástandið í Nablus, fjölmennustu borg Vesturbakkans, þar sem morð, byssubardagar, innrásir og eyðileggingar hafa verið fastir liðir í áraraðir. Egill Bjarnason, greinarhöfundur, starfaði sem sjálfboðaliði í tæpa þrjá mánuði í Nablus, sem Ísraelski herinn kallar höfuðborg hryðjuverkamanna.  

 

Muhammad Faras er 24 ára gamall Palestínumaður, fæddur og uppalinn í Balata-flóttamannabúðunum í grennd við Nablus. Í jaðri borgarinnar eru einnig flóttamannabúðirnar Askar og Ein Beit El Ma en Balata er sú stærsta og skelfilegasta. Samtals búa 34 þúsund Palestínskir flóttamenn í grennd við Nablus og eru um 80% þeirra atvinnulausir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Muhammed Faras marga fjöruna sopið en sjálfur segist hann í raun aðeins hafa lifað hinu dæmigerða lífi Palestínumanns í Balata-flóttamannabúðunum.

,,Balata er ekki eftirsóknarverður staður til að búa á. Þeir einu sem virðast sækast eftir því að vera þar eru ísraelskir hermenn," segir Muhammed Faras,  í samtali við greinarhöfund, og vísar þar til þess að næstum hverja einustu nótt geri ísraelski herinn innrás í búðirnar.

Samkvæmt Ísraelska hernum eru Balata flóttamannabúðirnar einskonar gróðrarstía öfga og hryðjuverkamanna. Til þess að tryggja þjóðaröryggi sé strangt eftirlit nauðsynlegt í Balata, sem og annarsstaðar í Nablusborg. Samkvæmt upplýsingum frá hernum eru um 60% hryðjuverkaárása á Vesturbakkanum skipulagðar í Nablus.

Muhammed segir ástæður Ísraelsstjórnar aðeins fyrirslátt. ,,Markmið hersins er aðeins að sýna Palestínumönnum hver ræður! Það er ekkert sem gefur tilefni til innrása dag eftir dag, til þess eins að handtaka menn sem gætu hugsanlega framið ódæðisverk. Stundum koma þeir líka að tilefnislausu, aka inn á brynvörðum bílum, bíða þess síðan að eitthvert unglingagengi byrji að kasta steinum í bílana og þar með hafa hermennirnir ástæðu til gagnárásar. "

Innrásir Ísraelshers eru tvennskonar; annarsvegar eru umsvifamiklar innrásir þar sem tugir hermanna storma inn á svæði og hinsvegar þegar sérsveitir hersins koma undir huldu höfði, óeinkennisklæddir og til dæmis akandi palestínskum leigubílum.

Ef ekkert fer úrskeiðis ganga síðarnefndu heimsóknirnar iðulega snöggt fyrir sig: Herinn kemur, tekur af lífi ,,eftirlýstan hryðjuverkamann" án dóms og laga og fer að verki loknu. Svonefndar sérsveitir má því með sanni kalla aftökusveitir.

Í hinum hefðbundnu innrásum, sem eru mun algengari, er yfirlýst takmark annað, það er að handtaka útvalda andspyrnumenn. Við slíkar aðstæður er andrúmsloftið í búðunum svo eldfimt að það þarf lítið til að herskáir Palestínumenn láti til skara skríða gegn hernum. Skotið er á báða bóga og lýkur leiknum oftast með blóðbaði þar sem dauðsföll úr röðum Palestínumanna eru mun algengari en meðal hermanna, enda herinn margfalt öflugri.

Frá árinu 2000 til ársbyrjunar 2007 hafa 565 Palestínumenn verið drepnir af Ísraelska hernum í Nablus, að meðtöldum nærliggjandi flóttamannabúðum, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Bróðurpartur hinna látnu voru óbreyttir borgarar.

Muhammed Faras

Útgöngubann og eyðileggingar

,,Það gleymist stundum að hinir óbreyttu borgarar verða hvað verst úti þegar allt fer í bál og brand. Sett er útgöngubann á flóttamannabúðirnar, herinn hernemur oft tugi heimila og gerir að sínum bækistöðvum," segir viðmælandi okkar, Muhammed Faras, en heimili foreldra hans hefur tvisvar verið hernumið.

,,Í fyrra skiptið brutu hermenn niður stofuvegginn hjá okkur til þess að komast yfir í næsta hús. Í þokkabót mölvuðu riffilskyttur rifur á húsveggina og áttu þannig auðveldara með að skjóta á óvini sína, sem földu sig margir inn í húsasundum flóttamannabúðanna. Rúmu ári síðar komu fleiri hermenn í heimsókn og mölvuðu þá enn og aftur nýreistan stofuvegginn!"

Þetta átti sér stað árin 2001 og 2002 sem voru ein þau stormasömustu í sögu Nablus. Frá apríl til nóvember 2002 setti Íraelski herinn á stanslaust útgöngubann í 151 dag í allri Nablusborg. Á því tímabili var banninu aðeins aflétt í 65 klukkustundir allt í allt.

 

Skotinn og fangelsaður!

Þegar síðari uppreisn Palestínumanna (al-Aqsa Intifada) hófst 28. september árið 2000 var Muhammed Faras virkur í andspyrnuhreyfingu PFLP-kommúnistaflokksins. Hann segir hlutverk sitt mestmegnis hafa verið að skipuleggja mótmæli. Eftir örlagaríkan dag, liðlega einu ári eftir uppreisnina, ákvað Múhammed hinsvegar að snúa við blaðinu og hætta pólitískum afskiptum.

Þann afdrifaríka dag kom til átaka í gömlu borg Nablus þar sem heimamenn vörðust innrás ísraelska hersins. Upphaflega hélt Muhammed sig innandyra og fylgdist aðgerðarlaus með bardaganum, allt þangað til hann sá félaga sinn verða fyrir skoti í magann.

,,Þegar ég sá æskuvin minn liggja í blóði sínu á götunni þusti ég auðvitað umsvifalaust út. Þegar skothríðinni lægði í augnablik komst ég loks að honum, þá nær dauða enn lífi. Ég reyndi hvað gat að stoppa blæðingu úr sárinu en án árangurs. Þvínæst reyndi ég að bera hann í öruggt skjól en óheppnin elti okkur. Eftir að hafa staulast nokkra metra varð ég einnig fyrir skoti," segir Muhammed örlítið klökkur yfir því að rifja þennan sorglega atburð upp. ,,Ég áttaði mig ekki almennilega á því hvað hafði gerst fyrr en ég hneig niður; kúlan hafði hitt mig í lærið. Stundin var runninn upp, hugsa ég, þetta yrði mitt síðasta."

Muhammed skjátlaðist. Hann lifði bardagann af, ólíkt æskuvininum sem lést af sárum sínum á leið á spítala í sama sjúkraflutningabíl og Muhammed var fluttur með. Eftir að gert hafði verið að sárum hans var hann handtekinn af Ísraelska hernum og dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir meinta þátttöku í bardaganum. Hann er enn þann dag í dag haltur í fætinum eftir óhappið.

Eftir afplánunina setti hann sér önnur markmið í lífinu en að bylta hernáminu með beinum aðgerðum. Í staðinn eyddi hann púðri í að byggja upp félagsheimili í Balata-flóttamannabúðunum samhliða því að nema fjölmiðlafræði í háskólanum við Nablus. Það að upplýsa heimsbyggðina um ástandið í Palestínu gerir mun meira gagn en vopnaðar árásir, segir hann.

,,Að loknu námi ætla ég mér burt úr flóttamannabúðunum og eignast fjölskyldu á öruggum stað," segir Muhammed Faras og bætir við að flestir íbúar Balata stefni að hinu sama en fæstum verður ágengt. Hann bendir ennfremur á að þorri íbúanna trúi því enn að einn góðan veðurdag muni þeir snúa aftur til heimila sinna, til dæmis borgunum Haifa og Jaffa, þaðan sem fjölskyldur þeirra voru hraktar við stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

 

Innlyksa í eigin borg

Eftir að síðari uppreisn Palestínumanna hófst versnaði ástandið í Nablus til muna. Af ,,öryggisástæðum" afgirti ísraelski herinn borgina með vegatálmum og jók í samræmi við það eftirlit inni í borginni. Bæði opnunartími og inngönguleyfi gegnum tálmana eru algjörlega undir stjórn hersins.

Allar þær hömlur sem fylgja tálmunum hafa haft slæm áhrif á efnahaginn í Nablus, sem áður fyrr var borg iðnaðar og framleiðslu. Með vegatálmunum hefur verð á innfluttum vörum hækkað, meðal annars vegna aukins flutningskostnaðar. Sömuleiðis hefur dregið verulega úr útflutningi á vörum vegna boða og banna Ísraelsstjórnar þar um.

Aðskilnaðarmúr Ísraels, sem byggður er innan landamæra Palestínu, hefur einnig skaðað efnahag Nablus og annarra borga. Eftir að múrinn kom til sögunnar hefur reynst nær ómögulegt fyrir kaupmenn og bændur að selja vörur sínar á Ísraelskum markaði. Palestínumenn, sem áður unnu í Ísrael, en voru búsettir á Vesturbakkanum fá ekki lengur að ferðast á milli landamæranna og hafa því flestir misst vinnunna. 

En mannlegi þátturinn er kannski öllu verri. Langar biðraðir við vegatálma Nablus gera Palestínumönnum erfitt fyrir en biðin getur tekið allt að þrjár klukkustundir. Verst er þó þegar sjúkrabílar eru kyrrsettir á vegatálmum eða jafnvel meinað að fara í gegn en slíkt kemur upp með reglulegu millibili.

 

Hvítflibbaflokkur Fatah gegn harðlínu Hamas

Í Nablus eru flokkadrættir milli Fatah og Hamas stjórnmálahreyfinganna sérstaklega áberandi og er borgin klofinn milli þessara fylkinga. Í þingkosningunum fyrr á þessu ári vann Hamas yfirburðasigur í borginni með um 52% kjörfylgi en áður hafði Fatah haldið um stjórnartaumanna í borginni.

Ástæðan fyrir óvæntum sigri Hamas í Nablus, sem og annars staðar í Palestínu, er ekki vegna harðlínustefnu þeirra varðandi Ísraelsríki heldur hvítflibbastarfsemi forvera þeirra. Á meðan Fatah-ríkisstjórn Yasser Arafat og arftaka hans Muhamoud Abbas gerðist sek um stórfellan fjárdrátt og spillingu stuðlaði Hamas að uppbyggingu á velferðarkerfi Palestínu, svo sem með því að koma á laggirnar skólum og heilsugæslustöðum. Síðan Hamas komst til valda hefur flokkurinn aftur á móti átt bágt með að greiða opinberum starfsmönnum vegna refsiaðgerða Vesturveldanna sem miða að því að svelta efnahag ríkisstjórnar Hamas. Palestínumönnum var jú nær að ,,kjósa vitlaust".

Þrátt fyrir að efnahagur Palestínu hafi verið í frjálsu falli undir stjórn Hamas-samtakanna er tvísýnt hverjir myndu sigra komandi kosningar, sem forseti landsins og oddviti Fatah, Muhamoud Abbas, hefur boðað til. Hamas hefur nefnilega ekki enn tækifæri á að sanna sig í ríkisstjórn vegna téðra þvingana Vesturveldanna.

Á hinn bóginn er ósennilegt að kosningarnar verði yfirhöfuð haldnar. Það sem vakir fyrir Abbas með því að boða til kosninga á næstunni er að þrýsta á Hamas að taka tilboði Fatah um sameiginlega ríkisstjórn flokkanna þar sem ráðherrar verði flestir með sérfræðiþekkingu á sínu sviði. Líklegt er að Hamasmenn muni kjósa þann kost en þeir hafa þegar afboðað þátttöku í nýboðuðum kosningum.  

 

Framtíðarleiðtoginn í fangelsi

Það er augljóst að fráfall Yasser Arafats leiddi af sér leiðtogakreppu í landinu. Um Arafat ríkti mun meiri eining en gerir nú um Abbas, sem hefur lítið persónufylgi. Það háir Abbas að hafa þá ímynd meðal landa sinna að vera leppur Vesturveldanna sem fylgi þeim eftir í blindi. Ljóst er að Bandaríkin ætla að launa Abbas vinsemdina með háum fjárhæðum, sérstaklega eyrnamerktum eflingu lífvarðasveitar Fatah sem nefnist á íslensku sveit sautján.

Til marks um leiðtogakreppuna eru myndir af Arafat og Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah í Líbanon, áberandi á götum úti og mun algengari en veggspjöld af Abbas eða Ismael Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu.

Nýverið birti dagblaðið Palestine Times útkomu úr nýrri skoðanakönnun þar sem spurt var hvern fólk vildi sem næsta leiðtoga landsins. Samkvæmt henni er Marwan Barghouthi vonarstjarna Palestínumanna en 79% aðspurðra vildi hann sem framtíðarleiðtoga landsins. Abbas hlaut 61% stuðning í könnuninni og Haniyeh 62%.

Gallinn er nú samt sá að Barghouthi afplánar nú fimmfaldan lífstíðardóm í fangelsi eftir að Hæstiréttur Ísraels sakfelldi hann fyrir að hafa staðið á bak við morð á fimm Ísraelum. Hann hefur alla tíð lýst sig saklausan og telja margir að sakargiftirnar á hendur honum hafi verið uppspuni og málið sé fyrst og fremst pólitískt eðlis. Barghouthi varð frægur sem einn af aðal leiðtogum síðari uppreisnar Palestínumanna og stýrði þá al-Aqsa Martyrs Brides, vopnaðs arms Fatah. Hann hefur alla tíð fordæmt árásir á óbreytta borgara en hvatt til vopnaðrar baráttu gegn ísraelska hernum. Reynt hefur verið að fá Barghouthi lausan úr fangelsi í skiptum fyrir ísraelska hermanninn Gilad Shalit sem verið hefur í haldi mannræningja á Gasaströndinni frá því 25. júlí síðastliðnum. Hingað til hefur Ísraelsstjórn þverneitað körfunni.

Burt séð frá pólitískri afstöðu er þrautseigja og frelsisþrá það sem þjappar Palestínumönnum saman. Það er ótrúlegt hvernig þjóð, sem hefur þurft að þola hremmingar og gengdarlausa kúgun í áratugi, hefur náð að lifa með ósköpunum án þess að tapa alveg áttum. Og allir berjast þeir fyrir hinu sama:

Frjáls Palestína!

 


Palestínuvandinn er á okkar ábyrgð!

Frambjóðandi í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins, sem ku ansi skyldur mér, skrifaði síðastliðið haust helvíti góða grein um vanda Palestínumanna í Sunnlenska fréttablaðið. Greinin er svona:

Palestínuvandinn er á okkar ábyrgð! 

Gegndarlaus kúgun á Palestínumönnum er fyrir löngu komin fram yfir það sem var nokkru sinni stundað í Suður Afríku enda markmiðið allt annað en þar nokkurn tíma. Markmið Ísraela er að útrýma Palestínumönnum.

Það er löngu orðið tímabært að Ísland slíti stjórnmálasamstarfi við Ísrael og leiði baráttu Vesturlanda fyrir því að frelsa þessa litlu þjóð. Ég held að Íslendingar beri stóra og mikla ábyrgð á því ófremdarástandi sem er þarna syðra. Íslenska lýðveldið var einna fyrst í röðinni að viðurkenna það Ísraelska sem var ef til vill réttmæt ákvörðun á þeim tíma. En allar götur síðan hafa Íslendingar borið blak af Ísraelum og þá sjaldan að mótmælt er óhæfuverkum þeirra er það gert hjáróma mjög. Í þessu máli sem mörgum öðrum hafa Íslendingar fylgt Bandaríkjunum eins og leppríki.

En sú ákvörðun og sagan öll síðan leggur ríkar skyldur þjóðarinnar og íslenskrar utanríkisþjónustu að standa þétt við hlið Palestínumanna sem nú eru lokaðir inni í gettóum á Vesturbakka Jórdanár. Þéttar en gert er hefur í utanríkispólitík núverandi stjórnar. Meðferð herraþjóðarinnar á Palestínumönnum er löngu komin langt yfir það sem Suður Afríkustjórnin leyfði sér á tímum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi. Enda markmiðið talsvert annað.

Markmiðið með kúguninni á Palestínumönnum er með einum eða öðrum hætti þjóðarmorð. Kynslóðir hafa þar verið lokaðar af í flóttamannabúðum frá seinna stríði. Atvinnulíf er nánast ekkert og lifibrauðið ölmusa Sameinuðu þjóðanna. Hin svokölluðu sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna eru litlir skikar inni á milli landnemabyggða. Þar búa ofstækisfullir þjóðernissinnar sem hafa að tómstundagamni að grýta palestínska bændur í skjóli hersins.

Það er löngu tímabært að íslenska lýðveldið móti sjálfstæða og raunverulega utanríkisstefnu í stað þess að dindlast aftan í úreltum kaldastríðsórum bandarískra rebúblikana.

Íslendingar hafa allt frá lýðveldisstofnun verið undarlega ábyrgðarlausir í sinni utanríkispólitík. Dindlast þar aftan í Bandaríkjamönnum og láta jafnvel enn eins og kalda stríðið sé í fullum gangi. Versta birtingamynd þessa var þegar tveir menn ákváðu að þjóðin væri þátttakandi í stríði suður í Írak. Formenn stjórnarflokkanna gerðu þar sitt stærsta axarskaft en báðir þeir heiðursmenn eru nú horfnir til annarra starfa.

Af orðum núverandi formanns Framsóknarflokksins má ráða að hann telur forvera sinn hafa tekið ranga ákvörðun í þessu máli. Það er áttina og guð láti þar gott á vita.

Formaður Sjálfstæðisflokks telur sig í engu þurfa að ræða þetta enda sem fyrr fullviss um að flokksbræður hans og kjósendur séu tilbúnir til að fylgja Pentagon stefnunni í blindni. Þar fer Geir Haarde villur vegar. Hinn almenni kjósandi Sjálfstæðisflokksins veit að kalda stríðinu er lokið þó þingflokkur þessa sama flokks virðist ekki hafa áttað sig á því. Ógnin af alheimskommúnismanum sem var að einhverju leyti raunveruleg er að baki. Öllum upplýstum almenningi er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn á óunnið uppgjör við Írakstríð, Palestínuvandamál og fleiri ljóta kafla sem lesa má um í gömlum Morgunblaðsleiðurum dómsmálaráðherrans.

Fyrir okkur Framsóknarmönnum er einnig margt óafgreitt og eitt það stærsta þar snertir vanda Palestínsku þjóðarinnar. Því fer fjarri að íslenskir stjórnmálamenn geti þar fríað sig allri ábyrgð.

Sjálfum er mér þetta hugleikið enda naut ég gestrisni Palestínumanna fyrir áratugum þegar ég dvaldi í landi þeirra um hálfs árs skeið.

Bjarni Harðarson.

Afbökuð orðabók Ísraelsstjórnar - leiðrétt útgáfa

Þrátt fyrir að ísraelskir hermenn séu almennt heilþvegnir hrottar og ólæsir á annað en hebresku eru þeir lúmskt snjallir í að finna skaðræðishlutum meinlaus og jafnvel jákvæð heiti. Verst er þegar fólk út í heimi gleypir við þessari firringu og þá sérstaklega fjölmiðlamenn. Ég sé mig því knúinn til að birta hér nokkrar leiðréttingar á afbakaðri orðabók Ísraelsstjórnar.

Israel Defense Forces (IDF) er oftast þýtt sem Ísraelskar öryggissveitir eða sjálfsvarnarsveitir og er gjarnan notað í fjölmiðlum. Á mannamáli heitir þetta Ísraelski herinn, hersetuliðið og/eða í sumum tilfellum aftökusveitir sem myrða ,,eftirlýsta" Palestínumenn án dóms og laga. Það er hreint út sagt smekklaus brandari að kalla hersveit, sem hefur annað eins heljartak á andstæðingum sínum, ,,öryggissveit". Það er ekki ósvipað því ef faðir sem berði börnin sín kvölds og morgna segðist einungis stunda sjálfsvörn. Í framhjáhlaupi má geta þess að Íslenska ríkið hefur einnig leikið sama blekkingaleik með því að kalla íslendinga út í heimi, vopnaða rifflum og klæddum í herbúning Friðargæsluliða. Sætt nafn.

Öryggisvirki (security fence) er opinbert heiti hins ægilega Aðskilnaðarmúrs á Vesturbakkanum. Þessi átta metra hái veggur er byggður til að skilja í sundur tvo kynþætti; gyðinga og araba. Hinir síðarnefndu eru með múrnum rændir stórum hluta land síns og gerðir að föngum á eigin heimili þar sem múrinn umlykur oft á tíðum borgir og bæi. Opinberlega var múrinn byggður til þess að hindra meinta hryðjuverkamenn úr röðum herskárra Palestínumenn til að eiga aðgang inn á svæði Ísraela. Slíkir menn hafa hinsvegar fundið aðrar leiðir til að ná fram hemdum og því bitnar múrinn aðeins á hinum almenna borgara Palestínu; skerðir ferðafrelsi hans verulega, rænir landsvæði og kemur í veg fyrir útflutning á vörum sem hefur í för með sér efnahagskreppu í landinu. Þrátt fyrir að múrinn hafi nú þegar aðskilið Vesturbakka Palestínumanna frá Ísrael og Jerúsalem hefur lítið dregið úr hernáminu í takt við uppbygginguna, eins og kannski ætla mætti.  Í dag eru um 70 varanlegir vegatálmar á Vesturbakkanum sem hamla öllum samgöngum Palestínumanna verulega. Ojæja. Meðan Ísraelar eru öruggir og lifa í vellystingum eru þá ekki bara allir sáttir?

Gúmmíbyssukúlur eru það sem Ísraelsher notar stundum í árásum til þess að gera þær  sakleysislegar í fjölmiðlum. Það er nú samt þannig að kúlurnar eru að mestu gerðar úr venjulegu stáli og aðeins slíðraðar með hörðu gúmmíi og ekki með oddi. Slík byssukúla getur hæglega mölvað bein í líkamanum og valdið alvarlegum skaða hæfi hún t.d. höfuðið. Gerum ekki mun á kúk og skít. Köllum þetta bara byssukúlur!

Landnemar og landnemabyggðir eru orð notað yfir Ísraela sem búa á afmörkuðum svæðum á Vesturbakkanum. Svæði sem flest voru rænd frá Palestínumönnum með valdi. Þessu ætti því að skipta út fyrir landræningja og landránsbyggðir.

Fleira dettur mér ekki hug svona í svipinn. En þessi listi getur áreiðanlega verið lengri. Endilega komið með ábendingar.


Endir

Allt tekur þetta nú enda. Í fyrramálið yfirgef ég Palestínu eftir að hafa dvalið í Ramallah síðastliðinna daga. Ferðinni er heitið til Amman í Jórdaníu, þar sem ég á síðan flug til London næstkomandi fimmtudag. Mun dvelja í London í einn sólarhring og halda síðan heimáleið. Ef allt gengur eftir lendi ég á Íslandi klukkan 14:30 á Þorláksmessu.

 
Hef ítrekað verið spurður upp á síðkastið hvort ég hlakki ekki ,,óggislega mikið" til að koma heim. Ég hef svarað því þannig að ég sé svona beggja blands, auðvitað sé gaman að vera heima yfir hátíðarnar en almennt séu dagarnir áhugaverðari í Palestínu enn á Íslandi. Hlakka líka mikið til þess að fara til Englands og hitta þar breska Palestínuvini mína á einhverri suddalegri knæpu í London.

 
Ætla mér að ljúka öllum jólagjafainnkaupum í Amman enda ágætt að versla þar sem maður er pottþétt laus við jólaösina. Ef fólk vill að ég kaupi eitthvað sérstakt er það vinsamlegast beðið að láta mig vita sem fyrst.

 
Allir fá þá eitthvað arabískt ...


Grænmetis- og kjötætur

Sjalfbodalidi

Blaðamaður News of the world hyggst skrifa grein um ákveðna staðalímynd sjálfboðaliða í Palestínu. Nú ætla ég að skúbba hann og vera í anda breska gotublaðsins svolitið neikvæður. 

 

Til þess að einfalda málið má draga fólk sem álpast til Palestínu í tvo dilka; grænmetisætur og kjötætur.

Í fyrrnefndum hópi eru hinir rammpólitísku; róttækir vinstrimenn sem kalla sig aktivista - eða aðgerðarsinna á einhverskonar íslensku - og hluti af þeirra lífstíl er að sniðganga kjöt.

Grænmetisæturnar gnísta tönnum þegar þær heyrir minnst á Ísland - hvaldrápslandið! Þannig er síðuskrifari orðinn sjálfsskipaður talsmaður ,,Íslenskra villimanna" með tilheyrandi dissi:  Hvað hafa þessar mögnuðu skepnur eiginlega gert Íslendingum til þess að verðskulda þessi svívirðilegu grimmdarverk! - Víst eru hvalir í útrýmingarhættu, er það ekki annars?

Þetta sama fólk gerir Bush Bandaríkjaforsetja að blóraböggli fyrir öllu slæmu í heiminum, hvort sem það er Írakstríðið eða ástarmál einkalífsins.

Loks þekkja grænmetisæturnar flestar einhvern sem fór til Íslands í sumar og var handtekinn á Kárahnjúkum fyrir róttækar mótmælaaðgerðir.

Dæmi um náunga sem fellur undir þennan flokk er Will nokkur, 23 ára Bandaríkjamaður sem starfar sem sjúkraflutningamaður í Nablus. Áður en hann kom til Palestínu bjó hann í litlu skýli á toppi risatrés í regnskógi Kaliforníufylki í Bandaríkjunum til þess að koma í veg fyrir að tréð yrði fellt af skógarhöggsmönnum. Þar hékk hann sleitulaust í hvorki meira né minna en eitt og hálft ár og hafði þá loks sigur!

Kjötæturnar eru frekar hinir forvitnu ferðalangar sem koma til Palestínu til þess að fræðast um ástandið á svæðinu. Fylgjast oftast aðgerðarlausir, eða í mestalagi haldandi á  skrifblokk og blýant, með ýmsum uppákomum þar sem grænmetisæturnar stökkva til.

Undir þennan flokk falla svokallaðir eilífðarferðalangar. Fólk sem hefur verið að heiman í mörg ár, þvælst um öll heimsins horn og ,,lent í ýmsu".

Týpan er oft frekar róleg og mátulega værukær; eiginleikar sem koma sér vel á löngum ferðalögum.

Jason, þrítugur Breti, er gott dæmi um kjötætu. Hann hefur nánast bókstaflega heimsótt öll lönd í heiminum á síðastliðnum sjö árum. Til þess að fjármagna reisuna hefur hann selt fíkniefni í Bandaríkjunum, unnið við landbúnað í Danmörku og nú síðast kennt ensku í einkaskóla í Suður Kóreu.

 


Vinur minn var myrtur

Modirinn og myrti sonurinn

Hinn fimmtán ára gamli Jamil Mohammad Jabji, kunningi minn frá því ég vann í Askar flóttamannabúðunum, var myrtur af ísraelskum hermanni nýverið. Hann var skotinn í höfuðið á leið heim úr skólanum og lést samstundis.

Sjónvarvottar segja að hermenn hafa haft afskipti af drengjahópi sem Jamil tilheyrði skammt frá New Askar flóttamannabúðunum þar sem hann bjó. Fljótlega hafi unglingarnir byrjað að kasta steinum í jeppa hermannanna og þeir þá brugðist við með því að skjóta í átt að drengjunum. Jamil varð fyrir skoti þegar hann var á hlaupum undan skothríðinni.  

Jamil þekkti ég ágætlega þar sem hann var tíður gestur í New Askar félagsheimilinu, þar sem ég starfaði í rúman mánuð. Hann var þekktur fyrir mikla tónlistarhæfileika og átti það til að hrekja mig úr bælinu með miklum látum þar sem ég svaf iðulega í tónmenntarstofunni.


Handtekinn fyrir tilraun til að hjálpa veiku barni

c_documents_and_settings_notandi_desktop_sunnlenska_palestina_4des_erikarrested111.jpg

erikarrrested333Ég var handtekinn af Ísraelskum hermönnum og látinn dúsa í gærsluvarðhaldi í rúmar fimm klukkustundir eftir að hafa ,,óhlýðnast" skipun hermanns á Huwwara-herhliðinu við borgina Nablus síðastliðinn laugardag.

--

Hundruð Palestínumanna biðu þess að fá að komst í gegnum Huwwara-hliðið þennan eftirmiðdag. Ísraelskir hermenn, sem stjórna alfarið umferð gegnum hliðið, höfðu lokað því fyrr um daginn og því hafi óvenjumikið fjölmenni safnast þar saman.

Þegar ég kom á staðinn tók ég eftir palestínskri konu sem bað örvæntingarfull um að fá að vera hleypt í gegn án þess að bíða í röð þar sem barnið hennar væri fárveikt. Ég reyndi að bakka upp málstað konunnar með því ræða við hermennina um það sem amaði að barninu. En þeir gáfu ekkert eftir, öskruðu í staðinn eitthvað á hebresku og gáfu til kynna með handapati og á bjagaðri ensku að ég ætti að hypja mig, ella hlyti ég verra af. Ég vildi hinsvegar fá svör við spurningum áður og endurtók því mál mitt. Svörin fékk ég ekki. Í staðinn var ég skyndilega gripinn af þremur hermönnum, snúinn niður og handjárnaður fyrir aftan bak einsog sjá má á meðfylgjandi myndum.

 

Hermennirnir sögðu við Ísraelsku lögregluna að ég hefði slegið einn þeirra að tilefnislausu og því verið handtekinn. Það var auðvitað uppspuni frá rótum.

Eftir að hafa setið hlekkjaður á Huwwara í klukkustund var mér ekið á lögreglustöð í Ísraelskri landnemabyggð skammt frá. Þar var ég látinn dúsa í fangaklefa uns lögreglumennirnir tóku af mér skýrslu. Þeir þóttust vilja leysa þetta málá staðnum og buðu mér frelsi með því skilyrði að ég undirritaði samning þar sem sagði að ég myndi ekki snúa aftur til Nablus. Því neitaði ég enda ekki sekur um meinta líkamsárás. Loks gáfust þeir upp, sögðu að ég mætti fara ef ég lofaði að ,,angra" ekki ísraelska hermenn framar. Ég mun vafalaust ekki standast það ...

Það er kannski hálf sjálfhverft hjá mér að vera rekja raunir mínar yfir jafn ómerkilegri handtöku sem þessari á meðan Palestínumenn eru mun verr settir. Þeir búa við allt annað dómskerfi en Ísraelar og alþjóðaliðar. Þeim má lögregla halda í gæsluvarðhaldi í átta daga án þess að birta ákæru, sem getur á endanum verið fyrir einhverja smámuni. Þar af leiðandi hefur þriðjungur fullorðinna Palestínumanna einhvern tímann á ævinni þurft að afplána dóm. Ástæðan er áreiðanlega ekki sú að Palestínumenn séu glæphneigðari en annað fólk!  

--

Borgin Nablus er umkringd fimm herhliðum og er heimamönnum á aldrinum 16 - 25 ára meinaður aðgangur bæði inn og út sem þýðir að þeir eru innilokaðir í borginni. Huwwara er eitt mest notaða Nablus-hliðið, örtröðin getur stundum verið svo mikil að menn þurfi að bíða í tvær til þrjár klukkustundir eftir að fá að komst í gegn. Ofan á þetta bætist svo bið á fleiri vegatálmum á Vesturbakkanum og þannig getur 35 kílómetra ferð frá Nablus til Ramallah tekið um sex klukkustundir!

Á hinum hernumda Vesturbakka Palestínumanna eru 72 varanleg hlið og um 25 tímabundin ásamt fjölda óvæntra vegatálma sem kallast ,,flying checkpoints".


Fleiri myndir

Myndasmiðir í Balata

Milli þess að tína ólívur og kljást við landnema og hermenn hef ég verið að sinna ljósmyndaverkefni í Balata-flóttamannabúðunum í Nablus. Þar vinn ég með hópi efnilegra ljósmyndara sem standa á bak við hina glæsilegu heimasíðu picturebalata.net.


Lygamelurinn frá News of the world


Breska götublaðið News of the world er mest selda fréttablað í heiminum. Það er líka einn illskeyttasti og uppblásni snepill sem fyrirfinnst og gengur ævinlegra lengra en systurblöð sín, The Sun og The Mirror, en öll þessi blöð tilheyra fjölmiðlabaróninum Robert Murdok.

 

David McGee heitir blaðamaður News of the world. Hann er frægur fyrir að villa á sér heimildir og grafa með því upp sandala eins og þennan. Nokkuð aðdáunarvert.

 

Nú er David þessi staddur í Palestínu og Ísrael, á hnöttunum eftir uppslætti um hin umdeildu ISM-hjálparsamtök og sjálfboðaliðina sem tilheyra þeim, þó aðallega þá bresku.

 

Með klókindum tókst honum að hafa upp á ISM-ólívuhópnum í Nablus og sótti hart að því að fá að gista á heimili þeirra í gamla bænum. Bretarnir í hópnum umturnuðust þegar þeir fréttu að hingað væri kominn endaþarmur bresku blaðamannastéttarinnar. Það kæmi sko ekki til greina að hleypa honum inn, við skildum hitta hann á kaffihúsi og segja sem allra minnst.

 

Þrír Bretar og einn Íslendingur fóru loks á kaffihús bæjarins til þess að fæða hrægamminn. Miðað við orðsporið sem fór af honum átti hópurinn eiginlega von á sjarmerandi töffara. Í staðinn reyndist þetta vera aumkunarverður náungi á fertugsaldri sem bar það einhvern veginn utan á sér að vera óheiðarlegur. Allt sem hann sagði var tóm tjara ...

 

Hann sagðist vera í sumarleyfi í Ísrael og hugðist skoða alla helstu ferðamannastaði landsins. Fyrst vildi hann hinsvegar sjá Nablus og kynna sér starfsemi vestrænna túrista þar.

 

,,Þessir gyðingar, hvers vegna eiga þeir það til að ráðast á Palestínumenn," spurði hann til að mynda eins og afbarnslegri forvitni, augljóslega að fiska eftir því að hópurinn léti gamminn geysa um það hvað gyðingar væru vondir og ættu allt illt skilið. ,,Ég skil, þeir eru svona eins og helvítis sígaunarnir sem þvælast um í vegkantinum, er það ekki," skaut hann meðal annars lævísilega inn í samtalið í von um að geta lagt okkur orð í munn. Við bitum hinsvegar ekki á agnið og fljótlega gafst hann upp, fór á hálfgerðann bömmer yfir þessari fýluferð til Nablus.

 

Fyrirfram ákveðin saga um þetta umtalaða ISM-hyski gekk ekki upp. Við hefðum átt að vera einhvern veginn svona: Breskir róttæklingar í Palestínu uppfullir af hatri í garð júða og í þokkabót dópistar og drykkjuræflar!

 

Síðuskrifari hefur hingað til verið lesandi News of the world en var svakalega svekktur yfir viðvaningslegum vinnubrögðum stjörnublaðamannsins. Hefði hann gerst sjálfboðaliði fyrir samtökin undir fölsku flaggi - sem hann hefur sennilega ekki haft tíma fyrir - myndi hann umsvifalaust koma upp um sig. Klaufagangurinn og óöryggið var slíkt.

 

Nú er spurning hvað hann skrifar. Ekki getur hann sagt ritstjóranum sínum að ferðin til Ísrael hafi verið til einskins.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband